Þegar maður hyggur á ferðalög er margs að gæta, finna þarf til búnaðinn, fóðrið og fötin og raða svo eftir settum reglum á hjólið. Fyrir það fólk sem er að huga að sinni fyrstu ferð á fjallahjóli ( nú eða gamla Möve) eru hér nokkrir punktar sem gott er að hafa í huga.

Fyrst ber að geta þess að grunnbúnaður þarf ekki og ætti í rauninni ekki að kosta mikið. Það er óráðlegt að eyða tugum þúsunda í útbúnað sem einhverjir besservisverar eru að mæla með og komast svo að því að að ferðalög eru ekki það sem koma skal í lífinu. Ef á hinn bóginn kemur í ljós að ekkert kemur í hálfkvist við ferðalög í náttúru Íslands og víðar, er sjálfsagt að "græja sig upp" því góður (og þá oft dýr) búnaður getur gert gæfumuninn í lengri ferðum.

En snúum okkur að grunnbúnaðinum. Við göngum út frá því að menn eigi hjól en ekki bögglabera. Algengastir eru þeir sem eru eins og V í laginu. Þeir eru og jafnan ódýrastir. Ef þeir eru notaðir verður að nota töskur með hörðu baki, svo þær rekist ekki í teinanna. Nokkrar gerðir eru þó til af bögglaberum sem mynda ramma og mæli ég frekar með þeim. Verð er mjög rokkandi eða svona frá 1.500 - 5.000 kr. Til að byrja með ætti að vera nóg að vera með bögglabera að aftan. Ath. að ef berinn er boltaður saman að nota herslurær, spenniskinnur eða gengjulím til að forðast óvænt slys á versta tíma. Töskurnar teljast til grunnbúnaðar þó svo ég hafi oft séð fólk nota niðurreyrðar íþróttatöskur og gengið bara vel. Geymið bakpokann heima og notið hann ekki nema í dagsferðum. Nokkuð gott úrval er af hjólreiðatöskum í dag. Auðvelt er að mæla með einstökum tegundum í þessu sem öðru. Þó tel ég best að láta það vera að svo stöddu en bendi frekar á nokkra punkta sem fólk ætti að fara eftir. Varist t.d. að nota þunnar nælontöskur með rindilslegum rennilás og engu hörðu baki. Kaupið frekar vandaðar töskur sem nýtast mega sem innkaupatöskur milli ferðalaga. Gott og þykkt "Cordura" efni eða "PVC" er hentugt fyrir íslenskar aðstæður. Það verður að vera hægt að loka þeim tryggilega og lok þarf að ná niður fyrir op töskunnar. Læsingar ættu að vera úr strekkböndum og smellum og ef það er rennilás þá ætti hann að vera þykkur, sterklegur og vel varinn gegn bleytu. Festingar við berann ættu helst að vera lokaðar læsingar og ef krókar eru opnir er betra að koma því þannig fyrir að krókarnir skrölti ekki lausir á grind bögglaberans.

Fyrir alla muni forðist töskur sem eru ólaðar niður á berann, það er afar óhentug og léleg festing sem oftast fylgir lélegum töskum. Töskur þurfa að vera með stífu baki og ef þær eru úr einhvers konar þunnu næloni er betra að spreyja þær með vatnsfráhrindandi vörn.

Þá er komið að innihaldinu, byrjum á matnum. Þar er eitt sem þarf að varast sérstaklega, allan vökvaburð s.s. niðursuðudósir, tilbúna drykki o.þ.h. Nóg er af vatni út um víðan völl og bjórinn má bíða eina helgi eða svo. Annars ætla ég ekki að skipta mér af matarvenjum hvers og eins. En það vill brenna við hjá "nýliðum" að taka of mikið af vökva eða vökvabundnum mat með sér sem þyngir mjög róðurinn í ferðalögum. Lítill gasprímus fæst nærri því hvar sem er og þar sem flestar útilegur ÍFHK eru skálaferðir duga þeir dável. Sprittprímusar eru ódýrir, einfaldir og góðir. Allslags bensínprímusar eru einnig algengir, en geta verið nokkuð dýrir

Svo er það svefnpokarnir. Hægt er að fá litla, létta og ódýra svefnpoka í sumum stórverslunum og þó þeir séu aðeins gerðir fyrir sumarhlýindi eru þeir skárri kostir en risastórir "Zeppelin" belgir sem taka gríðarlegt pláss og eru oftast nær of hlýir fyrir skálaferðirnar.

Fatnaður getur haft úrslitaþýðingu fyrir ánægjulega ferð. Það er nauðsynlegt að vera hlýr og þurr, hvað sem á dynur. Góður skjólfatnaður þarf heldur ekki að kosta neitt mikið. Í raun er hægt að leggja af stað með létta gönguskó, ullarsokka, "jogging" buxur eða föðurland og vindbuxur, eitthvað sem ætti að vera til á hverju heimili. Menn skyldu þó varast að vera í bómull næst sér þar sem hún safnar í sig svita og bleytu og er lengi að þorna. Ég held reyndar að flest allir séu búnir að fjárfesta í einhvers konar "fleece" eða Polar-Tech fatnaði sem er mjög hentugur og ýmsar gerðir fatnaðar úr "TEX" öndunarefnum er nú til á flestum heimilum. Betra er að klæða sig upp í þunnum lögum, frekar en í fáar hnausþykkar flíkur. Þannig er betra að ráða við útgufun og lofttemprun. Hjólabuxur með púða eru alltaf góður kostur því löng seta á hnakknum getur valdið vissum ónotum á ónefndum stöðum. Svo má alltaf á sig blómum bæta. Síðar hjólabuxur, hjólajakki, hjólaskór, hjóla hitt og hjóla þetta. Alltaf skyldi maður hafa með sér húfu og vettlinga í ferðir því veðráttan er jú dyntótt hér á landi. Aukapör af sokkum og léttum fatnaði kemur sér alltaf vel, því það getur verið þægilegt að skipta út eftir langan dag.

Og auðvitað á hjálmurinn alltaf að vera með - hvenær sem er. Að lokum má svo minnast á tjaldið, en jafnvel það þarf ekki að kosta nema svona 2-3000 kr. Það eru svona "þjóðhátíðartjöld" sem fást á sumum bensínstöðvum (eldspýtur ekki innifaldar). Ekki get ég mælt með slíkri fjárfestingu, svona til lengri tíma litið. Ef það á að höndla sér gott tjald til framtíðarnota, borga sig að kaupa minnst "3 season" tjald. Íslenskar sumarblíður geta breyst í vetraofsa á stuttum tíma. Þegar þið raðið svo farangrinum á hjólið, gætið þess að jafna út þyngdina þannig að hjólið láti sem best að stjórn. Ef þið hafið tvo bögglabera er hægt að jafna þyngdina út sem nemur 60% þyngdarinnar að aftan og 40% að framan.

Þegar þið hafið prófað ykkar fyrstu fjallahjólaferð með klúbbnum og ykkur líkað að vonum stórvel, má alltaf stíga skrefið til fulls og fá sér fullkominn búnað. Eftir nokkrar ferðir hefur skapast persónulegur smekkur á því sem menn telja sig þurfa í lengri sem skemmri ferðir. Sumir vilja fara hægt í sakirnar en aðrir byrja aðeins á því besta. Ykkar er í raun valið. Nú er bara að merkja við í Atburðaalmanakinu þær ferðir sem þið ætlið í og svo af stað ...

Látið sjá ykkur í ferðum. Jón Örn.

© Hjólhesturinn 2.tlb. 5.árg.