20 ½  árs saga ÍFHK rifjuð upp

Það er venja að rifja upp farinn veg á tímamótum eins og núna þegar 20 ½ ár er frá stofnun Íslenska fjallahjólaklúbbsins og nýr áratugur er runninn upp þar sem margir spá stóraukinni notkun reiðhjólsins sem samgöngutækis. Við ætlum að rifja upp sögu klúbbsins og starf á næstunni með því að setja á vefinn okkar öll fréttabréf klúbbsins í gegnum tíðina. Hjólhesturinn kom út í fyrsta skipti vorið 1992 og inngangurinn endurspeglaði mikinn metnað:
“Hjólreiðar á íslandi í 100 ár - og loksins kemur hér fyrsta blaðið sem tengist þeim. Tími var nú kominn til að þessi geiri menningar, útivistar, íþrótta og heilbrigðrar skynsemi léti í sér heyra. Nú fjölgar þeim dag frá degi sem hafa hjól fyrir sinn aðalfararskjóta. Innanbæjar sem utan í sátt við móður jörð sem orðin er illa haldin af óábyrgri hegðun mannanna! Við skulum vona að næstu hundrað ár verði hundrað ár hjólsins."

"Vegna stóraukins áhuga á hjólreiðum langaði okkur að safna á einn stað allrahanda upplýsingum um þennan ferðamáta. Við höfum því dregið samari í þetta fyrsta tölublað Hjólhestsins þýtt og frumsamið efni hjólreiðamönnum til gagns og gamans: leiðbeiningar, vörukynningar og ferðasögur með meiru. Og annað eins er nú fyrirliggjandi. Því er von okkar sú að næsta tölublað Hjólhestsins rúlli fljótt í kjölfar þessa. Ef menn hafa áhuga á að starfa með klúbbnum eru þeir hvattir til að setja sig í samband við forystumenn hans.”

Þetta markmið að safna saman á einn stað allrahanda upplýsingum hefur tekist einstaklega vel hjá klúbbnum í gegnum tíðina og hafa þær verið aðgengilegar lengi á vef klúbbsins og alltaf safnast meir og meir.

Í blaðinu eru meðal annars tvær skemmtilegar ferðasögur. Önnur fjallar um “fyrstu alvöru ferð ÍFHK” sem var Landmannalaugaferð í september 1991 . Hin segir frá fjallahjóla- og gönguferð í Borgarfjörðinn og ofan í Víðgelmi nóvember 1991 .

Fyrsta tölublað fyrsta árgangs Hjólhestsins má lesa hér fyrir neðan. Smellið á blaðið til að sjá það stórt, annar smellur stækkar það enn meir og með stiku efst er hægt að velja mestu stækkun. Esc takkinn lokar blaðinu.


Íslenski fjallahjólaklúbburinn,
Brekkustíg 2,
101 Reykjavík. 

 

Netfang: ifhk@fjallahjolaklubburinn.is
Kt. 600691-1399
Banki: 515-26-600691