Nú eru að verða 15 ár frá því fyrsti Hjólhesturinn kom út. Hefur hann verið gefinn út allt frá einu tölublaði á ári til fjögurra. Það var talsverður höfuðverkur að gefa út fyrstu blöðin því þá voru tölvur vart til á heimilum. Fyrstu tölublöðin voru unnin í Works á Apple SE tölvu og prentuð út á nálarprentara. Textinn var síðan minnkaður í ljósritunarvélum ýmissa vinnustaða. Síðan var textinn klipptur niður og límdur á A-4 blöð auk mynda. Það var svo allt ljósritað aftur eftir að búið var að raða niður blaðsíðum. Síðan var reynt að hafa samband við einhverja klúbbmeðlimi sem gátu reddað aðgangi að fjölritunarvél. Undanfarin misseri hefur Hjólhesturinn verið settur upp í Quark Express af góðviljuðu fagfólki og prentaður í prentsmiðju sem kostar Fjallahjólaklúbbinn talsverðar upphæðir, ekki síst að viðbættum póstburðargjöldum sem hafa margfaldast á örskömmum tíma  


Þótt vinnan við Hjólhestinn sé ekki eins erfið nú og í upphafi þá vantar alltaf fólk í ritstjórn. Það vantar fólk til að safna auglýsingum, skrifa, finna efni, prófarkalesa og fólk sem getur unnið og hefur aðgang að umbrotsforritum.
Þeir sem hafa áhuga geta haft samband við ritara klúbbsins Arnþór Loga Arnarson This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.
Magnús Bergsson

Hjólhesturinn 1. tbl. apríl 2005
© ÍFHK 2005