Kaupamannahöfn – Berlín, 11. – 23. júní 2017

Þegar við vorum lent í Köben hófumst við Kolla (Kolbrún Sigmundsdóttir) og Jón (Jón Torfason) handa við að setja hjólin saman fyrir utan flugstöðvarbygginguna í skugga, því það var sól og nokkuð hlýtt. Að því loknu fundum við leiðina á korti að hótelinu þar sem við ætluðum að gista og héldum af stað þangað um sjö km leið, rétt hjá Bella Center. Þegar við komum þangað tók Guðrún á móti okkur (hún hafði komið hjólandi frá Stokkhólmi. Sjá ferðasögu hennar hér: Stokkhólmur – Kaupmannahöfn 2017). Við kíktum svo í bæinn. þ.e.a.s.  Kaupmannahöfn.

Næsta dag héldum við af stað til strandbæjarins Dragør. Veðrið var ekkert sérstakt, töluverður vindur og gekk á með skúrum og ekkert sérstaklega hlýtt. Týpískt íslenskt sumarveður. Við skoðuðum þennan fallega bæ og virki sem þar er, og var byggt 1910-1915. Að þessari ferð lokinni fórum við á hótelið til að skipta um föt og tókum strætó niður í bæ;gengum um miðbæinn og komum m.a. við í Nyhavn og Tivoli, þar sem við fengum okkur að borða og hittum bróður Guðrúnar. Að þessu loknu héldum við á hótelið til að pakka niður fyrir hjólaferðina framundan. Hjólaferð dagsins endaði í um 31 km.

Nú var komið að fyrsta degi hinnar eiginlegu hjólaferðar. Við lögðum af stað um klukkan níu. Veðrið var ekkert sérstakt, skýjað, ekkert sérlega hlýtt og hvasst. Að sjálfsögðu var vindurinn á móti. Við fylgdum sjónum að brúnni yfir Kalveboderne. Þegar yfir hana var komið fylgdum við austurströndinni til suðurs. Það stóð til að tjalda í Støby, en þar sem við komum þangað snemma héldum við áfram til Store Spjellerup. Þegar við höfðum tjaldað og ætluðum að finna okkur veitingastað til að borða á kom í ljós að það var enginn veitingastaður í bænum. Við borðuðum því morgunmat, snakk og súkkulaði í kvöldmat. Þegar hér var komið sögu var sólin farin að skína og það hlýnaði aðeins, en nokkuð hvasst ennþá. Við hjóluðum um 69 km þennan dag.

 

Næsta dag héldum við af stað aðeins seinna en áætlað var. Veðrið  var fínt. Léttskýjað, tiltölulega hlýtt og mun minni vindur en daginn áður. Leiðin þennan dag lá að miklu leiti meðfram sjónum með fallegu útsýni, meðfram Præstøfjord að Prestø. Þaðan lá leiðin að brúnni yfir Ulvsund á eyjuna Møn. Þar er bærinn Stege, þar sem til stóð að tjalda. En við ákváðum að að fara lengra. Héldum að Bogø By, þar sem við tókum ferju til Stubbekøbing þar sem við slógum upp tjöldum. Um kvöldið röltum við um, kíktum á sólsetrið og fórum yfir farinn veg áður en við fórum að sofa. Við hjóluðum rúma 72 km.

Þriðji hjóladagur tók á móti okkur með sól og blíðu. Við lögðum af stað upp úr klukkan níu áleiðis til Gedser þaðan sem við ætluðum við að taka ferjuna yfir til Rostock. Við stoppuðum í Norøping til að snæða. Á leiðinni þangað hittum við líflegan Ameríkana, sem starfaði sem kúreki. Hann var á leiðinni til Tyrklands, ef ég man rétt og var hann búinn að hjóla vítt og breytt um heiminn. Við komum tímanlega til Gedser. Ferjan var ókomin, en átti að fara klukkan þrjú en svo kom í ljós að það var um einnar klukkustundar seinkun á henni. Að lokum kom hún blessunin og viti menn, Ameríkaninn var einnig að fara með henni. Siglingin tók um eina klukkustund og fjörtíu og fimm mínútur. Þegar við komum til Rostock byrjuðum við á því að leita að hliðinu Steintor frá sextándu öld. Við fundum það og hótelið þar sem við vorum búin að panta herbergi og var við götu niður frá torginu þar sem hliðið stóð. Frábært. Rétt þegar við vorum komin að hótelinu kom hellidemba. Þannig að við sluppum með skrekkinn. Við gátum loksins þvegið óhreinu fötin okkar þarna og á meðan þau voru í þurrkaranum fórum við út að borða. Að lokum fórum við að sofa, sátt eftir góðan dag. Við hjóluðum rúma 66 km.

