Sumarið 2013 hjólaði ég í Vínarborg í tengslum við ráðstefnuna Velo-City. Allir þátttakendur fengu lánað reiðhjól hjá tveimur borgarhjólaleigum þá viku sem ráðstefnan stóð og tók ég hjól hjá Citybike Wien [1]. Hjólin hjá báðum leigunum voru vel úr garði gerð og í góðu ástandi. Hjólin voru auðstillanleg, með nafgírum og með sjálfvirk fram- og afturljós knúin með rafali í nafinu. Auðvelt er að skrá sig á heimasíðu Citybike og er fyrsta klst. ókeypis, næsta klst. kostar eina evru en fer síðan síhækkandi og kostar fjórar evrur/klst eftir fjóra tíma. Það borgar sig því að skila hjólinu fljótt og taka nýtt enda nóg af stöðvum í kringum miðborgina til að skila og taka nýtt hjól. Á heimasíðunni má finna öpp sem hjálpa manni að finna stöð fyrir leiguhjólið.

Vínarborg er þægileg til hjólreiða og borgaryfirvöld hafa unnið skipulega að aukningu þeirra og meiri notkun almenningssamgangna undanfarin ár og orðið vel ágengt. Hlutdeild hjólreiða hefur farið úr 3% í 7% frá 1993-2014 og hlutdeild almenningssamgangna úr 29% í 39% á sama tíma og hlutdeild bíla og vélhjóla hefur minnkað úr 40% niður í 27%. Upplýsingar um hjólreiðar í Vín má finna hér [2,3], m.a. fá ókeypis kort. Taka má hjól með í neðanjarðarlestir utan annatíma en ekki í sporvagna eða strætó.

Ég hjólaði mikið um borgina þessa viku en mest í grennd við miðborgina. Borgin er frekar flatlend a.m.k. næst ánni. Hún stendur sem kunnugt er við Dóná og eru margar brýr yfir ána. Í miðborginni er plássið mjög lítið en þó er víðast hvar búið að koma fyrir sérstökum hjólastígum eða hjólareinum á akbrautum. Þarna eru sumstaðar leiðir sem eru frekar erfiðar fyrir óvana vegna plássleysis og víða eru þær sameiginlegar með sporvögnum. Þar borgaði sig greinilega að vera á breiðum dekkjum vegna sporvagnaspora í götunum en  50 mm dekk leiguhjólanna dugðu vel fyrir það. Í miðborginni er mjög víða leyfilegt að hjóla gegn einstefnu, ýmist á afmarkaðri rein  eða ekki og hvorutveggja gekk mjög vel. Yfirleitt má  hjóla gegn einstefnu ef gata er merkt sem vistgata. 

Í kringum miðborgina liggur hringvegur eða breiðstræti, fyrst innri hringur sem heitir Ring og annar ytri hringur sem heitir Gürtel og eru hjólastígar meðfram þeim. Ytri hringurinn er með sporvagnaspori sem tengir saman lestarstöðvarnar í Vín og er líklegt að gestir til borgarinnar komi á einhverja þeirra. Annað sem einkennir Vínarborg er að blandaðir hjóla- og göngustígar eru lagðir meðfram Dóná og Dónárkanal sem liggur samsíða Dóná og Wienfluss að vestanverðu í gegnum miðborgina  þar til áin hverfur undir borgina í stokki. Leiðin eftir Wienfluss liggur m.a. framhjá Schönbrunn höllinni og síðan lengra í vestur útúr borginni og upp í hæðirnar. Þetta eru frekar greiðar leiðir og þægilegt að fara  eftir þeim. Í íbúðahverfum í jaðri miðborgarinnar eru hjólastígarnir almennt vel gerðir í fullri breidd og hjólareinar á akbraut sjaldgæfari. Íbúðahverfin eru vel skipulögð og víða liggja breiðir hjólastígar  meðfram akbrautum  en sumstaðar liggja þeir í gegnum garða í hverfunum..

Það er ævintýralegt að hjóla um stórborg og sjá allt það sem fyrir augu ber. Það er alveg ný leið til að kynnast nýrri borg og maður getur bæði farið á milli fyrirfram ákveðinna túristastaða eða látið kylfu ráða kasti og haldið út í buskann. Maður villist ekki með nútímatækni eins og GPS í farsímanum og ef það klikkar er bara að spyrja til vegar.

[1] http://www.citybikewien.at/

[2] http://www.wien.gv.at/english/transportation-urbanplanning/cycling/

[3] http://www.wien.info/en/vienna-for/sports/cycling/discover-by-bicycle

Hjólhesturinn 25. árg. 1. tbl. mars. 2016

Smellið á fyrstu myndina til að sjá hana í fullri stærð ásamt skýringartexta og fléttið svo áfram.