Með smá útsjónarsemi og þolinmæði getur þú farið næstum allra þinna ferða á reiðhjóli. Íslensku hjólreiðafólki bjóðast nú nýir valmöguleikar til að fækka óþarfa snatti á einkabílum umtalsvert. Um er að ræða tvenns konar tengivagna fyrir reiðhjól.

Annarsvegar vagnar eingöngu fyrir farangur, svo sem frá Bob og Kynast. Hinsvegar vagnar frá Schwinn, Cannondale, Winter og Burley sem eru bæði fyrir börn og farangur. Það sem hér fer á eftir er ekki fullkomin prófun nema kannski að því leiti að töluverð reynsla hefur fengist af Cannondale, Burley og Bob. Af þeirri reynslu hefur svo mátt draga ýmsar ályktanir varðandi hinar gerðirnar.

Kynast 444 er farangursvagn með gamaldags hönnun, 60 lítra plastkassi í stálgrind á tveimur 12" dekkjum. Bóman er fest á hnakkstoðina á kúlu sem komið er þar fyrir. Vagninn á að geta borið 50kg. Hann er fremur valtur og því getur hönnunin aðeins talist góð fyrir hægfara hjólreiða-fólk sem býr á svæðum þar sem gert er ráð fyrir því í skipulagi, hann hentar því takmarkað fyrir íslenskar aðstæður. Eigin þyngd er 10,5 kg., verð 13 þús. kr. og seljandi er Markið.

 

 

 

Bob Yak16 farangursvagninn hefur fengið að þola ýmislegt hér á landi. Þessi hönnun er nýstárleg og frumleg. Aðeins eitt 16" hjól undir 4130 CrMo stálgrind og stór 94 lítra regnheld taska. Bóman er tengd við burðargrindina á liðamótum með Delrin fóðringu. Við reiðhjólið tengist bóman báðum megin við afturhjólið á sérhannað hraðtengi (quick-release). Vagninn veltur því ekki nema hjólið velti líka og því má segja að þetta sé stöðugasti vagninn á markaðnum.

Fyrstu kynni voru þau að vagninn virtist stela svolítið jafnvæginu, en það vandist fljótt. Það er heldur ekki sama hvernig vagninn er hlaðinn. Þessi vagn tekur á sig ótrúlega lítinn vind og satt best að segja veit maður varla af honum þó hann sé vel hlaðinn eða í mótvindi. Hann smýgur vel í gegnum umferðateppur, upp og niður kanta og liggur vel í beygjum. Hann fer vel með farangurinn því bæði myndbandstæki og Mac tölva undirritaðs hafa ekki enn bilað eftir harða þeytinga út um borg og bí. Eini gallinn virðist vera sérhannað hraðtengi sem tengir vagninn við reiðhjólið. Hefur það átt til að brotna og lássplitti, því tengt, týnst. Er því nauðsynlegt að verða sér út um varastykki þegar vagninn er keyptur. Vagninum fylgir öryggisflagg sem mætti vera í skærari litum. Flutningsgeta er 32kg. Eigin þyngd 5.5 kg. Verð 33 þús. Seljandi Örninn. Nú er tækifærið að selja bílinn !

