Við söfnuðumst nokkur saman við Korpúlfstaði á föstudagseftirmiðdeginum. Hinir vösku voru undirritaður, Alda fyrrum formaður fjallahjólaklúbbsins, hennar eiginmaður Pétur, Guðlaugur og Þórhildur. Lagt var af stað í góðu veðri , örlítill mótvindur, en frekar björtu. Farið var fyrst eftir göngustígnum meðfram sjónum uppí Mosfellsbæ og haldið áfram eftir honum inn Mosfellsdal. Þar var farið af stígnum við afleggjarann við Skammadal og farið eftir þjóðveginum vegna mikils smágrjóts sem er yfirleitt á stígnum. Það er greinilegt að það er ekki gott að hafa hjólastígana of nálægt hestastigunum því að hestarnir ausa upp það miklu af grjóti. En þessi stígur er mjög góður til að hjóla til að losna við umferðina, mætti vera alla leið.

kiddi-1.jpg

Gerður var stuttur stans við strætóskýlið hjá Laxnesi, hópurinn brynnti sig og nærðist aðeins áður en haldið var upp brekkurnar við Mosfellsheiðina. Það var tíðindalaust yfir til Þingvalla, en það var orðið glettilega dimmt um kvöldið þannig að þeir sem voru með ljós settu þau á, þó að lítil umferð hafi verið. Greinilegt að Þingvellir eru ekki neinn viðkomustaður Íslendinga um verslunarmannahelgar.

Daginn eftir var skriðið úr pokunum um kl. 9. Eftir venjulegan undirbúning var lagt af stað kl. hálf ellefu. Hún Þórhildur hélt í bæinn, sem var fyrirfram ákveðið því að þetta átti ekki að vera nema stuttur túr hjá henni. En lagt var af stað framhjá Ármannsfellinu í blíðuveðri og framhjá einu hundkvikindi sem stóð varla útúr hnefa sem gerði sig stórann. Held að kvikindið hefði hörfað ef við hefðum urrað á hann.
En það er nokkuð góður vegur upp að Kaldadal. Það er bara Meyjarsætið og Tröllhálsinn sem er hægt að kalla brekkur, og þá voru það líka ágætlegustu brekkur. Þar var tekið framúr hópi af þjóðverjum sem voru hjólandi. Það voru einu hjólreiðamennirnir sem við sáum þann daginn. En við neyðarskýlið í Kaldadal er beygt til austurs og við áðum við læk sem er þar rétt við. Það er eini lækurinn alla leiðina niður í Haukadal þannig að það þarf að taka með sér vatn fyrir daginn. Undirritaður tók með sér 3 brúsa, en kláraði ekki alveg en það var mismunandi hvað þorstinn sagði til sín. Sumir þurftu mun meira.

kiddi-2.jpg

Línuvegurinn hlykkjast meðfram norðurhlíðum Skjaldbreiðs til að byrja með. Þetta er frekar gróf leið og seinfarin, byrjar á blönduðu undirlagi á vegslóðanum, hraun og sandflákar inn á milli. Þegar leiðin fer að hækka sig þá er aðeins hraunið sem er undir. Uppi í hlíðum Skjaldbreiðs er frábært útsýni til Langjökuls og smájöklanna OK og Þórisjökuls. Í smá stoppi braust fram leiðsögumaðurinn í Öldu og hún skemmti okkur með skemmtilegum frásögnum frá Borgarfjarðarsveitum.

kiddi-3.jpg

Það var frekar bratt niður af Skjaldbreið niður að Lambahlíðum, en það er frekar gróið svæði þar sem nokkrir skálar eru. Þegar komið er í áttina að Lambahlíðum breytist undirlagið sem hjólað er á. Verður mjög laust, og eins og Pétur lýsti "það er eins og það hafi verið dreift golfkúlum á veginn". Þessar "golfkúlur" gerðu okkur frekar erfitt fyrir að hjóla upp þær brekkur sem liggja upp Lambahlíðarnar. Það þurfti aðeins að teyma upp. En þegar komið var að skálanum við Þórólfsfell var tekin góð pása. Sest var niður fyrir utan skálann og líkaminn nærður af ýmsu góðgæti sem var í töskunum í þeirri blíðu sem alltaf jókst. Kíkt var í gestabókina og mynd af merki klúbbsins var dregin í bókina. Þar sást að Maggi hafði verið á ferðinni tæpum mánuði fyrr á leiðinni austur á land.

Eftir góða hvíld var haldið af stað. Það var allt annað að hjóla þarna austur af skálanum. Það var komið í sandfláka sem voru þokkalega þjappaðir, þó að sums staðar þyrfti að teyma 4-5 metra. Var þetta mun betra en fyrr í ferðinni. Meira að segja hægt að setja í miðtannhjólið að framan.

kiddi-4.jpg

Þarna blasti við okkur í norðurátt Hagafell og Hagafellsjökull hinn vestari. Mjög fallegt hvernig jökullinn smáhækkaði sig upp og öll þessi hraun og víðátta sem er þar. En haldið er áfram og gefið var vel í, við vorum orðin vel úthvíld og hjólin og allur útbúnaður virkaði vel.
Komið var að brekkubrún á milli Mosaskarðsfjalls og Fagradalsfalls. Ég hefði ekki viljað hjóla upp (teyma upp) þá brekku. En á þeirri brekkubrún blasti Haukadalsheiðin við, söndug og hrjóstrug. Það virðist ganga illa að rækta upp þann landskika. En yfir Haukadalsheiðinni er ágætis vegur sem skiptist, ef beygt er til hægri þá er farið niður af heiðinni en ef haldið er áfram austur er komið að á sem nefnist Ásbrandsá. Þar þarf að vaða yfir á tveim lænum. Í framhaldi af ánni er komið að Kjalvegi.

