Gleðilegt sumar!
Spennandi tímar eru í gangi. Fólk hjólar meira en áður, ekki aðeins að sumarlagi heldur virðast vetrarhjólreiðamönnum fjölga með hverju árinu sem líður. Sumir greinilega nýkomnir út úr skúrnum skuggalega til fara og vanbúnir til að takast á við Kulda-Bola. Ef marka má andlitsgeiflur hafa nokkrir klikkað á grundvallaratriði að klæðast bómullarnærfötum, textíll sem hefur þann ókost að halda rakanum svölum að líkamanum meira en góðu hófi gegnir, á norðlægum slóðum.
Hinir reyndari verða hinsvegar sífellt vígalegri í ull, flís, og allt að þriggja laga vatnsheldum gerviefnum geislandi af endurskini og ljósbúnaði.

Ferðirnar

Þegar kemur að hjólreiðaferðum láta klúbbmeðlimir ekki sitt eftir liggja.
Reynslumikill bolti að nafni Björn Finnsson tók að sér formennsku í ferðanefndinni og það er gaman að sjá hve vel mannast hefur í nefndina og drifkraftinn sem fylgir fólkinu.
Þriðjudagskvöldferðirnar voru því tilbúnar á dagskrá áður en árið 2005 gekk í garð og lengri ferðirnar síuðust inn jafnt og þétt í kjölfarið.

ÍFHK laus við pólitíkina?
Undanfarin misseri hefur klúbburinn staðið á tímamótum. Landsamtök hjólreiðamanna (LHM) hafa náð að virkja þingmenn þvert á pólitískar flokkslínur, til skrafs og ráðagerða, til að stuðla að sjálfbærum samgöngum.
Landssamtökin hafa því tekið við pólitísku hlutverki hjólreiðafélaganna á landsvísu. Því getur klúbburinn okkar einbeitt kröftum sínum að því sem hann var hugsaður í upphafi, þ.e.a.s. sem ferðaklúbbur - laus við pólitík!
Þetta varð sérstaklega ljóst á síðasta aðalfundi ÍFHK þar sem urðu þau tímamót að sömu menn sitja ekki bæði í stjórn LHM og ÍFHK.

Þar með er ekki sagt að við komum ekki að neinu nema hjólreiðaferðum. ÍFHK borgar hluta af sínum tekjum til Landssamtakanna og því hafa allir klúbbmeðlimir sjálfkrafa framboðs- og kosningarétt í LHM. Að auki fengu Landssamtökin í arf umhverfisnefnd ÍFHK sem sinnti einnig skipulagsmálum, enda var hún endurskírð Skipulagsnefnd.

Skipulagsnefndin er því alfarið í umsjón Landssamtakanna sem allir meðlimir hjólreiðafélaga geta tekið þátt í. Sjá nánar bls. 8. Skipulagsnefnd LHM vantar fólk!

Auðvitað eru raddir sem vilja að ÍFHK sé einnig í pólitísku stússi, en ljóst er að það verður ekki bæði sleppt og haldið eftir að LHM voru stofnuð. Mörkin eru ekki alltaf skýr og greinileg en þegar hefur reynt á þetta því ÍFHK berst í hendur beiðni sem tekin var fyrir á stjórnarfundi. Stjórnin áleit það pólitískt og vísaði því til LHM. Fordæmi er því komið að LHM sinni alfarið pólitísku sviði hjólreiðamanna.

Hjólhesturinn
Hjólhesturinn er í raun málgagn allra hjólreiðamanna á Íslandi og pistlarnir sem birst hafa í ritinu árum saman endurspegla það.

Óplægður akur
Sú nýbreytni fylgir í þessum Hjólhesti, að komið er til móts við hjólreiðafólk á Íslandi sem er af erlendu bergi brotið. Flest skrif í Hjólhestinum hafa því stutta samantekt á ensku og myndir eru bæði með íslenskum og enskum texta.


Útlendingar búa almennt við meiri hjólamenningu en við íslendingar og fyrir þeim er skiljanlegt að Íslenskt hjólreiðafólk sé frekar lokuð bók.


Fjöldinn allur af ungu erlendu fólki býr hér á landi, er í vinnu eða í skóla, bæði sem skiptinemar í framhaldsskólum og háskólum sem og ferðmenn á öllum aldri. Þetta er óplægður akur sem verður lítið var við okkur, nema álengdar, þegar við geisumst framhjá, hittum þá uppá einhverri heiðinni, eða í þeim tilvikum þegar útlendingar slá inn hjólreiðar og Ísland í leitarvélum.


Það er von undirritaðs að ensku útdrættirnir gefi erlendu fólki nasasjón af starfi okkar og auðvelda tengslanet við erlend félög sem kemur sér vel þegar kemur að ferðalögum hvort sem við förum erlendis eða slegist er í för með okkur hérna á fróni. Hver veit nema þetta verði til þess að veiða nokkra nýja félaga í klúbbinn?


Marie Smith tekur hjólið sitt í gegn eftir veturinn

 

Sjálfbærar samgöngur
Undanfarin misseri hefur gott og hugdjarft fólk unnið að framgangi hjólreiða sem valkosti í samgöngumálum og það er mikilvægt að þessir prúðisaðilar hafi kröftugan bakstuðning hjólreiðafólks. Því skiptir sköpum að við höfum öll vandað málgagn í höndunum til að reka undir trýni þeirra sem sjá enga aðra lausn í skipulagsóværu en að spreða milljörðum í samgöngumannvirki sem beinlínis auka á vandamálin fremur en að leysa þau.
Því er allsorglegt að ritnefndin okkar sem sér um Hjólhestinn og efni í heimasíðuna er varla starfhæf sökum fámennis, enda hefur það vart farið fram hjá neinum sem bjuggust við kröftugum Hjólhesti fyrir löngu! Ábyrgð á töf á útgáfu Hjólhestsins liggur alfarið hjá undirrituðum. Hvorki auglýsingasmalinn Alda J. né fráfarandi umsjónarmaður Hjólhestsins MBerg ber ábyrgð á því!
Undirritaður tók að sér umbrot, og vinnslu Hjólhestsins við upphaf hausts og hefur brennt sig allilla á því að það er meira mál en virðist að koma málgagni sem þessu frá sér.

Ég óska ykkur góðs hjólreiðasumars og munið að fjölmenna í ferðirnar og á þingpalla þegar sjálfbærar samgöngur og hjólreiðabrautir í vegalög ber á góma.

Sólver H. Sólversson Guðbjargarson.
formaður ÍFHK

 Hjólhesturinn 1. tbl. apríl 2005
© ÍFHK 2005