Smá hringferð um vesturbæ Reykjavíkur, nóvember 1998

Undanfarið hafa verið sett upp ný umdeild strætisvagnaskýli í borginni fyrir þá sem nýta sér almenningssamgöngur. Í leiðinni hafa mörg þeirra verið flutt til þar sem þau heftu umferð gangandi og hjólandi um göngustíga. Ekki veitti samt af að færa þennan ljósastaur sem einhverra hluta vegna var settur út á miðjan stíginn, eða kannski var hann þarna áður en stígurinn kom.

Hér hefur stígnum meðfram einni helstu samgönguæð borgarinnar ekki verið viðhaldið árum saman
Hinumegin við Hringbraut er reyndar nýlegur stuttur kafli sem er í ágætu standi.

MVC-008d.JPG

Eitthvað er þó verið að laga þarna við Tjörnina og eins og svo oft áður leggja verktakarnir undir sig nærliggjandi stíga svo gangandi og hjólandi verða að víkja.

Leiðin lá síðan eftir frostsprungnum stígum í Ráðhúsið. Við Ráðhúsið hefur Tjarnargata verið snyrt og og lagfærð en þar er einstefna sem er ekki undanskilin hjólreiðafólki sem verða þá að fara eftir göngustígnum en hann er orðinn ansi þröngur eftir lagfæringar og erfitt að mæta öðrum eins og sést hér.

Fyrst ég var með myndavélina í láni ákvað ég að skella mér á stíginn góða frá Seltjarnarnesi og taka myndir af lagfæringum þar sem hann fer framhjá flugvellinum, þó að nokkuð væri farið að dimma. Þar sem hann byrjar er merki sem sýnir hvoru megin hjólreiðamenn eiga að hjóla, ekki fór mikið fyrir öðrum merkingum alla leiðina í Öskjuhlíðina fyrir utan örfáar gamlar máðar merkingar. Helst þyrftu svona merkingar að vera með reglulegu millibili allan stíginn og allstaðar þar sem komið er inn á hann.

Þegar ég kom að staðnum þar sem lagfæringarnar áttu að hafa verið gerðar voru tvö skilti sem merktu
greinilega leiðina þar sem hún lá eftir þessum holótta malarvegi eins og verið hefur undanfarin ár. Þegar ég kom aftur á stíginn sá ég hins vegar hvar nýji kaflinn lá meðfram fjörunni, það hefur þá bara gleymst að taka niður skiltin. Það verður vonandi gert og nýja kaflanum skipt með línu.

(Nóvember 1999 er enn uppi skiltið sem vísar á gömlu drullupollaleiðina framhjá nýja kaflanum á stígnum sem reyndar er meira en ársgamall)

Maður veltir fyrir sér þegar horft er yfir þessar myndir hvort ekki mætti setja meiri kraft í að lagfæra aðalstígakerfið á höfuðborgarsvæðinu og ýta þannig undir að almenningur notfæri sér í auknum mæli hollasta og umhverfisvænsta valkostinn í samgöngumálum, sem er í dag og fyrirsjáanlegri framtíð nefnilega reiðhjólið. Reynslan erlendis sýnir að þegar umferð hjóla og bíla er aðskilin stóreykst notkun reiðhjóla og einkabílin fær smá hvíld á meðan.

Þessar síður eru ekki tæmandi úttekt á aðstæðum hjólreiðafólks heldur aðeins nokkrar ábendingar um atriði sem mætti færa til betri vegar.  Við vonum að þeim verði vel tekið og að þær megi nýtast til að gera Ísland hjólavænna í framhaldinu svo almenningur geti nýtt sér þennan holla, hagkvæma og umhverfisvæna valkost í samgöngumálum með öruggum hætti.

©ÍFHK Nóvember 1998. (og nóvember 1999)

Myndir og texti: Páll Guðjónsson

 

Íslenski fjallahjólaklúbburinn,
Brekkustíg 2,
101 Reykjavík. 

 

Netfang: ifhk@fjallahjolaklubburinn.is
Kt. 600691-1399
Banki: 515-26-600691