Eins og við töluðum um í síðasta Hjólhest hefur lögreglustjórinn í Reykjavík bannað hjólreiðar á Laugaveginum neðan Hlemms með auglýsingu í Lögbirtingablaðinu en margir eiga erfitt með að skilja hvers vegna. Á fundi síðasta vetur vegna þessa máls var fulltrúum hjólreiðamanna sýnd greinargerð Jóns Magnússonar hæstaréttarlögmanns um 4. mgr. 39. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 sem hljóðar svo: „Heimilt er að hjóla á gangstétt og gangstíg, enda valdi það ekki gangandi vegfarendum hættu eða óþægindum. Hjólreiðamaður á gangstétt eða gangstíg skal víkja fyrir gangandi vegfarendum.“

Í greinargerðinni sem Laugavegssamtökin báðu hann að taka saman telur hann upp nokkrar aðrar lagagreinar svo sem „2. mgr. 11. gr. umfl. sem bannar fortakslaust að gangandi vegfarandi leiði reiðhjól á gangstétt og gangstíg“ og reynir að færa rök fyrir því að „víkja megi frá almennum umferðarreglum með merkjum“. Samkvæmt því virðast lög Alþingis mega sín lítils ef lögreglustjóra dettur í hug að setja upp skilti sem segja eitthvað annað. Gróa á Leiti sagði víst gjarnan: „Ólyginn sagði mér, en hafðu mig ekki fyrir því“, en Jón Magnússon lætur næst hafa eftir sér:

„Þar sem ég undirritaður hef ekki mikla reynslu af gangi á gangstéttum á Laugavegi eða annarsstaðar í miðborg Reykjavíkur hef ég spurst fyrir um það meðal fólks sem iðnara er við göngur á þessum stöðum hvort umferð hjólreiðamanna valdi því ónæði, óþægindum eða hættu. Skemmst er frá því að segja, að hver einasti þeirra, sem ég hef spurt um þetta segir umferð reiðhjóla valdi þeim óþægindum og leiði jafnvel til þess að fólk forðast að ganga um gangstéttar á viðkomandi stöðum. Margir nefna dæmi um að reiðhjól hafi rekist á þá eða að þeir hafi iðulega verið í hættu af því að lenda fyrir reiðhjóli. Mér sýnist því einsýnt að það er hreinlega skylda umferðaryfirvalda að banna hjólreiðar á fjölförnustu gangstéttum borgarinnar a.m.k. að deginum til. Annars er umferðaröryggi gangandi vegfarenda fyrir borð borinn.“

Margir geta tekið undir að umferð gangandi við Laugaveginn sé það mikil að hjólafólki sé ofaukið þar á gangstéttum og víst er að ekki sýna allir hjólreiðamenn nægilega tillitssemi. Lausnin er ekki að henda hjólafólkinu út í bílaumferðina heldur að framkvæma skipulagstillögur sem fyrir liggja um lagningu hjólabrautar niður Laugaveginn. Kaupmenn eru víst á móti henni þar sem hún myndi kosta um 40 bílastæði við Laugaveg. Þeir virðast ekki hafa trú á því að fólk sem legði í bílastæðahús og gengi um Laugaveginn verslaði í fleiri verslunum en þeir sem nú leggja beint fyrir framan verslun á stöðumæli sem ekki gefur tíma fyrir ráp í aðrar verslanir.

Ástæðan fyrir því að okkur er svo meinilla við þessa ákvörðun er að þetta opnar leiðina fyrir bönnum annarsstaðar sem myndi hrekja hjólafólk út á götur sem víða eru allt of þröngar, umferðarþungar og hættulegar fyrir hjólaumferð. Það hlýtur að vera réttur allra að fá að fara ferða sinna á sem öruggastan hátt og ég veit um marga sem myndu gefa þennan umhverfisvæna samgöngumáta alveg upp á bátinn ef þeir yrðu reknir út á umferðargötur.

Niðurstaða Jóns segir: „Yfirvöld hafa allar heimildir til að banna eða takmarka akstur reiðhjóla á gangstéttum eða gangstígum hvar sem er í borginni ef hætta er á því að slíkur akstur geti valdið gangandi vegfarendum hættu eða óþægindum. Yfirvöldum ber skylda til að banna hjólreiðar á gangstéttum eða gangstígum þar sem ljóst er að það veldur gangandi vegfarendum hættu eða óþægindum.“...

„Hagsmunir gangandi vegfarenda af því að banna akstur hjólreiðamanna á gangstéttum á Laugavegi eru mjög miklir, en hagsmunir hjólreiðamanna takmarkaðir. Eðli máls skv. er því eðlilegt að banna umferð þeirra. Um er að ræða raunverulegt vandamál og ljóst að fjöldi fólks telur að því sé hætta búin af umferð hjólreiðamanna um gangstéttir í miðborg Reykjavíkur.“

Ólyginn sagði mér að hann hefði ekki mikla reynslu af hjólreiðum eftir Laugavegi eða annarsstaðar í miðborg Reykjavíkur en hafði spurst fyrir um það meðal fólks sem var iðnara við hjólreiðar á þessum stöðum hvort umferð bíla ylli því ónæði, óþægindum eða hættu. Skemmst er frá því að segja, að hver einasti þeirra, sem hann hafði spurt um þetta sagði að umferð bíla ylli þeim óþægindum og leiddi jafnvel til þess, að fólk forðaðist að hjóla um götur á viðkomandi stöðum. Margir nefndu dæmi um að bíll hefði rekist á þá eða að þeir hefðu iðulega verið í hættu af því að lenda fyrir bíl. Honum sýndist því einsýnt að það væri hreinlega skylda umferðaryfirvalda að banna umferð bíla á fjölförnustu götum borgarinnar a.m.k. að deginum til. Annars væri umferðaröryggi hjólandi vegfarenda fyrir borð borinn. Er ekki sjálfsagt að hjólreiðamenn njóti sömu réttinda á götum borgarinnar og gangandi vegfarendur á gangstéttum borgarinnar? Skildi yfirvöldum bera skylda til að banna akstur bifreiða þar sem ljóst er að það veldur hjólandi vegfarendum hættu eða óþægindum? Hagsmunir hjólandi vegfarenda af því að banna akstur einkabifreiða á götum eru mjög miklir, en hagsmunir flestra bílstjóra takmarkaðir enda er reksturinn dýr, mengunin umtalsverð og hreyfingarleysið hættulegt heilsu þeirra auk þess sem auðlindum jarðarinnar er eytt frá komandi kynslóðum.

Því miður er þetta enginn brandari því í vor var hjólreiðamanni veitt áminning af lögreglu fyrir aðbrjóta ofangreind lög þar sem hann leiddi hjólið sitt á gangstétt eftir að dekkið hafði sprungið. Hvaða hagsmunum ætli það þjóni að reka hjólreiðamann með sprungið dekk til að ganga úti á götu?

Páll Guðjónsson
Birtist fyrst í Hjólhestinum október 1996.