Við vorum aðeins seinna á ferðinni þennan dag. Lögðum ekki af stað fyrr en um klukkan tíu. Áður en við lögðum í hina raunverulegu ferð, var farið í smá verslunarleiðangur. Guðrúnu langaði að kaupa Garmin úr og GPS tækið hans Jóns hafði dáið daginn áður. Þetta voru átta km úr leið. Guðrún fékk úrið, en ekki var til GPS tæki fyrir Jón. Síðan tókum við stefnuna á Krakow am See, þar sem við ætluðum að tjalda. Við vorum með hjólakort og fylgdum leið samkvæmt því. En við komum að lokuðu hliði. Vorum ekki viss hvað við ættum að gera, ákváðum að prófa aðra leið en hættum við hana. Þarna voru geltandi hundar og sumum leist bara ekkert á blikuna. Við vorum í smá húsaþyrpingu þannig að við Jón fórum og bönkuðum upp á í einu húsanna. Þar kom eldri kona til dyra sem talaði enga ensku. En við skildum hana þannig að við mættum ekki fara í gengum hliðið og þyrftum því að fara aðra leið. En Guðrún hafði náð sambandi við aðra konu sem gaf okkur leyfi til að fara í gegnum hliðið. Ekki vorum við komin langt þegar á vegi okkar urðu…nei ekki ljón, heldur kindur. Alveg lifandi býsn af kindum með lömb.  Við heldum áfram í gegnum þvöguna og gekk það stórslysalaust.

Eftir stutta stund vorum við komin til Schwaan. Við vorum rétt komin þangað þegar það kom hellidemba. Við fundum skjól undir tré, ásamt nokkrum öðrum vegfarendum. Við fórum svo á kaffihús eða bakarí þar sem við settumst niður til að næra okkur. Þar sem rigndi og um 40 km eftir til næsta áfangastaðar og við aðeins á eftir áætlun, ákváðum við að taka lest til Gustrow, sem var í um 20 km fjarlægð. Tók sú ferð um 20 mínútur og við sáum svo sannarlega ekki eftir því. Síðan héldum við áfram til Krakow am See. Þar tjölduðum við og fórum í sturtu áður en við hjóluðum í bæinn til að fá okkur að borða. Við hjóluðum yfir 55 km þennan dag.

Þegar við lögðum af stað um morguninn fórum við að leita að hraðbanka. Já, þó að það sé 2017 er ekki öruggt að hægt sé að greiða með kreditkorti í Þýskalandi. Við fundum einn og tókum út peninga. Við héldum svo suður á bóginn niður með Krakower See til Plau am See. Þar stoppuðum við og fengum okkur að borða. Eftir þetta héldum við áfram niður með Plauer See, í gegnum nokkur þorp og skóga til Wittstock / Dosse. Þar byrgðum við okkur upp af mat, því óvíst var um að komast í búðir daginn eftir því þær eru flestar lokaðar á sunnudögum. Þegar við ætluðum að finna tjaldstæði var ekkert í næsta nágrenni, þannig að við þurftum að fara 13 km í norð/austur, í öfuga átt, til að komast í eitt sem við fundum, við Glambecksee. Þegar þangað var komið leist okkur ekki alveg nógu vel á tjaldstæðið til að byrja með. Sú sem að afgreiddi okkur var í reykmettuðu herbergi þegar við komum, en við komumst í sturtu og eftir matinn gengum við niður að vatninu til að taka myndir. Þegar sólin var sest var nokkuð ljóst að það var mikill raki í loftinu og það féll strax á tjöldin. En að lokum lögðumst við til hvílu. Við hjóluðum 92 km þennan dag.

Það var blautt, rakt og töluverð þoka þegar við fóru á fætur næsta dag. Tjöldin voru rennandi blaut og þannig gengum við frá þeim. Við héldum af stað til Wittstock/Dosse klukkan átta og það lá nokkuð þétt þoka yfir öllu. Þar er bakarí sem var opið milli sjö og tíu. Við áttum ekki von á að ná því en það slapp svo við gátum keypt okkur eitthvert snarl.

Þar sem töluverður aukarúntur var frá tjaldstæðinu til Neuruppin ákváðum við að taka lest þessa 30 km leið. Lestin var pakkfull af hjólum! Það var hópur af krökkum með kennurum, eða öðrum forráðamönnum sem fylltu vagninn. Það var varla pláss fyrir okkar hjól en við náðum að troða okkur inn. Miðavörðurinn átti í vandræðum með að troða sér á milli hjólanna til að athuga miðana. Svo á einni stöðinni kom einn í viðbót með hjól! Sem betur fer gat hann lagt það saman, þannig að það slapp. Loksins komum við á áfangastað og yfirgáfum lestina. En ekki nóg með að við færum úr lestinni heldur fór allur hópurinn einnig úr henni og tafðist lestin um nokkrar mínútur vegna þessa.

