Startið í Lillehammer Hjólakeppni í Noregi? Ert þú búin að skrá þig? Hlynur líka, Kjarri, Steini, Gísli og Emil frá Arctic trucks? Ætlar þú ekki að skrá þig? Jú, auðvitað er ég með. Hvenær er þetta? Í ágúst, já, flott! Hvað er þetta langt? 100 km. Ertu eitthvað verri? Ég hef aldrei hjólað lengra en 20 km í beit og var alveg að...

Við verðum að byrja að æfa, hjóla og hjóla. Ekki nóg að hjóla í vinnuna. Bætum við æfingum á þriðjudögum. Þetta er nú bara frekar gaman. Hjóla úr Vesturbænum upp í Elliðaárdal. Borða nammi og hjóla heim. ,,Best í Birken” bókin sem Sigríður hafði gefið Hinna bróður í jólagjöf var á alltaf borðinu. Gaman að skoða, já, þetta verður bara flott. Eitthvað á norsku, ég skoða bara myndirnar. Er þetta sniðmynd af leiðinni? Þetta getur ekki verið satt, er þetta brekka alla leiðina? Ekki eru þessar töflur æfingarplön? 

Ítalía í mars og fyrsta skipti út að skokka

Ég var aðeins farinn að stressast með vorinu og notaði því hvert tækifæri til að hjóla. Fór nokkrar ferðir við Garda-vatnið þar sem fjölskyldan dvaldi í mars. Við feðgar hjóluðum þar frábærar fjallahjólaleiðir sem hlykkjast um vínakra, bæi, hæðir og fjöll. Jóhann var 7 ára þannig að þetta var bara frekar gaman.

Greinarhöfundur á ,,risanum” og Jóhann á ,,klettakanínunni”.

Greinarhöfundur á ,,risanum” og Jóhann á ,,klettakanínunni”.


Þegar leið á vorið var ekki laust við að fleiri í hópnum en ég væru orðnir órólegir og slógu menn á stressið með bættum búnaði. Allt í einu voru komin ný Scott-hjól í hópinn. Nýjar gjarðir, dempara og bremsur mátti líka sjá ef grannt var skoðað. Eitt það skemmtilega við hjólreiðar er útbúnaðardellan. Já, og hnakkurinn. Ég hafði skipt um hnakk þegar ég fékk hjólið mitt. Ég bara gat ekki látið þennan hnakk sem fylgdi hjólinu ráða fjölskyldustærðinni. Setti stóran og góðan hnakk sem hægt var að sitja á. Miklu betra. Sama með pedalana. Hver getur hjólað fastur við hjólið? Nú varð að tjalda öllu sem til var. Ítalski titanium hnakkurinn var kominn á hjólið áður en ég vissi af og ég hættur að nota silicon-púðann sem ég hafði fundið einn eftirmiðdag þegar ég var að hjóla heim úr vinnunni. Það hafði verið bylting að setja silicon-púðann á titanium-hnakkinn en nú var þetta allt látið fjúka. Hvert gramm skiptir máli. Smellu-pedalar og vondur hnakkur er nú algert lámark og ekki tiltökumál sé það borið saman við keppnisbuxurnar. Já, bara ef ég gæti lýst kastinu sem konan fékk þegar ég smellti mér í buxurnar. Ég bara get ekki skilið af hverju hjólabuxur þurfa að vera svona bjánalegar. Þröngar með púða undir botninum, axlabönd og það versta er sniðið að framan… ístrunni er hreinlega ýtt út. Hverjum finnst það flott?

Æfingar magnast

Hluti hópsins tók þátt í Bláa lóns-þrautinni sem er frábær keppni sem hægt er að mæla með fyrir alla. Í þeirri keppni gerði ég mér grein fyrir því hversu mikilvægt rétt fæða er. Það er sum sé ekki nóg að fá sér bara kókómjólk fyrir keppni og láta það duga. Það var ekki um annað að ræða en að sökkva sér í næringarpælinguna og með hjálp sérfræðinga endað þetta með því að í startinu á Birkebeiner-rittinu var hjólið mitt eins og bænaveifurnar sem sjást á myndum frá Tíbet. Ég hafði nefninlega brugðið á það ráð að líma orkugelið á hjólið þannig að ég gæti á örskoti nælt mér í túpu. Ég varð reyndar fyrir smá óhappi með gelið. Ég hafði náð að opna eina túpu þegar ég sá þessa líka svaka brekku framundan. Varð því í skyndi að grípa í stýrið en ekki vildi betur til en svo að allt gelið sprautaðist úr túpunni í góðri bunu beint á gamlan Norsara.

