4. júní 2017: Arlanda - Märsta

Lenti á Arlanda flugvelli um hádegi og var búin að ákveða að fyrsta dagleið yrði stutt því flugið frá Íslandi var eldsnemma morguns og ég vissi að ég yrði nánast ósofin. Þegar ég var að setja hjólið mitt saman fyrir utan flugstöðina vakti ég nokkra athygli enda kannski ekki algengt að kona á miðjum aldri, ein á ferð, sé að pakka upp reiðhjóli og greinilega á leið í langferð miðað við allar hjólatöskurnar sem lágu í kringum mig. Var mikið spurt hvaðan ég væri og hvert ég væri að fara og af hverju ég ætlaði þessa leið. Svarið var að ég hafði búið í Svíþjóð í stuttan tíma á árum áður og hafði verið með annan fótinn þar í nokkur ár eftir að ég flutti heim svo Svíþjóð væri mér kær og mig langaði að sjá meira af landinu.  Dóttir mín bjó í Berlín þegar ég fór að skipuleggja þessa ferð og því ekki að hjóla til hennar fyrst ég væri nú hvort sem er farin á flakk. Hún var reyndar flutt aftur heim þegar ferðin var farin en það breytti engu um ferðaplönin. Ég var búin að panta gistingu í Märsta áður en ég fór að heiman og þar sem ég var vel kunnug bænum var notalegt að koma þangað og eyða deginum þar. Fyrsta dagleið var um 15 kílómetrar.

 

5. júní 2017: Märsta – Västerås.

Lagði af stað upp úr klukkan átta í mikilli rigningu. Ég þekkti leiðina til Sigtuna og kveikti því bara á GPS tækinu og var ekkert að skoða hvaða leið ég ætti að fara fyrr en ég kom inn í bæinn og ætlaði að leggja af stað í átt að Västerås. Þegar til kom náði tækið mitt ekki sambandi við evrópska götukortið sem ég var með og hafði notað árinu áður í þýskalandi þar sem það hafði virkað vel. Ég var með annað kort á mér sem var hjólakort af Evrópu; get ekki mælt með því korti því það vísaði mér alltaf lengstu leiðina en trúlega þá fallegri líka. Það var hvorki hægt að slá inn land né heimilisfang og átti þetta eftir að lengja dagleiðirnar mikið og gera ferðina erfiðari en til stóð. Sem betur fer var ég með kort í símanum sem hjálpaði mér aðeins en þarna var enn dýrt að nota símann í öðru landi svo ég sparaði hann eins og ég gat. Þegar ég kom til Västerås ætlaði ég að gista á tjaldstæði sem ég var búin að finna á netinu en ég hjólaði um bæinn og fann það bara alls ekki. Þegar ég kom á heimilsfangið þar sem  skráð tjaldstæði átti að vera var búið að loka því og staðurinn orðinn heimili fyrir hælisleitendur. Áfram hjólaði ég um bæinn og fann ekkert svo ég endaði á að kaupa ódýra gistingu. Ég var rétt komin í hús þegar það kom úrhellis rigning og var ég þá ósköp fegin að vera ekki í tjaldi. Þennan dag hjólaði ég bæði á hjólastígum, á veginum og eins var á sumum vegum hliðarrein afgirt fyrir reiðhjól svo mér fannst ég mjög örugg þegar ég hjólaði þessa 104 kílómetra til Västerås.

 

