Hjólreiðasamningar
Verklagsreglur um framkvæmd og gerð hjólreiðasamninga starfsmanna Reykjavíkurborgar

1. gr. Markmið

Reykjavíkurborg vill stuðla að umhverfisvænum ferðamáta starfmanna sem þurfa að ferðast styttri vegalengdir vegna starfa sinna fyrir Reykjavíkurborg. Reykjavíkurborg vill einnig ýta undir heilsueflingu starfsmanna sjálfra sem kjósa að nota reiðhjól í stað einkabifreiða.

2. gr. Hjólreiðasamningur

Starfsmaður sem notar eigið reiðhjól í starfi sínu á grundvelli hjólreiðasamnings á rétt á greiðslu fyrir afnotin.

3. gr. Skilyrði fyrir hjólreiðasamningi

1.   Forstöðumaður meti þörf fyrir ferðir starfsmanns á reiðhjóli í þágu starfsins og jafnframt hvort hjólreiðar séu eftirsóknarverður ferðamáti með tilliti til tíðni og lengdar ferða.  Sviðsstjóri metur þörf fyrir ferðir forstöðumanns.

2.   Starfsmaður lýsir því yfir með undirskrift sinni að hann áformi að koma ekki almennt til vinnu á eigin bifreið og stuðla þannig að umhverfisvænni Reykjavík..

3.   Starfsmenn sem fá greiðslur á grundvelli hjólreiðasamnings fá ekki endurgreiddan kostnað vegna aksturs skv. akstursbók/samningi eða með leigubifreiðum nema um lengri vegalengdir sé að ræða.

4.   Hjólreiðagreiðslur til starfsmanna sem eru frá starfi vegna fæðingar- eða foreldraorlofs, launaðs leyfis eða launalauss leyfis falla niður.

5.   Hafi veikindi starfsmanns staðið samfellt lengur en í einn mánuð, skal honum greitt hlutfallslega fyrir þann tíma sem hann gegnir starfi.

4. gr. Hjólreiðagjald

Mánaðarleg greiðsla fyrir afnot af reiðhjóli starfsmanns skal jafngilda 50 km. akstri og skulu greiðslur taka mið af ákvörðunum Ferðakostnaðarnefndar ríkisins.

Ef forstöðumaður metur að greiða eigi fyrir afnot af reiðhjóli starfsmanns í þágu Reykjavíkurborgar gengur hann frá hjólreiðasamningi á stöðluðu eyðublaði sem mannauðsskrifstofa gefur út. Mannauðsskrifstofa skal fá undirritað eintak af hjólreiðasamningnum.

5. gr. Uppsögn á hjólreiðasamningi

Ef aðstæður breytast getur sviðsstjóri eða forstöðumaður sagt upp hjólreiðasamningi með eins mánaðar uppsagnarfresti. 

6. gr. Ábyrgð og eftirlitMannauðsskrifstofa Reykjavíkurborgar hefur yfirumsjón og eftirlit með hjólreiðasamningum starfsmanna Reykjavíkurborgar. Hún rýnir gerða samninga stofnana og getur eftir atvikum kallað eftir nánari upplýsingum um hjólreiðasamninga. Mannauðsskrifstofa ber ábyrgð á vörslu upplýsinga um hjólreiðagreiðslur til starfsmanna Reykjavíkurborgar.