 Á leið um Svínaskarð

Á leið um Svínaskarð

 

Hjólað um Kollafjarðarheiði

Ein af flottustu æfingaferðunum var farin um hásumar. Hluti hópsinns hjólaði frá Langadalsá í Ísafjarðardjúpi og yfir Kollafjarðarheiði. Þaðan í Þorskafjörð og yfir gömlu Þorskarfjarðarheiðina niður í Ísafjörð. Samtals um 140 km þar sem hraðinn var frá 70 km/klst. niður í 2 km/klst. tímunum saman þegar við börðumst upp heiðina í hávaða roki.

Langidalur

Langidalur

Keppnin

Seint í ágúst var hópurinn mættur með hjól í kassa í Keflavík. Í Osló beið okkar bíll með kerru og leiðin lá til Lillehammer þar sem búið var að tryggja gistingu. Það sem eftir var að deginum fór í karbonhleðslu og snudd við hjólin. Daginn eftir sóttum við númerin og tókum nokkra spretti. Við notuðum líka tímann til að fylgjast með Fredags Birken. Keppnin er svo vinsæl að bætt hefur verið við föstudagskeppni til að gefa fleirum kost á að taka þátt. Til marks um vinsældir keppninnar var uppselt 90 sekúndum eftir að opnað var fyrir skráningu á netinu. Mig minnir að keppendur hafi verið um 14.000. Teknir eru frá miðar fyrir ,,útlendinga” sem einfaldaði málið fyrir okkur.

Hjólin sett saman

 Hjólin sett saman

Æfingarferð fyrir keppni

Æfingarferð fyrir keppni

 3,5 kg sem allir keppendur þurfa að hafa.

 3,5 kg sem allir keppendur þurfa að hafa.

 Keppendur tilbúnir með hjólin í flutingarbíl til Rena

 Keppendur tilbúnir með hjólin í flutingarbíl til Rena

Ég vaknaði snemma og borðaði hafragraut. Brunaði svo í bæinn. Hjólin voru sett í trukk og við sett í rútu til Rena fyrir startið. Allt var frábærlega vel skipulagt. Það var samt eitthvað í loftinu sem kallaði á stopp en enginn þorði að spyrja fyrr en Óli Ragg tók af skarið og fékk bílstjórann til að stoppa. Það var líka eins og við manninn mælt – allir stukku út að létta á sér. Auðvitað höfðu allir drukkið vatn og orkudrykki ótæpilega í þeirri veiku von að það myndi redda æfingunum sem aldrei urðu.

Stopp á leið frá Rena til Lillehammer

Stopp á leið frá Rena til Lillehammer

 

Að koma til Rena í startið var alveg magnað. Bærinn var fullur af hjólum og keppendum. Fyrstu hóparnir voru ræstir klukkan 7 um morguninn og þeir síðustu um klukkan þrjú. Okkar hópur var tilbúinn í startið um hádegið. Hluti af undirbúningi var að prenta út þann tíma sem hver og einn stefndi að. Frekar spes að reyna að gera sér grein fyrir hvaða tíma maður gæti náð án þess að hafa farið eða séð brautina. Ég endaði á að stefna á 4:15:00, ég var á því að 4:00 væri of mikið og 4:30:00 væri nú frekar slappur tími. Ekki það að ég hefði eitthvað fyrir mér. Stefnan var því tekin á fyrstu drykkjarstöð SkramstadSetra og ég ætlaði að vera þar 38 mín. síðar.

