Fjallahjólaklúbburinn stendur fyrir ferð yfir Heljardalsheiði þann
18. júlí. Heljardalsheiði var helsta samgönguæð milli Eyjafjarðar og
Skagafjarðar áður fyrr, áður en akvegur var lagður yfir Öxnadalsheiði.
Akvegur hefur aldrei verið lagður yfir Heljardalsheiði en vegslóði var
gerður yfir heiðina á níunda áratug seinustu aldar, sem er orðinn frekar
torfærinn í dag.
Lagt verður af stað frá Melum í Svarfaðardal (sjá staðsetningu á
korti) klukkan 8:45 á sunnudeginum og ferðin enduð á Hólum í Hjaltadal.
Leiðin er um 40 kílómetra löng en heiðarleiðin sjálf er um 20 kílómetrar
en restin er á akvegi. Áætlaður ferðatími er 6-9 klukkustundir. Hæðin
liggur hæst í 860 metra hæð og er hún tiltölulega brött og grýtt beggja
megin þannig að gera má ráð fyrir að teyma hjólin upp mesta brattann og
jafnvel eitthvað niður Skagafjarðarmegin. Ferðin krefst því að
þáttakendur séu í góðu formi og séu tilbúnir að takast á við erfiðar
aðstæður. Vaða þarf Kolbeinsdalsá þegar um klukkutími er eftir í Hóla í
Hjaltadal og getur það verið nokkuð krefjandi. Mismikið rennsli er í
ánni en menn hafa verið að vaða hana upp í hné og alveg upp í klof í
sumum tilfellum. Einhverjir snjóskaflar verða einnig á leiðinni nálægt
toppi heiðarinnar. Ferðin er því ekki síður ævintýraferð en hjólaferð.
Mælst er til að hafa farangur í bakpoka frekar en í töskum á hjólinu
þannig að auðveldara verði að koma hjólinu yfir torfærur. Þeir sem
standa fyrir ferðinni hafa meðferðis helstu verkfæri og varahluti fyrir
hjólin.
Boðið verður upp á trúss frá höfuðborgarsvæðinu og verður lagt af
stað klukkan 10:00 á laugardeginum frá N1 Ártúnshöfða. Trússið kostar
10.000 krónur á mann og er þar miðað við flutning á hjóli, farangri og
einstakling til Svarfaðardals og tilbaka til höfuðborgarsvæðisins frá
Hólum í Hjaltadal á sunnudeginum. Ef eingöngu er óskað eftir flutningi á
hjóli eða farangri þá er hægt að semja um lægra verð. Trússbíllinn
rúmar 7 farþega og 7 hjól. Lágmarksþáttaka í trússið eru 4 hjól til að
það standi undir sér.
Þægileg sveitagisting er í boði á Skeiði í Svarfaðardal (sjá kort)
þar sem er í boði svefnpokapláss fyrir 9 manns (2500 krónur á mann), tvö
herbergi með tveimur uppábúnum rúmum hvort (4000 krónur á mann), og svo
tjaldstæði (900 krónur á mann). Ef hópur pantar svefnpokaplássið þá er
það lokað fyrir frekari pöntunum. Einnig er hægt að gista á Fosshóteli á
Dalvík (25.000 krónur á mann með morgunverði) eða á tjaldsvæðinu á
Dalvík (1000 krónur á mann) ef menn hafa áhuga á því. Nánari upplýsingar
varðandi gistingu er á http://travel2dalvik.com.
Áhugasamir eru beðnir að
panta gistingu sem fyrst á meðan laus pláss eru í boði.
Stofnuð hefur verið Facebook hópur fyrir ferðina og þar má finna
einhverja umfjöllun varðandi hana auk mynda frá heiðinni.
Áhugasamir eru beðnir að hafa samband við Stefán B. Sverrisson í
seinasta lagi föstudagskvöldið 16. júlí klukkan 21:00.
Póstfang: This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.