09.12.´97
Hr. Skipulagsstjóri
Stefán Thors
Íslenski fjallahjólaklúbburinn (ÍFHK) gerir eftirfarandi athugasemdir við þá tillögu að skipulagi miðhálendisins sem frammi liggur.
Hörmum við það að ekki var leitað álits okkar í einu eða neinu við vinnslu tillögunnar og þykja okkur raddir náttúru-og útivistarunnenda býsna mjóróma í skipulaginu sem nær þó til sameignar okkar allra. Mælumst við til að fulltrúar þessara sjónarmiða fái að koma að þeirri vinnu sem eftir er á vegum nefndar þeirrar sem með svæðisskipulagið fer.
Við leyfum okkur að efast um hvernig framkvæmd skipulagsins komi til með að verða þegar valdið er komið í hendur einstakra hreppa eða stjórnsýslueinga sem hafa óefað mismunandi skilning sem og túlkun á framkvæmdinni, að ekki sé talað um hagsmuni. Verður það hugsanlega eingöngu hlutur Landsvirkjunar í skipulaginu sem kemst í framkvæmd? Leyfum við okkur að vísa til hversu vel sú stofnun er sett fjárhagslega miðað við margan hreppinn.
Við mótmælum eindregið fyrirhugaðri aukningu á orkuvinnslu vatnsafls á tímabilinu úr 5500GWh/ári uppí 14000GWh/ári, varla er nauðsynlegt að þrefalda orkuvinnsluna! Það er og fyrirkvíðanlegt að virkjað verði í þágu erlendrar stóriðju sem hefði í þokkabót í för með sér mengun af margvíslegum toga. Virkjunarframkvæmdum fylgir meiriháttar landrask einkum og sérílagi við uppbyggingu mannvirkja og lína. Teljum við tvímælalaust að línustæði, háspennulínur, vegir og vegastæði muni stinga í augu þeirra sem um fara. Óumdeilanlegt er gildi þess að eiga aðgang að ósnortinni náttúru. Gagnrýnum við fyrirhuguðu línustæði í gegnum Ódáðahraun, stærstu samfelldu auðnar Evrópu sem í aldanna rás hefur storkað okkur Íslendingum. Leyfum því að halda reisn sinni. Einnig er öll frekari uppbygging á Sprengisandi, hvort sem er í formi háspennulína eða vega lítt fýsilegur kostur. Hugmyndir skipulagstillögunnar um aukið aðgengi fólksbíla inná "aðalfjallvegi" með brúargerð og uppbyggingu vega (þar sem uppbygging er alls ekki nægilega vel skilgreint hugtak) teljum við óviðunandi. Máli okkar til stuðnings bendum við á versta óvin ferðalanga hér á landi, hin vályndu veður sem fyrirvaralaust geta skollið á, sumur sem vetur og flestir fera sér litla sem enga grein fyrir, fyrr en þeir lenda í slíku. Huga verður gaumgæfilega að burðargetu miðhálendisins varðandi aðgengi að svæðum og má eflaust benda á nokkra staði sem nú þegar teljast hafa náð hámarki sínu varðandi fólksfjölda og því vafasamt að stuðla að auknu streymi þangað. Við mótmælum fyrirhugaðri staðsetningu a jaðar-og þjónustumiðstöðvum sem í sumum tilfellum eru all of þétt sbr. Árbúðir, Hveravellir og Áfangafell. Ljómi óbyggðanna er að mestu horfinn þegar maður ekur/hjólar/gengur/ríður uppbyggða vegi á milli pylsusjoppa. Bendum við á að í framkvæmdinni væri nær að halda sig við skilgreiningar eins og þær koma fyrir í tillögunni sbr. skilgeiningu á jaðarmiðstöð bls. 68.
Við leggjum til að miðhálendið verði gert að þjóðgarði og falli þar með undir lög þau og reglur sem um slík svæði gilda. Þannig má að okkar viti best tryggja framtíð þess, þeirra víðerna og hinnar ósnortnu náttúru sem hefur í aldanna rás bundið okkur Íslendinga landi okkar órjúfanlegum böndum og gert okkur að þjóð.
Virðingarfyllst,
fyrir hönd ÍFHK:
Alda Jónsdóttir, Dagný Indriðadóttir og Helga Jónsdóttir