6. júní 2017: Västerå - Örebro

Upp úr klukkan átta lagði ég af stað og var stefnan sett á Örebro. Ég hafði reiknað út að leiðin væri um 95 kílómetrar en annað átti eftir að koma á daginn. Veðrið var fallegt, lítill vindur og sólin skein. Þegar ég var komin um einum kílómetra framhjá þeim stað þar sem ég gafst upp kvöldinu áður við að leita að tjaldstæði kom ég að þessu glæsilega tjaldstæði. En þar sem það hafði rignt fram eftir kvöldinu áður gat ég huggað mig við að vera allavega með þurran farangur. Ég var fljótlega komin á sveitaveg sem gaman var að hjóla og var ein í heiminum enda snemma á ferð.  Þjóðhátíðardagur Svía var þennan dag og fáir á ferli. Náði samt að villast aðeins en það voru bara tíu kílómetrar í mínus. Þegar ég var að hjóla út úr bænum Köbing sá ég annan hjólreiðamann meira klyfjaðan en ég þar sem hann var að skoða kort. Ég stoppaði og spjallaði við hann. Hann spurði mig á hvaða ferðalagi ég væri og hvert ég væri að fara. Þegar ég sagðist vera frá Íslandi ljómaði hann og sagðist einmitt vera á leiðinni þangað þar sem hann ætlaði að vera í sex vikur að hjóla um landið og þetta yrði þá önnur ferðin hans til Íslands. Ég heyrði að hann talaði ekki sænskuna eins og innfæddur svo ég spurði hvaðan hann væri og þegar hann sagðist vera Þjóðverji var gaman að segja honum að ég væri á leiðinni til Þýskalands. Skemmtileg tilviljun. Við hjóluðum saman þennan dag en ég var á leið til Örebro og hann til Noregs  svo leiðir skildu en við ákváðum að hittast þegar hann kæmi til Íslands. Ég hafði pantað mér gistingu á farfuglaheimili og þegar þangað kom var mér vísað í herbergi með átta kojum. Ég var ein til að byrja með en seinna um kvöldið kom karlmaður í herbergið og fannst mér frekar óþægilegt að vera ein í herbergi með ókunnugum manni svo piparúðinn sem mér var gefin fyrir ferðalagið var ekki langt undan. Þetta var reyndar fínn karl frá Skáni í viðskiptaferð í Örebro og gaman að spjalla við hann. Kílómetrarnir urðu 140.

 

7. júní 2017: Örebro – Askersund.

Það var búið að spá mjög slæmu veðri þennan dag, miklum vindi og enn meiri rigningu með þrumum og eldingum og þannig var spáin fyrir næstu daga á þessu svæði svo ég var hálf kvíðin fyrir deginum. Ég hafði samband við bróðurdóttur mína sem býr í Sölvesborg á Skáni og ákvað að taka lestina til hennar og hjóla þá þaðan í rólegheitum til Kaupmannahafnar. Ég fór því beint á brautastöðina til að athuga með lestarferð en þar var mér sagt að ég yrði að pakka hjólinu í kassa til að fá að taka það í lestina. Ég spurði þá um rútuferð en fékk sama svar; pakka hjólinu í kassa. Ég fann þá út hvar næsta hjólabúð væri og spurði hvort þeir gætu pakkað hjólinu í kassa en svarið var: „Nei det går inte i dag kanske í morgon“.  Ég fékk þó hjá þeim illa farinn kassa og límbandsrúllu og gekk rúman kílómetra,  teymandi hjólið með öllum farangri og haldandi á risastórum pappakassa. Það hefur trúlega verið skondin sjón. Þegar á lestarstöðina kom reif ég allt af hjólinu og ætlaði að fara að taka það í sundur en fann ekki stykkið sem sett er upp í bremsuna svo glussinn leki ekki úr þegar dekkið er farið af. Það var sama hvað ég leitaði í öllum farangrinum, ekki fann ég þetta litla plaststykki og sá ég því að ég yrði bara að halda plani og hjóla til Karlsborg eins og ég ætlaði í byrjun. Dagleiðin átti að vera 107 kílómetrar samkvæmt mínum útreikningum. Veðrið var slæmt, mikil rigning og mótvindur en ég silaðist þó rólega áfram, kíkti á símann og taldi mig vera á réttri leið. Það þýddi ekkert að skoða kort enda hefði það rennblotnað á nokkrum sekúndum. Þegar ég var búin að hjóla um 25 kílómetra kom ég að bensínstöð og ákvað að flýja úrhellið og kíkja á kortið. Það voru mikil vonbrigði þegar ég sá að ég var að fara í alveg öfuga átt við Karlsborg svo það var ekki annað í stöðunni en að snúa við og blóta sjálfri mér en mikið fannst mér gott að vera ein að villast þetta. Verra hefði verið ef ég hefði verið með ferðafélaga sem  hefði skellt skuldinni á mig.  Ég ákvað að hjóla þar til ég væri komin í 100 kílómetra yfir daginn. Ég neyddist til að hjóla á veginum þar sem var mikil umferð af stórum vöruflutningabílum og verð að játa að ég var frekar hrædd um líf mitt þennan dag. Loks komst ég á sveitaveg sem leiddi að bænum Askersund sem er fallegur bær efst við Vättern vatn. Það voru góðar móttökurnar þegar ég kom á gististaðinn. Þegar ég var spurð hvernig hjóladagurinn hefði verið sagði ég sem satt var að þetta hefði verið versti hjóladagur lífs míns. Hjólið var sett í ráðustefnusalinn yfir nóttina og stúlkan í móttökunni bar með mér töskurnar inn á herbergið mitt en ég ákvað að splæsa á mig hótelherbergi eftir þennan erfiða dag. Það fyrsta sem kom í ljós þegar ég tæmdi mittistöskuna um kvöldið var litla plaststykkið fyrir bremsurnar sem ég hafði leitað sem mest að í Örebro. En nú var ég komin 50 kílómetra í mínus miðað við planið mitt. Kílómetrarnir urðu 114.

