Snati í hjólaferð Snati minn er voða góður íslenskur fjárhundur. Hann er líka voða glaður þegar hann fær að hreyfa sig nóg. En ég bý í Reykjavík og er oft með samviskubit yfir því að hann fái ekki nóga hreyfingu – eins og margir aðrir hundeigendur.... En Snati hjólar. Og það er stóra gleðin í lífi hundsins; út að hjóla og taka almennilega á því. 

Þegar Snati var lítill hvolpur setti ég hann í taum og festi í kringum stöngina neðan við sætið. Það eru líka til sérútbúnar hjólastangir sem gegna sama hlutverki, en ég þekki ekki notkun þeirra – sýnist þær samt ansi góðar en kosta slatta. Fyrstu vikurnar og mánuðina fórum við afskaplega rólega yfir og bara stuttar vegalengdir. Ég var með hjólatösku á bögglaberanum og hann fékk að hvíla sig þar eftir stuttar vegalengdir.

Snati var eins árs þegar við eignuðumst Bob vagn. Snati og Bob urðu á skömmum tíma fínir félagar. Þegar Snati var orðinn 2ja ára, átti hann auðvelt með að ferðast 20 – 30 km í taum með hjólinu, lengra ef hann gat hlaupið taumlaus – en það má ekki innan borgarmarkanna. Hann kann því vel að tylla sér á Bob og ef langar brekkur niður í móti eru framundan, getur það einmitt verið góður kostur því þá nýtist hraði reiðhjólsins umfram hlaupahraða hundsins. Snati er alltaf í ól á Bob og á það til að hreyfa sig töluvert. Hjólreiðamaðurinn finnur vel þá hreyfingu og getur hún haft áhrif á jafnvægi ökutækisins.

Með því að festa ól hundsins neðan við sætisstöngina, er hjólreiðamaðurinn með báðar hendur á stýrinu og getur þar með stýrt ökutækinu betur. Litlar fótahreyfingar stýra hundinum ef hann lætur kjánalega. Snati virðist algjörlega með það á hreinu, hvoru megin við staura á leið sinni hann á að fara – en það er engu að síður skylda hjólreiðamannsins að bera þá ábyrgð og stýra hjóli sínu í samræmi við það.  

 

Snati í hjólaferð

 

 

Snati við hjólið

  Birtist fyrst í Hjólhestinum, okt 2010.