Cannondale Stowaway barna- og farangursvagninn hefur verið í töluverðri notkun hér á landi. Reynslan hefur verið misjöfn en úr því hefur mátt bæta. Upphaflega fylgdi regnhetta ekki vagninum og var það bagalegt vegna þess að hún er jafn mikilvæg veltigrindinni. Cannondale bætti úr því strax ári seinna og er regnhettan nú hluti af blæjunni yfir vagninum. Það verður þó að segjast að þar var vaðið úr öskunni í eldinn því rennilásarnir voru afspyrnu lélegir og eru það enn. Auk þess er regnhettan, sem gerð er úr gagnsæju plasti, saumuð við blæjuna. Mín reynsla af slíkum frágangi segir að plastið á eftir að springa í frosti og rifna frá blæjunni eins og frímerki. Blæjan kallar því á endurhönnun frá eigandans hálfu. Margir hlutir eru þó í góðu lagi. Má þar nefna að botngrindin er heilsteypt polyethylene skel, sem er kostur, styrkt með 6000 seríu T6 álpípum. Bóman kemur lárétt frá vagni og tengist við vinstri keðjugaffal á gúmmíliðamótum. Það hefði verið þægilegt að setja breiðari dekk undir vagninn til að mýkja hann, en það er ekki hægt vegna þess að Polyethylene skelin er mótuð sem aurhlíf yfir hjólin. En á veturna virkar þessi vagn vel því mjó 20x1,5" dekkin skera sig í gegnum skaflana þar til undirvagninn tekur við og rennur eins og sleði. Auk veltigrindar eru sætin þægileg með 4ja punkta öryggisbeltum fyrir tvö börn. Aftan við sætin er farangursrými auk þess sem börnin geta haft sitt hvorn dótapokann sér við hlið. Vagninn er í skærum gulum og rauðum lit, hefur endurskin og honum fylgir öryggisflagg. Eigin þyngd er 12 kg, burðargeta 36 kg og verðið 40 þús. Seljandi GÁP. Cannondale hefur nú hannað nýjan vagn fyrir árið 1997 sem þeir kalla Caboose. Útlitslega séð er hann nauðalíkur Burley og Schwinn vögnunum (sjá síðar í þessari grein). GÁP hefur hug á því að flytja hann inn og bjóða hann á "góðu" verði. Verður spennandi að sjá hvort Cannondale hafi klórað sér fram úr göllum "Stowaway".

Winter Dolphin er limúsína allra vagna. Þessi danski vagn er prýddur öllum bestu kostum Cannondale vagnsins. Hann er gulur og rauður úr næloni, polyethylene og áli. Aðrir kostir eru; engir rennilásar á blæju, polyurethan demparar undir hjólunum svo ekki þarf að hugsa um breiðari dekk. Auka hjólabúnaður og handfang fylgja svo hægt er að nota hann sem trimmvagn, draga hann eða ýta. Vagninn er mjög straumlínulagaður, og er það kostur því hann er tiltölulega stór. Hann tekur því minni vind og síður er hætta á því að skemma vagninn ef hann rekst á staura og steina sem oft eru staðsettir á miðjum stígum hér á landi. Bóman er lárétt "S" beygð, tengd undir miðjan vagn en ekki frá vinstri hlið eins og á öðrum vögnum. 20 tommu dekkin rúlla á hjólastólanöfum með iðnaðarlegum. Auk veltigrindar og öryggisfána er farangursrýmið stórt og sætin þægileg með 3ja punkta öryggisbelti. Ókostirnir eru þeir sömu og á öðrum vögnum, blæjan mætti ná betur niður fyrir botnskelina því sóðaskapurinn á veturna er óskaplegur (tjara og salt af götum). Vagninn vegur 13 kg og getur borið allt að 60 kg. Verðið er 50 þús.kr. Seljandi er Örninn.

 

 

Schwinn Joy Rider er mjög líkur Burley vagninum sem verslunin Örninn seldi fyrir tveimur árum. Sá vagn hefur verið einn mest seldi vagninn í Bandaríkjunum og líklega einnig í Evrópu. Hann hefur ýmsa góða kosti s.s. hægt að setja undir vagninn breið dekk, gulur á litinn, endurskin, með öryggisfána, 5 punkta öryggisbelti og laus við alla rennilása. Vagninn hefur þó líka galla eins og botninn sem er ekki hörð skel heldur er nælon tau saumað í botngrindina eins og í blæjuna. Þetta er kannski ekkert stórmál en svona botn þykir ekki hlífa barninu eins vel og harður botn, auk þess sem sætin eru ekki eins góð og í öðrum vögnum. Það er líka meiri möguleiki á því að gat myndist í tauið, saumar spretti upp og smáhlutir tínist úr vagninum. Kostirnir eru þeir að vatn getur seitlað gegn um tauið ef það hellist eitthvað niður og endurbætur er hægt að gera með PVC efni frá Seglagerðinni Ægi. Vagninn vegur 12 kg, getur borið 36 kg og kostar 40þús. kr. Seljandi er Markið.