Þegar hér var komið sögu var farið að hlýna þannig að við þurftum að fækka fötum. Við héldum áfram okkar leið og stoppuðum á golfvelli og kíktum inn til að fá okkur hressingu. Þar réði ríkjum skemmtilegur dani, sem vissi töluvert um Ísland og við spjölluðum við hann í góðan tíma meðan við átum snarl og ís af bestu list. Hann sagði að við værum ekki á þessari týpisku Berlín - Kaupamannahafnar leið, sem við vissum. Þaðan héldum við áfram til Oranienburg. Þar ætluðum við að tjalda og héldum að meintu tjaldstæði. En það var húsbílastæði. Bara bílastæði í miðbænum þar sem fólk gat lagt húsbílum en ekki gert ráð fyrir tjöldum. Nú þurftum við að finna annað tjaldstæði. Þegar við komum þangað var enginn í afgreiðslunni. Við hringdum í uppgefið símanúmer og  sá sem svaraði sagðist koma eftir eina klukkustund. Ekki lét hann sjá sig eftir meira en einn og hálfan tíma og tvö símtöl. Þá gáfumst við upp og fundum hótel til að gista í. Á meðan við biðum eftir afgreiðslu á tjaldstæðinu höfðum við tekið tjöldin fram til að þurrka þau, enda ennþá rennblaut eftir nóttina. Það var hlýtt og sólin skein þannig að þau þornuðu fljót og vel. Maðurinn kom loksins þegar við vorum að leggja af stað frá tjaldstæðinu og var víst ekki sáttur við að við værum að fara en okkur var alveg sama; þetta var hans vandamál.

Það voru nokkrir kílómetrar að hótelinu, til suðurs í bæ sem heitir Velten, þannig að það stytti næstu dagleið. Þetta var ágætis hótel, eða öllu heldur farfuglaheimili og kostaði ekki mikið. Við komum okkur fyrir og fórum að leita að matsölustað. Þegar við komum út kom í ljós að sprungið var á hjólinu hennar Kollu, dekkið  rifið og handónýtt. Guðrún var með varadekk, en það fór ekki á án mótþróa. Nei, það gekk mjög illa að koma því á. Annar gestur á hótelinu, nokkuð sterklegur maður, bauðst til að hjálpa okkur en hann átti einnig í erfiðleikum með að koma því á. Að lokum gekk það og við gátum farið og fengið okkur að borða og enduðum á ansi góðum ítölskum stað. Við hjóluðum 75 km.

Síðasti hjóladagurinn rann upp bjartur, fagur og heitur. Hitinn var um 18°C þegar við lögðum af stað. Við byrjuðum á að fá okkur að borða á lestarstöð rétt við hótelið. Að áti loknu héldum af stað til Berlínar. Við vorum eiginlega í úthverfi Berlínar, eða í bæ í útjaðri borgarinnar, svona eins og Hafnarfjörður, Garðabær eða eitthvað svoleiðis. Maður sá ekki nein bæjarmörk. Þannig að núna vorum við meira og minna að hjóla í byggð. Þó fórum við í gegnum garða þar sem fólk naut veðurblíðunnar, m.a. við vötn. Á einni brú hittum við eldri mann sem bauðst til að sýna  okkur bestu og fljótlegustu leiðina inn í borgina. Hann fór með okkur skemmtilega leið sem er kölluð „Múravegurinn“ Þetta er stígur sem liggur meðfram þar sem Berlínarmúrinn stóð. Þar komum við að einum varðturni sem var við múrinn. Búið er að taka múrinn í burtu á þessum stað en hellur hafa verið lagðar til að sýna hvar hann lá. Við gerðum ísstopp í einum garðinum sem við fórum í gegnum. Það var mjög gott, enda frekar heitt.

Síðan héldum við áfram þar til að við komum að hluta af múrnum í einu úthverfi borgarinnar. Við stoppuðum þar í dágóða stund til að skoða og mynda. Að þessu loknu brunuðum við í gegnum borgina að Alexsanderplatz. Þangað komum við kl. rúmlega eitt eftir um 45 km ferð. Þar tókum við myndir af okkur enda komin á leiðarenda. Síðan héldum við að hótelinu þar sem við ætluðum að gista. Þegar við fundum það kom í ljós að herbergin voru í íbúð í austur þýskri blokk við Karl Marx Alle, af öllum stöðum. Aldrei, aldrei, hefði mér nokkurn tímann dottið í hug að ég ætti eftir að dvelja í austur þýskri blokk og því síður við Karl Marx götu! En herbergin voru í fínu lagi. Við skiptum um föt og fórum aftur á Alexanderplatz til að kíkja í búðir og fá okkur að borða áður en við fórum til baka í íbúðina og lögðum okkur eftir fínan dag.

Þar með lauk þessari hjólaferð. Við vorum í þrjá daga í Berlín til að skoða okkur um áður en við héldum heim á leið þann 22. júní eftir alveg hreint frábæra ferð.

Grétar William Guðbergsson
Birtist fyrst í Hjólhestinum mars 2018.

Fleiri myndir Grétars á Flickr: Kaupmannahöfn - Berlín, júní 2017