Gist verður í skálum nema í Landmannalaugum. Við erum á biðlista þar, en ef við komumst ekki inn í skálann þá verður tjaldað. Hér fyrir neðan er dagskrá ferðarinnar, í grófum dráttum. 

Það er hægt að skrá sig í ferðina, eða fá frekari upplýsingar með því að senda tölvupóst til Darra á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. .

Svo þarf að borga staðfestingar-gjald, 10.000 kr, fyrir 1. apríl.

Það er pláss fyrir 15 manns í ferðina. Verð : 45.000 kr.                  

Dagur 1:  15-20km

Við keyrum út úr bænum og  byrjum að hjóla hjá Hjálparfossi, skoðum svo Stöng og Gjána á leiðinni upp í  Hólaskóg þar sem verður gist. Tökum smá kvöldhjóltúr þaðan að skoða  Háafoss.   Þetta er stuttur dagur sem er ágætt sem upphitun fyrir það sem kemur.

Dagur 2 : 50km

Hjólað í Landmannahelli.  

Dagur 3 : 25km

Í dag er stutt dagsleið  í Landmannalaugar, en við gefum okkur góðan tíma til að skoða Ljótapoll á leiðinni. Það er  mjög skemmtilegt að hjóla eða labba hringinn í kring um Ljótapoll. Í  Landmannalaugum er gaman að labba upp á Bláhnúk og Brennisteinsöldu eða bara baða sig!

farið yfir vað Dagur 4 : 45km

Hjólað í Hólaskjól. Hægt  að taka smá útidúr og skoða Eldgjá og Ófærufoss. Dagleiðin er 45km,  nokkur hækkun er á þessum  degi og þó nokkuð af vöðum.

Dagur 5 : 55km 

Í dag hjólum við hring út frá Hólaskjóli þannig fyrir þá sem vilja getur þetta verið hvildardagur. Hjólum  8km til baka og tökum svo afleggjarann sem fer í Langasjó. Við förum ekki alla  leið þangað, heldur tökum við lítt þekkta slóð hjá Blautalóni í áttina að Skaftá. Leiðin er stórskemmtileg og við fáum að kíkja ofan í Eldgjá á leið heim í skálann.

Dagur 6 : 55km

Byrjum daginn  með skemmtilegt  "singletrack" (7km) og smá vaði, hjólum framhjá Álftavatnaskála og komum svo aftur inn á jeppaslóðann á Álftavatnakróksleiðinni. Við  hjólum framhjá Mælifell og síðan yfir Mælifellssand og gistum annaðhvort í  Hvanngili eða Álftavatnsskála.

Dagur 7 : 40 km

Hjólum í Emstrur og svo  tökum við gönguslóðina (hjólandi) í Þórsmörk þar sem við grillum og borðum og skemmtum okkur langt fram eftir! 

Dagur 8 : Slökun í Þórsmörk.

Dagur 9 : Farið í bæinn.