Í apríl heldur Fjallahjólaklúbburinn þrjú viðgerðanámskeið á reiðhjólum. Námskeiðin eru haldin fimmtudagana 5., 12. og 19. apríl í félagsaðstöðu klúbbsins að Brekkustíg 2. Húsið opnar kl. 20 og námskeiðin hefjast stundvíslega kl. 20:15 á verkstæðinu á jarðhæð. Uppi verður að vanda boðið upp á kaffispjall og léttar veitingar í kaffihléi.

Fyrsta námskeiðið, 5. apríl, verður byrjendanámskeið og öllum opið á meðan húsrúm leyfir. Farið verður í stillingu hjólsins fyrir notandann og almennt viðhald eins og hreinsun og smurningu, keðjuskipti og gert við sprungið dekk. Seinni tvö námskeiðin verða framhaldsnámskeið og fá félagar í klúbbnum forgang og frían aðgang en annars kostar þúsund krónur á hvort fyrir sig. Á öðru námskeiðinu, 12. apríl, verður farið í stillingu og viðhald gíra og á þriðja námskeiðinu, 19. apríl, verður farið í stillingu og viðhald bremsa. Nánari upplýsingar um seinni tvö námskeiðin koma síðar.

Tekið verður við skráningu nýliða á öllum námskeiðunum og munu nýliðar njóta sömu kjara og félagsmenn strax eftir greiðslu félagsgjalds.