05260002.jpg

Þetta er nýja klúbbhúsið okkar að Brekkustíg 2 á horni Framnesvegar. Myndirnar hér fyrir neðan voru teknar 24 júní 1999, um það bil 10 dögum eftir að við fluttum okkar hafurtask á efri hæðina.

Að venju var hópurinn blandaður, karlar, konur, uppáklætt í hjólafatnað eða ekki, gamalreyndir hjólreiðamenn og nýliðar.

Við eigum enn töluvert óunnið í því að koma okkur fyrir þarna og gera vistlegra.  Heimir tók smá skurk í því að raða upp bókasafninu.  Nú má segja að stóru hvítu skáparnir sem voru svo hentugir í gamla húsnæðinu séu orðnir til óþurftar og komin meiri þörf fyrir lægri skápa sem má koma fyrir alveg undir súðinni, þar sem geymsluplássið er best.

Á neðri hæðinni verður viðgerðaraðstaðan og menn þegar byrjaðir að nota hana. Þar glittir líka í nýju standana sem nokkrar hjólreiðaverslanir leyfa okkur að koma fyrir til að kynna klúbbinn og starfsemi okkar til að efla notkun almennings á reiðhjólum.  Annars var þetta nokkuð venjulegt kvöld í klúbbhúsinu.  Vestfjarðaferðin sem farin var fyrir tvem vikum var rædd og allir mjög ánægðir með hana og spáð í Skorradalsferðina eftir viku.  Benni sést hér segja Jón Erni einhverja ýkjusögu, Robbi og Jói spá í einhverja pappíra og Stebbi gluggar í nýjustu blöðin.

Við enduðum svo kvöldið á því að endurraða húsgögnunum til að nýta plássið betur enda var varla pláss fyrir alla á tímabili, þetta fyrsta kvöld eftir flutningana.

©ÍFHK 1999

Myndir og texti Páll Guðjónsson