Hjólreiðafólk á því ekki að sjást þar frekar en aðrar rottur í þeirri götu!! Það er í raun með endemum að borgaryfirvöld skuli samþykkja slíka ákvörðun því þetta er í tómri mótsögn við það sem er að gerast í nágrannalöndunum. Þarna er nóg pláss fyrir hjólreiðabraut ef bílastæðum væri fækkað um ca. 40.
Þar sem nærveru okkar er ekki óskað við Laugaveginn skulum við ekki versla þar og vonast til að aðrir geri það ekki þar til kaupmannasamtökunum snýst hugur.
Magnús Bergsson
Hjólað með strætó.
Batnandi fyrirtækjum er best að lifa! Nú hafa Strætisvagnar Reykjavíkur fjölgað þeim vögnum sem taka reiðhjól á sínum leiðum. Er um að ræða leið 14,15 og 115 í Grafarvog. 10 og 110 í Árbæ. 11, 12, 111 og 112 í Breiðholt. Er hjólreiðafólk beðið um að greiða fargjaldið hjá vagnstjóra áður en það fer með hjólið inn að aftanverðu. Þar verða engar sérstakar festingar fyrir hjólin og er hjólreiðafólk því beðið um að styðja við þau á meðan á ferðinni stendur eða læsa því kyrfilega með lás við handföngin. Börn yngri en 12 ára verða að vera í fylgd með fullorðnum.
Magnús Bergsson
Á kúpuna
Í vetur var kunningi minn á labbi niðri í bæ þegar hann var keyrður niður af hjólreiðamanni. Hann slasaðist mjög mikið, höfuðkúpubrotnaði meðal annara áverka. Þegar við fórum að grafast fyrir um tryggingarmálin kom í ljós að hjólreiðamaðurinn var ábyrgur fyrir bótagreiðslum upp á mörg hundruð þúsund krónur. Sem betur fer slapp hann vel þar sem hann var tryggður fyrir þessu.
Nokkuð margir og stöðugt fleiri hjóla reglulega á stígum borgarinnar og koma þar iðulega upp ýmsar aðstæður sem fyrr eða síðar gætu valdið slysum. Sem dæmi má nefna, sem oft kemur upp; hjólreiðamaður á merktum hjólreiðastíg sér barn, fullorðinn eða hund á stígnum. Hvað skal gera? Beygja til hægri eða vinstri? Negla niður og bíða þess að viðkomandi fari frá? Snöggar ákvarðanir eru oft þarfar við þessar aðstæður og mistök gætu orðið dýr. Höggið við árekstur yrði mjög mikið, kannski eins og að fá á sig tvo sementspoka - samtals 100 kg - á 30km hraða, og gæti valdið miklum skaða.
Ef hjólreiðamenn fara af stígunum út á göturnar geta komið upp þau atvik að hjólreiðamenn detti utan í kyrrstæða bíla eða valdi tjóni á þeim á annan hátt og hvað þá? Á KÚPUNA hefur því tvíræða merkingu. þ.e. að detta á hausinn eða að verða gjaldþrota.
Sé hjólreiðamaður með heimilistryggingu á hann að vera tryggður ef hann veldur tjóni á eignum eða einstaklingum. Innbústrygging hjálpar hinsvegar ekki. Fólki er endilega bent á að skoða tryggingarmálin sín og leita til tryggingarfélaganna sinna eftir frekari upplýsingum áður en þeir fara Á KÚPUNA.
Albert Jakobsson
10.000 km net stíga
Af hverju hjóla Bretar ekki? Aðeins fjórðungur þeirra 20 milljón reiðhjóla sem eru í Bretlandi eru talin vera í reglulegri notkun. Í Danmörk eru 20% allra ferða á hjólum, í Bretlandi aðeins 2.5%. 4.5 milljarðar króna úr breska lottóinu eiga að bæta þar úr. Fjármagnið á að nota til að fjármagna yfir 10 þús. km. net hjólreiðastíga sem mun liggja innan 3 km frá þriðjung allra heimila. Tímabært verkefni því syðsti þriðjungur Bretlands er einn sá þéttbýlasti í heimi. Umhverfisverndarsinnar gera lagningu nýrra vega erfiða og þeir sem fyrir eru eru ofhlaðnir umferð. 1994 lýsti hin Konunglega Nefnd um Umhvefismengun yfir að trúlega væri stærsta umhverfísógn Breta aukning umferðar og mælti með fjórföldun hjólaferða. Slíkar tillögur mælast vel fyrir hjá nýjum ráðherra samgöngumála, Sir Georg Young sem hefur hjólað um London árum saman.
(Þýtt úr Newsweek. 25. sept 1995 - Páll Guðjónsson)
Raunir rúntara
Kæri sáli. "Fyrir nokkrum mánuðum varð ég fyrir mjög óþægilegri reynslu, sem hefur fylgt mér síðan sem eins konar fælni gagnvart því að sitja fastur í umferðarteppu... Ég var á leið niður Laugaveg... og lendi þá í umferðarteppu, þar sem hvorki gekk né rak í talsvert langan tíma, að mér fannst. Skyndilega flautar bíll við hlið mér og mér bregður svo að kaldur sviti sprettur út á mér og ákaflega sterk vanlíðunartilfinning hellist yfir mig. Síðan hef ég forðast að aka um fjölfarnar götur, þar sem líkur er á að ég teppist í umferðinni. Jafnvel bið við umferðarljós veldur mér vægri vanlíðunartilfinningu... Hvernig er best að vinna sig úr þessu?"
Svar: "...Fyrirspyrjandi var illa fyrirkallaður og umferðarteppan magnaði upp vanlíðan hans. Umferðin verður síðan kveikjan að svipaðri líðan í umferðinni almennt... meðferð er gjarnan fólgin í því að tengja hinar óttavekjandi aðstæður við vellíðan... Þetta getur viðkomandi reynt sjálfur með því að aka ekki nema vel fyrirkallaður og í góðu skapi, hafa með sér skemmtilegan félaga í bílnum eða hlusta á ljúfa tónlist, temja sér slökun og NJÓTA ÞESS AÐ VERA FASTUR í UMFERÐINNI..."
(Stytt úr sálfræðidálk Morgunblaðsins 24.02.96. Páll Guðjónsson.)
Ef að þið þekkið fólk sem líður svona illa í bílum sínum og þarf sálfræðimeðferð til að læra að njóta þess að vera fastur í umferðinni má benda þeim á aðra valkosti í samgöngum svo sem að ganga og hjóla.
Páll Guðjónsson
Birtist fyrst í Hjólhestinum 2. tbl. 5. árg. maí 1996