Jæja þá er komið sumar, það er farið að rigna og blessaðir smáfuglarnir vekja mann fyrir allar aldir með háværum söng.  En annað er það sem mér finnst vera aðal vorboðinn og það er þegar stígarnir okkar koma loks undan klakanum og Gatnamálastjóri lætur sópa af þeim allan sandinn og glerbrotin og við getum farið að hjóla nokkuð klakklaust og örugg um borgina, en sú paradís endist oftast ekki lengi því á vorin vakna líka verktakarnir og hin ýmsu veitufyrirtæki borgarinnar til lífsins og það er byrjað að grafa út um alla borg og hvar er nú best að geyma jarðveginn sem uppúr skurðunum kemur og vinnuvélarnar?  Jú, náttúrulega á stígunum og síðan þegar það fer að rigna í henni Reykjavík eins og vill nú gerast, þá breytast stígarnir í eitt drullusvað.

Þetta ástand verður til þess að fólk sem hafði kannski strengt þess heit um síðustu áramót (og kannski ekki í fyrsta skipti) að fara nú að hreyfa sig og hjóla til og frá vinnustað leggur hjólinu inni í geymslu eftir að hafa mætt í vinnuna forugt upp fyrir haus við litla hrifningu vinnuveitandans en þeir
sem geta skipt um föt og farið í sturtu eins og því er háttað á mínum vinnustað, þeir bíta á jaxlinn og þrauka í nokkra daga en oftast taka svona framkvæmdir mun lengri tíma en þær sem snerta bílaumferð þó að þær framkvæmdir séu þó oftast mun umfangsmeiri.

Frágangur t.d. malbikun stíga þar sem þeir hafa verið grafnir í sundur og hreinsun þeirra getur dregist um margar vikur og jafnvel mánuði, stundum endar þetta á því að maður gefst upp og finnur sér aðra leið til og frá vinnustað eða fer í það að reyna að setja eitthvað í verstu holurnar.

Sumir stígar fá árlega meðferð og virðist sem framkvæmdum við þá og þeirra næsta umhverfi ætli aldrei að ljúka, t.d. stígurinn sem tengir Grafarvog við Elliðaárdal og stígurinn sem liggur frá göngu- og hjólabrúnni yfir Miklubraut við Rauðagerði og að því sem eftir er að gömlu Fákshúsunum við
Elliðaárdalinn.

Úr því að ég minntist nú á hesthúsin þá finnst mér það alveg ferlegt að þurfa á leið minni til vinnu að hjóla undirgöngin undir Breiðholstbrautina við Sprengisand því þarna eru enn hafðir nokkrir hestar og virðast þeir þurfa að gera þarfir sínar sem fyrst þegar þeir leggja af stað í sína reglulegu reiðtúra sem verður til þess að leiðin þarna undir þessa miklu umferðaræð er útötuð í hrossataði sem rigningin breytir síðan í svað sem skvettist upp á bæði reiðhjól og knapa, hugsum okkur að Breiðholts
brautin lægi í gegnum illa þefjandi fjósshaug þá myndi nú örugglega eitthvað heyrast í bíleigendum.

Það er annað mál sem hefur líka verið að pirra mig, þ.e. merking stíga og leiðarvísar. Fyrir stuttu hjólaði ég á leið minni til vinnu fram á útlendan ferðalang á reiðhjóli, hann hafði ætlað að hjóla frá Reykjavík til Selfoss en gat ómögulega fundið örugga leið út úr borginni.  Úr þessu mætti bæta
með því að setja upp skilti á stígamótum þar sem gefið væri upp hvert viðkomandi stígur lægi og vegalengd hans í km. Einnig  mætti setja upp á nokkrum stöðum í borginni kort yfir alla helstu stígana þar sem þeir væru t.d. flokkaðir eftir litum og væru þá skiltin á stígunum höfð í sama lit.

Nú er komið nóg af tuði frá mér og auðvitað verða engar framfarir nema með framkvæmdum, einnig vil ég svona í restina þakka Gatnamálastjóra og Reykjavíkurborg fyrir sífellt vaxandi áhuga á að bæta aðgengi fyrir okkur sem kjósum að velja umhverfisvænan farkost í borginni okkar og þá góðu aðstöðu sem við höfum fengið aðstoð við að koma okkur upp að Brekkustíg 2 fyrir félagsstarf okkar.

Hjólum gætilega,
Jóhann Leósson.