Næsta fimmtudagskvöld verður hjólreiðakeppnin Jökulmílan kynnt.
Jökulmílan er lengsti einstaklingsmiðaði hjólreiðaviðburður sem er skipulagður árlega á Íslandi. Hringurinn meðfram strandlengju Snæfellsness, vestur fyrir Jökul og til baka um Vatnaleið er 160,9 km langur, eða nákvæmlega 100 mílur. Jökulmíluna er því með sönnu hægt að kalla „Aldarskeið“ eða á ensku „Century Ride“ sem er vinsæl tegund hjólreiðaviðburða vestanhafs. Við skipuleggjendur Jökulmílunnar, viljum höfða til breiðs hóps hjólreiðamanna eins og gjarnan er með slíka viðburði. Við skorum á þig að reyna „Míluna“ á þínum eigin forsendum óháð því hvað aðrir kynnu að hjóla hana hægt eða hratt.
Jökulmílan hefst og endar í Grundarfirði og er hringurinn um hið ægifagra Snæfellsnes hjólaður rangsælis. Fyrir þá sem vilja í fyrstu prófa styttri vegalengd verður jafnframt boðið uppá Hálfa-Jökulmílu, sem er um 74 km og hefst á Búðum og endar í Grundarfirði.
Kaffi og meðlæti verður á boðstólnum.
Sjáumst,
Húsnefnd
Nánari upplýsingar: http://www.jokulmilan.is/