Þarna á heiðinni var aldeilis farið að segja til sín að vera ekki á demparahjóli. Hendurnar orðnar dofnar og erfitt orðið að skipta gírum. En gamli góði jaxlinn fékk enn eitt bitið og haldið var áfram. Fljótlega er komið niður í runnaþyrpingar sem smá stækkuðu uns hægt er að kalla runnana tré og seinna trén skóg.

Þarna er komið að einu ánni sem þarf að vaða. Hún var alveg ótrúlega köld, miðað við hvað var mikill hiti í lofti. Undirritaður slapp blessunarlega við að vaða tvisvar yfir því að það komu hjón að á jeppa en þau voru svo almennileg að kippa Bobbinum yfir. Fljótlega eftir að komið er yfir ána er komið inní Haukadalsskóginn. Þarna er hinn ágætasti skógur sem er lengi búinn að vera í rækt. Þá birtist leiðsögumaðurinn (konan) aftur og okkur var sagt frá tröllkallinum í Bláfelli sem sagan segir að hafi verið jarðaður fyrir utan Haukadalskirkjugarðinn. Þaðan er stutt á Geysi.

kiddi-5.jpg

Fyrsta verk þar var að skola af sér svitann eftir heitan dag og drífa sig í heita pottinn og þreytan var látin líða úr okkur í klukkutíma. Þá var farið að tjalda á alveg ótrúlega lélegu tjaldstæði, ekkert heitt vatn, ekkert rafmagn, alls ekki túristavænt. Miðað við hvað Þingvellir eru góðir þá þurfa Geysismenn aldeilis að taka sig á og allavega tengja heita vatnið. Það er nú stórt hitasvæði undir öllu svæðinu.

Guðlaugur tók að sér eldamennskuna af stakri snilld fyrir okkur tvo. Galdraður var fram gourmet pylsupottréttur með laufléttu pasta ívafi sem bragðaðist vel og réttinum var rennt niður með vel hristum vökva, sérstaklega gott eftir átök dagsins. Eftir skemmtilegt spjall um kvöldið var skriðið í pokana og það leið ekki langur tími í svefn.

Ekki var veðrið verra daginn eftir. Glampandi sól og blíða. Það ver gefinn góður tími í morgunmat og frágang, þannig að það var ekki lagt af stað fyrr en um kl. 12. Þá var geyst áfram á rennisléttu malbikinu má segja í einni lotu til Laugarvatns. Á leiðinni vorum við að mæta einstaka hjólreiðamönnum og konum, ekki mörgum. Á Laugarvatni voru tvö pör af hjólreiðafólki er ætluðu yfir Kjöl. Það er alltaf gaman að skoða útbúnað hjá öðrum hjólreiðamönnum. Það sem tekið var eftir var hversu vel útbúin af ljósum þau voru. Enda er skylda hjá þjóðverjum að vera með ljós á hjólum allt árið. Sem mætti alveg leggja til hér á landi og fylgja því fast eftir í öllu myrkrinu sem er hjá okkur.

Eftir smá bollaleggingar um hvaða leið best væri að fara í bæinn var haldið niður þjóðveg 37 Laugarvatnsveg og haldið að Minni Borg. Þegar að hópurinn hafði náð saman aftur þá ákváðum við Guðlaugur að halda áfram á undan hjónakornunum. Farið var í vesturátt og beygt upp Búrfellsleið. Það er ágætis vegur sem leiddi okkur á Þingvallaveg og þaðan yfir að Írafossvirkjun. Á Þingvallaveginum kom vel í ljós að ekki eru nú allir trukkabílstjórar með sína þröngu sýn á veginn. Því að þegar hann fór fram úr okkur þá hægði hann vel á og vék á hina akreinina.Við hefðum ekki vilja láta svona bíl taka fram úr á fullri ferð. Nóg tók gusturinn í okkur þrátt fyrir lítinn hraða. Takk fyrir tillitssemina.

En haldið var áfram framhjá Úlfljótsvatni með iðandi mannlífi í skátamiðstöðinni og á Úlfljótsvatninu. En þegar komið var upp fyrir hæðina voru eftir allar hjólreiðarnar og hitinn farin að segja til vatnsbrúsanna, allt var orðið tómt. Það var enginn almennilegur lækur eða á fyrr en komið var að Ölfusvatnsá að hægt var að ausa í brúsana. Villingavatnsá er það gruggug að ekki er gott að drekka það vatn.

Við Nesjavelli er komið aftur á malbik þannig að léttara verður undir hjólum. Áður en farið var upp á Hengilinn var stoppað og líkaminn nærður og sest niður í smá stund. Áður en varði höfðum við sofnað báðir í hitanum og sólinni. Þvílík blíða. En eftir lúrinn var ekki til setunnar (hnakksins) boðið að renna yfir Hengilinn og í bæinn. Það var einna leiðinlegasti parturinn af þessari góðu ferð. Það er svo einhæft að hjóla meðfram pípunni í bæinn, þó að Hengillinn sé alltaf skemmtilegur.

En eftir stendur skemmtileg og krefjandi ferð með skemmtilegu fólki. Við hefðum ekki getað verið heppnari með veður og allar aðstæður. Það er vonandi að sem flestir komi með okkur í ferðir með Fjallahjólaklúbbnum.

Kiddi

© ÍFHK
Hjólhesturinn 1. tbl 2004.