magnus-bergsson.jpgEinkabíll er ekki nauðsynlegur. Hann er aðeins óhóflegur lúxus ökumanns á kostnað annarra sem í kringum hann eru; fólks, samfélags og náttúru. Þótt bílaframleiðendur reyni um þessar mundir hver í kapp við annan að mæla með sínum „vistvænu“ bílum þá leysa þeir sáralítinn vanda. Flestir þessara „vistvænu“ bíla eru aðeins að skipta um vélar og sumir losna við púströrið, öll hin vandamálin munu áfram þjaka samfélag, skipulag og umhverfi. Allir krefjast þeir rýmis og mikillar orku sem jarðarbúar ættu frekar að spara en að sólunda í færslu á þungu farartæki.

Aðeins eitt farartæki kemst næst því að vera sjálfbært fyrir komandi kynslóðir. Hvort sem mönum líkar það betur eða verr, það er reiðhjólið í öllum sínum myndum og tilbrigðum. Reiðhjólið er ódýrt í framleiðslu, tekur lítið pláss, er létt, efnislítið og skilvirkt samgöngutæki sem bætir lýðheilsu. Svo  mengar það ekkert eftir að það kemur frá framleiðanda.

En fótstigið reiðhjól veldur skelfingu hjá mörgum sem hafa ánetjast vél¬knúnum ökutækjum. Fyrir slíkt fólk eru rafmagns¬reiðhjól það vistvænasta sem völ er á. Þótt sjálfbærni nái ekki sömu hæðum og hefðbundið fótstigið reiðhjól þá er vart hægt að fá vistvænna vélknúið farartæki þar sem eigin þyngd farartækisins er að mestu bundið við mótor og geymi.

Reiðhjólaframleiðendur hafa margir ætlað sér að taka fullan þátt í þeirri hröðu þróun sem nú er í vændum vegna kröfu um aðra orkugjafa en jarðefnaeldsneyti. Rafmótorar hafa mjög góða nýtni, sama gildir um nýjustu rafstýringar sem sólunda sífellt minna orku í “varmatap” með forritanlegum FET stýringum. Það er aðeins rafgeymirinn sem ekki hefur þróast sem skyldi vegna þess að ódýru jarðefnaeldsneyti hefur verið haldið að neytendum í heila öld. Þó svo Li-Ion rafgeymar séu líklega með því besta sem fæst í dag, eru þeir þungir, með takmarkaða rýmd (Ah) og líftíma. Síðustu misseri hefur þó átt sér stað ótrúleg þróun á rafgeymum og rafhlöðum. Rafmagnsreiðhjólin eiga því ekkert annað en bjarta framtíð í vændum.

Trek Ride+

 

 

Trek Ride+


Eftirspurn eftir rafmagnsreiðhjólum hér á landi er nokkur og hefur aukist. Það kemur því ekki á óvart að þau hafa verið fáanleg í nokkur ár. Gæðin hafa verið ákaflega misjöfn og sum þeirra hafa frekar talist til mótorhjóla (sveifarlausar skellinöðrur) en rafmagnsreiðhjóla. Það var ekki fyrr en nú í vetur þegar alvöru rafmagnsreiðhjól frá Trek kom í verslunina Örninn að þessi hjól fóru að vekja áhuga minn. Þegar ég segi „alvöru hjól“ þá er það vegna þess að það er sýnilega úthugsað í smáatriðum. Vel er gengið frá öllum rafbúnaði og raflögnum svo varla sést að um rafmagnsreiðhjól er að ræða. Búnaðurinn er svo sem ekki af verri endanum enda hannaður af fyrirtækinu BionX.

Trek hjólið er hannað með hliðsjón af reglugerð um vélknúið ökutæki á gangstéttum. Sú reglugerð sem er í lögum ýmissa landa, líka á Íslandi, takmarkar hraða hjólsins við 25 km á klst. Mörgum þykir þetta takmarka notagildið, en þá ber að benda á að gangstéttir eru ekki hannaðar til hjólreiða. Á móti kemur að hér er tækifæri til að eignast vélknúið farartæki án þess að greiða af því bifreiðagjöld eða þungaskatt. Dekkjaslit er líka minna en á aflmeiri hjólum og slysahætta minni.