SkramstadSetra

0:38:33

17.1 km/t (10.6 miles/hr)

Bringbusætra

1:24:07

17.8 km/t (11.0 miles/hr)

Kvarstad

2:25:44

21.9 km/t (13.6 miles/hr)

Storåsen

3:26:47

19.7 km/t (12.2 miles/hr)

Mål

4:15:00

29.9 km/t (18.6 miles/hr)

 

Startið í Lillehammer

Startið í Lillehammer

Fyrstu kílómetrarnir voru upp nokkuð bratta malbikaða brekku. Þá tók við malarvegur og síðan skógarstígar þar sem ómögulegt var að hjóla. Miðað við bókina Besti i Birken var mikilvægt að missa sig ekki í þessum hluta. Ég fór því sérstaklega rólega. Þegar ég náði í drykkjarstöðina í SkramstadSetra tók við svakalegt brun. Þar ætlaði ég sko að láta vaða og vinna mér inn tíma. En fjöldi hjólreiðamanna var slíkur að ekki var auðvelt að komast fram úr. Í öllum látunum sá ég stelpu fljúga fram fyrir sig og ekki vildi betur til en gamall karl datt á mig. Auðvitað gat ég ekki stoppað heldur ruddist áfram í þvögunni. Karlgarmurinn náði hins vegar að beygla hjá mér bremsudiskinn í árekstrinum. Örlítið neðar í brekkunni hafði einn keppandi dottið og lá á miðjum slóðanum þegar ég brunaði  fram hjá á sextíu kílómetra hraða. Næsta sem ég sá var skúkrabíl með blikkandi ljós. Eftir keppnina frétti ég að tveir hefðu slasast alvarlega í keppninni sem má í raun teljast ótrúlegt miðað við að keppendur voru um 14 þúsund.

Nú snerist málið um að hamast á sveifunum. Drekka vatn og gel eins og hægt var. Gíra upp og niður og hamast meira. Ekki vantaði hvatninguna því meðfram allri brautinni voru áhorfendur að hvetja… ,,heija heija”. Það voru meira að segja hljómsveitir að spila rokk og ,,heija”. Ég var bara nokkuð brattur og hélt mér nokkurn veginn á áætlun. Eftir að ég kom á fjórðu drykkjarstöðina var ég nokkuð ánægður því ég vissi að nú lá leiðin niður á við. Þetta var það sem ég hafði beðið eftir enda var meðalhraðinn nánast 30 km/klst. á þessum legg. Ástandið var á köflum hálfskuggalegt þegar hraðinn var kominn vel yfir sextíu og ekki minnkaði stressið þegar ég fékk krampa í vinstra lærið.

Meðfram allri brautinni og á henni voru hlutir sem keppendur höfðu misst af hjólunum og úr höndunum. Brúsar, gleraugu  og þessháttar. Þegar ég hafði hjólað í 67 kílómetra sá ég hnakk! Já, það hafði einhver misst hnakkinn af hjólinu og ekki hætt keppni heldur hjólað rúma tuttugu kílómetra án hnakks. Sá keppandi á rétt á verðlaunum.

Komnir í mark.

Komnir í mark.

Síðasta brekkan til Lillehammer og í markið við Ólympíuleikvanginn var brött og neðsti hlutinn á grasi sem var frekar erfitt eftir allt puðið. Að koma í mark var hins vegar frábært.

Birkebeiner var upphaflega gönguskíða­keppni. Nú er einnig keppt í hlaupi og hjóreiðum. Það er draumur allra Norðmanna að taka þátt í öllum greinum sama árið. Þeir sem eru góðir stefna að ,,Super Birkebeiner”. Þá þarf að taka þátt í öllum þremur greinum sama árið og ná ,,merkinu”. Til að ná merkinu þarf að ná í mark á tíma sem er skemmri en 25% frá tíma 5 fyrstu keppenda í viðkomandi flokki.

Ég mæli með keppninni fyrir alla sem gaman hafa af fjallahjólreiðum. Umgjörð mótsins er til fyrirmyndar og það eru ekki bara þeir sem vinna við mótið sem eru góðir. Það er greinilegt að ekki er minni skemmtunin hjá þeim sem studdu sína á hliðarlínunni.

Fyrir þá sem gaman hafa af gönguskíðum eða hlaupum er freistandi að keppa í öllum greinum. Ég er nú byrjaður að æfa í huganum fyrir hina keppnina sem ég tek þátt í. Það er Fossavatnsgangan á Ísafirði. Ekki minni skemmtun þar þótt keppendur séu færri.

Axel Jóhannsson

Þakkir fyrir góðan stuðning

Arctik Truks ehf.

www.birkebeiner.no

Birtist fyrst í Hjólhestinum mars 2009