 

8. júní 2017: Aksersund – Jönköping.

Eftir góðan svefn og ferð í búðina að kaupa nesti yfir daginn lagði ég af stað. Það var enn vindur og einhver úrkoma og aftur þurfti ég að hjóla á vegi þar sem töluverð umferð var af stórum bílum og aftur ákvað ég að hjóla 100 kílómetra og taka stöðuna. Ég var líka búin að ákveða að ef ég kæmist lifandi til Jönköping þennan dag ætlaði ég að reyna að taka lest niður til Halmstad og spara mér tveggja daga hjólaleið því mér fannst ekkert vit að hjóla á þessum fjölförnu vegum.  Það voru nákvæmlega 50 kílómetrar í Karlsborg, bæinn sem ég hafði ætlaði að enda á deginum áður. Ég fór að skoða gististaði fyrir næstu nótt og fann tjaldstæði í um 35 km fjarlægð frá Jönköping en ég sá líka að það gekk  Pendeltåg til Jönköping og ég vissi að í þannig lest gæti ég tekið hjólið með í heilu lagi. Ég tók því  lest síðustu kílómetrana og það var notalegt að koma á tjaldstæðið í Jönköping. Þegar ég tékkaði mig inn bað afgreiðslukonan mig um vegabréf sem ég  rétti henni samviskusamlega en hún tók það og fór út úr herberginu sem  mér fannst skrítið. Þegar hún kom aftur var hún með íslenska konu með sér sem vann á tjaldstæðinu. Þetta var skemmtilegt tilviljun og gaman að hitta og spjalla við landa minn. Kílómetrarnir urðu 141.

 

9. júní 2017: Jönköping – Halmstad - Mellbystrand

Ég var lögð af stað niður á lesarstöð fyrir klukkan sjö um morguninn því ég hafði séð að það færi lest til Halmstad rétt uppúr klukkan átta. Þegar ég talaði við starfsmanninn í afgreiðslunni sagði hún að ég yrði að pakka hjólinu í kassa en hún benti mér á að tala við rútufélagið því kannski mætti taka hjólið í heilu lagi þar. En þar var sama svarið í kassa yrði hjólið að fara en þeir bentu mér á að fara upp á aðra hæð því þar væri afgreiðsla Krösatåget og þar mætti fara með reiðhjól í heilu lagi. Ég var mjög sátt með að þetta fólk var tilbúið að hjálpa mér og benda mér á aðra valkosti, annað en í Örebro þar sem engin gat bent mér á neitt og alltaf var svarið NEI. Þegar ég kom upp á aðra hæð og afgreiðslumaðurinn sagði mér að það væri ekkert mál að taka hjólið með varð ég svo glöð að ég nánast faðmaði manninn.  Það var notalegt að koma í lestina og að hafa hjólið við hliðina á mér, þurfti ekki einu sinni að taka töskurnar af, því nóg var plássið. Þegar lestin var hálfnuð til Halmstad stoppaði hún og tilkynnt var að vegna bilunar færi hún ekki lengra – úff hvað var þetta með mig og lestarferðir. Rúta átti að koma og sækja hópinn og keyra okkur til Halmstad sem var í um 100 km fjarlægð. Þá var það spurningin, fengi ég að fara með hjólið í rútuna? Bílstjórinn varð nú bara hissa þegar ég spurði, bað mig að taka töskurnar af hjólinu og svo skellti hann því í heilu lagi í farangursrýmið. Þetta var nú ekki meira mál en það. Seinni part dagsins vorum við komin til Halmstad. Hjólastígarnir þarna voru eins og af öðrum heimi miðað við það sem ég hafði upplifað dagana á undan og hjólaði ég Kattegatleden til Mellbystrand. Þarna var sól og blíða og gisti ég á litlu en eldgömlu hóteli við ströndina. Kílómetrarnir urðu 35.