 

Alla barnavagnana er hægt að brjóta saman svo að minna fari fyrir þeim í geymslu. Eftir að búið er að brjóta þá saman fer minnst fyrir Cannondale Caboose og Schwinn síðan Cannondale Stowaway en mest fer fyrir Winter vagninum enda er hann stærstur. Vagnarnir eru fyrir börn að 5-6 ára aldri, en það fer eftir stærð vagnanna. Oftast er miðað við tvö börn, og að þau séu ekki meira en rétt rúmlega metri á hæð og þyngd þeirra sé ekki meiri en uppgefin hleðsluþyngd. Börnin þurfa að vera með hjálma og með vel stillt öryggisbelti.

Það er talið öruggara að tengja vagnana við fjallahjól því að snertiflötur fjallhjóladekkja er meiri en á götuhjóli. Þá er minni hætta talin á því að hjólreiðamaður missi stjórn á hjólinu t.d. þegar þarf að hemla snögglega.

Helsti galli barnavagnana er talin vera sá að þeir taka á sig mikinn vind.

Það á þó ekki að koma að sök því þá er bara að gíra niður og hjóla hægar. Annar galli er sá að margir telja að þeir stofni lífi barnsins í hættu vegna bílaumferðar því bílstjórar séu tillitslausir gagnvart hjólreiðafólki. Það er alltaf hægt að líta dökkum augum á alla skapaða hluti og því má segja að það sé glæpur að aka með barnið í bíl sem fer yfir 40km hraða. Það á að sjálfsögðu ekki að draga þessa vagna með barn innanborðs eftir umferðaþungum götum. Farið þess í stað eftir fáförnum götum eða gangstéttum og stígum og aukið öryggið með auka endurskini, áberandi flöggum og blikkljósum. Notið ímyndunaraflið !

Vagnarnir þykja mun öruggari en barnastólarnir vegna þess að barnið er betur varið gegn veðri og byltum og fær síður hálshnykk á háum köntum og holóttum stígum. Barnið á auk þess auðveldara með að sofna í vagninum. Þeir sem á annað borð hafa hug á því að kaupa barnastól ættu að velja hann af kostgæfni því stólbakið á að styðja við höfuð barnsins. Vera með stillanlegum "ístöðum" fyrir fætur og með góða hlíf svo barnið nái ekki að setja fæturna í teinana. Það er kostur ef stóllinn er festur á stangir sem fjaðra svo barnið þurfi ekki að finna eins fyrir köntum og öðrum ójöfnum.

 

Þegar börnin stækka upp úr vögnunum, u.þ.b. 5-7 ára, er hægt að fá tengihjól þar sem barnið fær að hjóla en er þó tengt við reiðhjól foreldrana. Þarna getur barnið verið með sinn eigin farangur á sínu hjóli og fengið að taka á með foreldrunum sem hafa alla stjórn á tengihjólinu. Það má því fara greiðar yfir og barnið þreytist seinna í langferðum. Tengihjólin eru til í mismunandi útgáfum og gæðaflokkum. Nefna má merki eins og Adams Trail-A-Bike, P. J. Taylor Tagga og Islabike trailerbike. Helsti galli þessara hjóla er að þau eru ekki fjöldaframleid hjá stóru reiðhjólaframleiðendunum og eru því frekar dýr. Á móti kemur að þessi hjól eru þau öruggustu sem völ er á fyrir börn á aldrinum 5-10 ára. Þessi hjól hafa því miður ekki sést hér á landi en vegna fyrirspurna hefur Örninn þó haft hug á því að flytja inn eitt slíkt hjól.

Klúbburinn getur veitt frekari upplýsingar um þessi hjól og tengivagnana og bent á mismunandi útfærslur, kosti þeirra og galla. Það er því bara að mæta á fundi og spyrjast fyrir.

Magnús Bergsson

© Hjólhesturinn, 1. tlb. 6. árg. Febrúar 1997.