Í sumar hjólaði ég með mömmu úr Landmannahelli til Landmannalauga, það var bara ein á sem við þurftum að hjóla yfir og það var ein erfið brekka á leiðinni. Það var mjög gott veður og bílstjórarnir voru tillitsamir og brostu allir til okkar, og sumir klöppuðu fyrir okkur. Pabbi fór með tjaldvagninn í Landmannalaugar og tjaldaði og hjólaði svo á móti okkur. 

 soley02.jpg

Daginn eftir þá hjóluðum við í Hólaskjól. Veðrið var ekki alveg eins gott og við fórum yfir margar ár. Þegar við vorum komnar hálfa leiðina þá kom þoka og svo fór að rigna. Ég var orðin svolítið þreytt og köld á fótunum (af því við gleymdum vaðskóm) þegar pabbi kom á móti okkur og ég varð mjög glöð að sjá hann af því að það var komin svo mikil þoka. Það var gott að koma í tjaldið og fara í þurra sokka og skó þegar ég kom loksins í Hólaskjól.     

Ég hjólaði frá Hólaskjóli og að þjóðveginum, það var gott veður en reyndar smá rigning. Mér fannst gaman að hjóla þessa leið. Leiðin var mjög skemmtileg og vegurinn var ágætur og bara ein erfið brekka og engar ár sem ég þurfti að vaða. Það var einn sveitahundur sem elti okkur í smá stund. Síðan kom pabbi á móti okkur og þá byrjaði að rigna. Þegar við komum í bílinn vorum við rennandi blaut og ég þurfti að skipta um öll fötin.     

 soley01.jpg

Leiðin sem ég hjólaði frá Landmannahelli var 100 km. Og það var gaman.

Sóley Bjarnadóttir 9 ára.

© ÍFHK
Hjólhesturinn 2. tbl 2003.