Nokkur umræða hefur verið um mengun vegna bílaumferðar í miðborg Osló undanfarin ár, þar er þéttbýlt og ekki eins mikið um vinda sem blása burt menguninni eins og í Reykjavík. Mengun í Osló er sögð vera fimmfalt meiri en eðlilegt getur talist. Í textavarpi Ríksissjónvarpsins 15. desember á síðasta ári var birt niðurstaða skoðanakönnunar sem gerð var meðal íbúa í miðborg Osló. Átta af tíu sem spurðir voru vildu minnka bílaumferð í miðborginni. Rúmlega fimmtíu prósent vildu banna bílaumferð alfarið í miðborg Oslóar. Svipað hlutfall vildi leggja 10 þúsund króna nagladekkjaskatt á þá bifreiðaeigendur sem notuðu þann búnað. Það merkilegasta í könnuninni var þó, að bifreiðaeigendur voru ekki síður sammála þessum niðurstöðum.
29. apríl á þessu ári sögðu yfirvöld í Osló mengun af völdum bifreiða stríð á hendur. Meðal annars voru eftirfarandi tillögur lagðar fram. Að leyfa aðeins bílum með númer sem enda á oddatölu að aka um miðborgina annan daginn, en bílum með númer sem enda á sléttri tölu, hinn daginn. Banna skyldi notkun nagladekkja í miðborginni, minnka hámarkshraða á tveggja akreina götum úr 80 km/klst. í 60 km/klst. Og síðast en ekki síst átti að finna leiðir til að hvetja íbúana til að nota reiðhjól sem farartæki í stað bíla.
Til samanburðar má nefna frétt frá 16. desember þar sem erlendur fulltrúi ráðgjafafyrirtækis, sem fenginn var til að gera úttekt á skipulagi miðborgar Reykjavíkur, sagði það slæmt. Hann gagnrýndi meðal annars að ekki væri haft samráð við hagsmunasamtök verslunar og almennings.
Undirritaður vill minna hjólreiðafólk á að sniðganga alla verslun á Laugaveginum, einkum vegna þess að tekin var einhliða ákvörðun um að banna allar hjólreiðar á gangstéttum þar, í stað þess að gera ráð fyrir umferð hjólandi fólks um eina helstu verslunargötu Reykjavíkur. Þá var ekki rætt við hagsmunasamtök hjóreiðafólks. Þó að ýmsar breytingar hafi verið gerðar á Laugaveginum, þá verður seint gert ráð fyrir hjólandi umferð þar. Ástæða þess er víst sú að það þarf að fórna of mörgum bílastæðum ef leggja ætti hjólreiðarein eftir Laugaveginum. Svo standa bílageymsluhúsin í nágrenni Laugavegarins hálftóm. Ég var að velta því fyrir mér hvort fólk gerði mikil innkaup sitjandi í bílunum sínum? Kannski eigum við hjólreiðafólk bara að vera fegið, það er ekkert grín að vera á reiðhjóli í ólyktinni á Laugaveginum.
Og ekki mun þetta batna ef einhvern tíma verður byggt þak yfir Laugaveginn, eins og af og til er rætt um. Því loftmengun er vandamál í Reykjavík, ef eitthvað er að marka viðtal við framkvæmdastjóra veitustofnanna í Reykjavík á Stöð 2, þann 10. mars síðastliðinn. Hann vildi finna vistvænni farartæki fyrir miðborgina, rafknúna sporvagna, og litla rafmagnsbíla. Í fréttum núna í maí var svo að lokum sagt frá væntanlegum strætisvögnum sem ganga eiga fyrir vetni eða metangasi. Það er hið besta mál að nota faratæki sem nýta orkugjafa sem eru vistvænni en þeir sem notaðir eru í dag, en skyldu mennirnir aldrei hafa heyrt minnst á reiðhjól?
Unnið upp úr fréttum RÚV og fréttum Stöðvar 2.
Heimir H. Karlsson.
- Details
- Heimir H. Karlsson