 

 

10. júní 2017: Mellbystrand – Helsingör

Að venju lagði ég af stað upp úr klukkan átta í dásamlegu veðri, sól og hita. Landslagið var frekar flatt þar til ég kom að einu brekku dagsins en þar var hækkunin 180 metrar á tæpum fjórum kílómetrum. Það tók á að hjóla með fullhlaðið hjólið upp þessa brekku en þarna voru margir á keppnishjólum að fara upp og niður enda góð brekka til æfinga. Það var svo frábært að renna niður brekkuna. Í Helsingborg tók ég ferjuna yfir til Helsingör. Þegar þangað var komið skoðaði ég kastalann og hjólaði aðeins um bæinn áður en ég fór í náttstað. Kílómetrarnir urðu 73.

 

11. júní 2017: Helsingör – Kaupmannahöfn

Það var hávaða rok beint í fangið en hlýtt þegar ég lagði af stað frá Helsingör í átt að Kaupmannahöfn. Ég ætlaði nú að hjóla alla leið en var að flýta mér því mig langaði að hitta ferðafélaga mína á Kastrup þegar þau kæmu með fluginu um hádegi . Leiðin er ekki nema um 50 km svo ég sá að það ætti að takast. En ég náði að villast í Hörsholm  á leiðinni og þegar ég spurði til vegar var mér sagt að fara fram hjá lestarstöðinni og svo eitthvað. Ég hætti hinsvegar að heyra eftir orðið lestarstöð og spurði hvort ég gæti tekið hjólið með í lestina og fannst fólkinu þetta skrítin spurning, auðvitað mætti ég taka hjólið með. Þannig að ég tók lest að Österport. Þegar  þangað var komið var GPS-ið batteríslaust og hvergi fann ég auka batteríin. Það var mjög heitt þennan dag og náði ég að villast fram og til baka í borginni. Ákvað því að sleppa því að fara á flugvöllinn og koma mér frekar út á Amager þar sem við ætluðum að gista. Ferðafélagarnir komu svo stuttu á eftir mér þangað en ætlunin var að ég kæmi þangað 12. júní en þar sem ég hafði tekið lestina frá Jönköping til Halmstad og sparað mér þannig tíma gat ég  hvílt mig í tvo daga áður en næsta ferð hæfist.  Þann 14. júní  lögðum við svo af stað frá Kaupmannahöfn til Berlínar og vorum þá orðin fjögur talsins.

 

Mörgum þótti það undarlegt að vilja hjóla ein á milli Stokkhólms og Kaupmannahafnar en það er ákvörðun sem ég sé ekki eftir. Gott að hafa öðlast vissu á því að geta bjargað sér ein á hjólinu í þetta marga daga, kynnast nýju fólki og upplifa ferðina öðruvísi heldur en ég hefði gert í félagsskap, sama hversu góður sá félagsskapur er. Ókunnugt fólk gefur sig á tal við mann og forvitnast hvert maður sé að fara svo það var alltaf einhver til að spjalla við; í nestisstoppi, á gististöðum, í lestinni og ferjunni. Ég hef verið spurð hvort ég hafi ekki verið hrædd en ég fann aldrei fyrir ótta né óþægindum nema í Örebro þegar ég deildi herbergi með ókunnugum manni en sá ótti var ástæðulaus. Piparúðanum mundi ég sem sagt bara eftir á þessum eina stað. Eftir þessa reynslu er ég örugglega ekki hætt að ferðast ein bara spurning hvenær og hvert ég fari næst.

Guðrún Hreinsdóttir

Birtist fyrst í Hjólhestinum mars 2018.

Fleiri myndir Guðrúnar á Flickr: Hjólað frá Stokkhólmi til Kaupmannahafnar

Myndirnar eru bæði úr þessari ferð og ferðalaginu áfram til Berlínar sem Grétar fallaði um hér: Kaupamannahöfn – Berlín 2017

 

Hjólað Stockholm-Kaupmannahöfn-Berlín 4.-19.júní 2017