Trek Valencia+ er ofurvenjulegt 27 gíra álreiðhjól með brettum, bögglabera og ágætis ljósabúnaði. Hjólið er því fullbúið og löglegt beint á götuna. En við þetta bættist 250Watta burstalaus og hljóðlaus rafmótor sem Trek kallar „Silent drive“. LiIon 36 volta  rafgeymir og mjög vönduð mótorstýring sem Trek kallar „Syn Drive“ á stýrinu er svo stjórnborð sem Trek kallar „Ride+“.  Með því er hægt að stjórna með fjórum styrkleikum hversu mikið mótorinn hjálpar til. Þá eru líka fjórar stillingar fyrir hleðslu- og bremsustraum. Þetta hefur ekki sést almennt á rafmagnsreiðhjólum en mun verða sjálfsagður búnaður á öllum rafhjólum í framtíðinni. Hér er hægt að láta mótorinn hlaða inn á geyminn með því að hjóla, en best af öllu nýta bremsukraftinn til að hlaða geyminn og spara bremsuborða og diska. Þetta er sparnaðartækni sem komin er í alla rafbíla og hefur verið í lyfturum í rúma tvo áratugi. Í stjórnborðinu er einnig hefðbundinn hraðamælir og hleðslumælir sem segir hvenær kominn sé tími til að hlaða geyminn. Rafhlaðan er í veðurheldu plastboxi. Er henni rennt á sleða inni í bögglaberann að aftan þar sem hægt er að læsa henni.

Hjólið virkar alveg eins og venjulegt reiðhjól í alla staði. En ef maður vill fá aðstoð frá mótornum þá kveikir maður á stýringunni á stýrinu, velur þar um fjórar stillingar hversu mikið afl  mótorinn á að nota og stígur svo á petalana. Það er þá sem mótorinn tekur við sér og það er eins og að fá vind í bakið eða vera á ofurléttu hjóli. Það er mun léttara að hjóla. Í mótornum eru skynjarar sem skynja þrýstinginn á petalana og í réttu hlutfalli við aukið átak tekur mótorinn við sér.

Hvernig er svo að hjóla á þessu rafmagns¬hjóli? Rafmagnsreiðhjól er ekki fyrsti valkostur þeirra sem vanið hafa sig á að hjóla allan ársins hring. Enda kemur rafmagnsreiðhjólið ekki í staðinn fyrir hefðbundið reiðhjól. Það er samt eitthvað skemmtilegt við það að hendast áfram á móti vindi án þess að hafa fyrir því. Eða fara upp brattar brekkur í mjög háum gírum, hvað þá draga þunga vagna án fyrirhafnar. Það er bókstaflega alltaf meðvindur á meðan rafhlaðan getur knúið mótorinn. Þegar og ef rafhlaðan klárast þá slekkur maður á mótornum og hjólar á áfangastað eins og ekkert hafi í skorist.

Nú duga ekki lengur lélegar afsakanir fyrir því að hjóla ekki. „Ég þoli ekki mótvind, brekkur eða að svitna. Ég get ekki haft fataskipti á vinnustað eða það er svo langt til og frá vinnu.“ Hér er einfaldlega komið hjólið sem gerir þessar afsakanir innihaldslausar. Rafmagnsreiðhjól eins og TREK Valencia+ gera öllum kleift að nota reiðhjól til að komast á milli staða, meira að segja í sínu fínasta pússi.

Niðurstaða


Kostir: Kerrudráttur og brattar brekkur eru ekkert mál. Enginn sviti en samt er maður á hjóli. Mjög lágur rekstrarkostnaður. Ekkert slit á bremsum. Hjólið sjálft og búnaður þess er góður. Sama gildir um rafbúnaðinn og tækni. Erfitt er að sjá hvernig hægt er að bæta þá tækni.

Gallar: Hentar ekki vönu hjólreiðafólki sem vant er að ferðast á um og yfir 30 km hraða. Útsláttur rafmótors á um og yfir 25km hraða pirrar fólk sem vant er að hjóla hraðar. Allur þungi rafbúnaðarins (mótor og geymir) er á afturhjólinu. Framljósið hefði mátt vera öflugt díóðuljós (t.d. 200-300 lm ljós). Nákvæmlega engar tæknilegar upplýsingar um rafbúnaðinn er að finna á vefsíðu Trek þegar þetta er skrifað.

 Birtist fyrst í Hjólhestinum mars 2011