Áður var auglýst að góður kostur væri að taka rútu í Borgarnes og hjóla með farangurinn í Skorradalinn. En vegna breytinga á gististað er það talsvert lengra en áður og varla fýsilegur kostur þar sem leiðin að Fitjum er góður hluti af leiðinni í kringum vatnið. Hinsvegar væri ekki vitlaust að hjóla frá Þingvöllum á föstudeginum um Kaldadal og Uxahryggi. Það er betra að vita sín mörk við slík plön þar sem þetta eru fjallvegir og er talsverð hækkun er á þeirri leið.
Hægt er að sníða þessa ferð að öllum, því Skorradalur er ekki nema í um 2 klst aksturs fjarlagð frá Reykjavík. Til dæmis væri hægt að sleppa öllum gistingum með því að koma akandi að Fitjum laugardags morguninn og aka til baka að hjóltúrnum loknum. Oft skapast mjög skemmtileg stemning í kringum svona ferðir og er gistingin og sérstaklega grillið um kvöldið stór partur af ferðinni í heild sinni.
Skráning:
Til að skrá sig í ferðina eða til að fá frekari upplýsingar má senda tölvupóst á netfangið
Dagskrá:
Föstudagur 29.júní.
Ekið frá Essó-Nesti í Ártúnshöfða kl 17:00. við hittumst fyrir þann tíma og sameinumst í bíla. (mikilvægt að mæta á undirbúningsfund að Brekkustígnum á fimmtudeginum kl20:00 til að sjá hver kemst með hverjum). Akstur tekur um 2 klst. Hægt er að fara um Hvalfjörð og við látum ráðast á fimmtudaginn hvor leiðin verður valin; Hvalfjarðargöng eða Hvalfjörður. Um kvöldið verður tjaldað og síðbúinn kvöldmatur snæddur. Hugað að hjólunum og gert klárt. Sæmilegasta tún fylgir aðstöðunni svo áhugasamir orkuboltar geta farið í ýmsa leiki þar til svefninn sækir að.
Laugardagurinn 30.júní.
Hver undirbýr sig eftir eigin höfði; koma sér á fætur, morgunmatur, og hafa sig til. Brottför kl 10:00 á slaginu. Við förum réttsælis umhverfis vatnið því erfiðasti kaflinn er fyrst á þeirri leið og er heppilegt að byrja á honum. Mörg stopp með nesti og sögustundum frameftir degi. Ferðahraði og lengd kaffistoppa ræðst af hópnum og veðrinu. Hringurinn er 43km langur og á malarvegi að öllu leiti, misgóðum þó. Fremst í Skorradal á um 10-15km kafla gæti verið einhver umferð. Norðan megin er hæg umferð í sumarbústaðina sem þar eru, en sunnanmegin er engin umferð eða því sem næst. Ekki seinna en kl 16:00 ættu allir að vera komnir til baka og búnir að fá sér smá snarl. Það er viðmiðunartími til að fara í sundið en það verður að ráðast af ferðahraðanum. Að öllum líkindum verðum við fyrr á ferðinni en gætum verið seinna. Klukkutími í lauginni eða svo, og grillveisla strax á eftir. Kvöldvaka eða leikir eftir stemningu. Dagskráslit.
Sunnudagurinn 1.júlí.
Pakkað saman og gengið frá. Ekið í bæinn.
Einhverjar raddir hafa heyrst um að hjóla til baka um Uxahryggi, Kaldadal og kannski gista á Þingvöllum. Þetta ræðst þó af veðri og fleiri þáttum. Nánar ákveðið síðar.
Smáa letrið:
Þátttakendur eru á eigin vegum og ábyrgð í ferðum klúbbsins. Við erum öðrum fyrirmynd og þess vegna og öryggisins nota allir hjólahjálma í ferðunum.
Fyrir hönd Íslenska Fjallahjólaklúbbsins:
Fjölnir Björgvinsson.