Aðalfundur ÍFHK var haldinn fimmtudaginn 30. nóv. í klúbbhúsinu að Brekkustíg og fór friðsamlega fram eins og vant er. Lítið var um breytingar nema hvað ákveðið var að hækka félagsgjaldið og koma með nýja gjaldflokka fyrir yngri kynslóðina og annan fyrir fjölskyldur. Einnig var samþykkt að færa reikningsárið fram þannig að um það bil mánuður gæfist til að loka bókhaldinu, yfirfara og endurskoða fyrir aðalfund.

Klúbburinn var rekinn með tapi upp á 350þ.kr. auk kostnaðar við síðasta fréttabréf sem ekki gafst tími til að gera upp fyrir aðalfundinn.  Þetta helgast af því að miklu hefur verið varið til viðhalds á klúbbhúsinu á árinu en klúbburinn borgar einmitt leigu af húsnæðinu með því að viðhalda því og má líta svo á að með þessu hafi verið fyrirfram greidd leiga á húsnæðinu. Samtals var varið 910þ.kr. til viðhaldsins og er þá ótalin geysimikil sjálfboðavinna sem einnig reiknast inn í leiguna. Á móti kom rausnarlegur styrkur frá ÍTR upp á 500þ.kr. og klúbburinn fékk líka málningarstyrk frá Hörpu sem verður vonandi nýttur á vordögum þar sem ekki náðist að mála húsið í haust.

Enn er opið fyrir nýtt fólk inn í nefndir og verður áfram. Við hvetjum sem flesta til að koma til liðs við klúbbinn með virkum hætti og skrá sig í nefndir með því að t.d. senda póst á netfang klúbbsins því það er alltaf þörf á nýju fólki með nýjar hugmyndir og nýja sýn verkefnin.    


Hér eru nokkrar svipmyndir teknar á aðalfundinum sem sýna hvernig búið er að stækka efri hæðina og koma upp viðgerðaraðstöðu á neðri hæðinni. Margt á eftir að klára í húsinu en við stólum á rausnarlega hjálp ÍTR og fleirum til að klára það dæmi. En klúbbinn rekum við sjálf og fyrir okkar réttindamálum þurfum við að berjast sjálf og eftir því sem fleiri leggja hönd á plóg er viðbúið að við komum meiru áleiðis.

Páll Guðjónsson

TN_11300002.JPGTN_11300003.JPGTN_11300014.JPG