Samkvæmt hefð förum við í hjólaferð um Eurovision helgina. Í ár ætlum við í Húsafell, gistum þar í bústað með heitum potti. Við höfum bústaðinn fram á mánudag, um að gera að taka langa helgi ef hægt er.

Á föstudag hjólum við um Húsafellsskóg. Ca 10 km á skógarstígum með ilm af björk og reynitrjám í nösunum. Erfiðleikastig 4 af 10.

Á laugardag ætlum við að hjóla upp að Langjökli og falla í stafi yfir mikilfengleika náttúrunnar á þessum slóðum. Hjólatúrinn er krefjandi, alla vega helmingurinn, því hækkun er upp á 600 metra. Þeir sem eru á rafmagnshjólum geta prísað sig sæla. Pís of keik. Nema náttúrulega rafmagnið klárist. Hinir vinna sér inn hreysti stig sem hægt er að gorta sig af í heita pottinum að hjólatúr loknum. Ef okkur lýst ekki á þennan legg má hjóla 30 km hringleið að mestu á jafnsléttu. Koma við á Hraun- og Barnafossum. Eða hjóla yfir í Reyðarfellsskóg og skoða Hringsgil og Deildargil. Þá þarf að taka með vaðskó.

Við munum ákveða okkur endanlega yfir hafragrautnum á laugardeginum þegar við höfum tekið stöðuna á mannskapnum og gáð til veðurs. Kl 19:00 verður Eurovision á dagskrá og við hvetjum Diljá til dáða. Það verður lambalæri í matinn, sem er innifalið í verði ferðarinnar. Erfiðleikastig 8 af 10. Nema hringleiðin er 5 af 10 og Reyðarfellsskógur 6 af 10.

Á sunnudag er planið að hjóla upp á Arnarvatnsheiði. Skoða Surtshelli ef hægt er og hjóla sömu leið til baka. Samtals 30 km með ca 100 metra hækkun. Sem er náttúrulega lækkun á bakaleiðinni. Erfiðleikastig 7 af 10.

Þú þarft að taka með rúmföt (eða svefnpoka), sundföt, handklæði, drykkjarföng (áfengt ef vill) og nesti fyrir 2 hjóladaga. Kvöldverður á laugardag og hafragrautur á laugardag og sunnudag, svo og kaffi er innifalið í verði ferðarinnar. Sem er 8.000 krónur. Ef þig vantar flutning fram og til baka fyrir þig og hjólið bætast við 4000 krónur sem greiðist bílstjóra. Ef þú getur boðið far færð þú aurinn.

Það er pláss fyrir 8 manns í bústaðnum, vinsamlega bókið þátttöku með því að hafa samband við This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it..

Það má líka kíkja við og hjóla með okkur 1 dag. Kíkja í heita pottinn. Borða með okkur. Gista eina nótt. Þá er verðið 3-5 þúsund.

Hér eru nokkrar myndir úr síðustu Eurovision ferð klúbbsins.