Hvað er Fjallahjólaklúbburinn? Er hann bara fyrir fólk með fjallahjól sem hjólar á fjöll? Nei, hreint ekki en samt líka, því hann er fyrir alla sem hjóla eða vilja „auka reiðhjólanotkun og vinna að bættri aðstöðu fyrir þá sem hjóla“ eins og segir í lögum félagsins auk þess að „ÍFHK stendur meðal annars fyrir útgáfu- og fræðslustarfsemi til að kynna stefnu sína og markmið.“

Klúbburinn hefur stutt hvata- og fræðsluverkefnið Hjólreiðar.is sem hvetur óreynda til að prófa að hjóla, bendir á hversu hollur og góður valkostur reiðhjólið er til samgangna og ekki síst að fræða um hvernig hægt er að hámarka öryggið með því að nýta sér tækni samgönguhjólreiða. Um þá tækni má lesa á hjólreiðar.is en einnig eigum við fræðslubæklinga sem má nálgast frítt í klúbbhúsinu okkar fyrir þá sem eru með kynningar á vinnustöðum, í tengslum við Hjólað í vinnuna eða aðra heilsueflingu.

Klúbburinn stendur fyrir vikulegum hjólaferðum þar sem stígakerfi höfuðborgarsvæðisins er kannað á léttu nótunum og gjarnan endað á kaffihúsi og spjallað enda snúast þessar ferðir um félagslega þáttinn en ekkert um keppnisþjálfun.

Margir hafa farið í sitt fyrsta hjólaferðalag með klúbbnum enda kjörið að prófa slíkt í góðum félagsskap og læra af reynslu annara. Sumar ferðirnar henta nýliðum sérlega vel og aðrar eru fyrir lengra komna.

Vinnan fyrir bættri aðstöðu færðist mikið til úr nefnd innan klúbbsins yfir í Landssamtök hjólreiðamanna þegar þau voru stofnuð og á klúbburinn sína fulltrúa þar. Það væri of langt mál að telja upp allt starf LHM en 16 blaðsíðna ársskýrslan er áhugaverð lesning sem má finna á lhm.is.

Síðan er ýmislegt brallað í Klúbbhúsinu okkar á Brekkustíg 2, skoðið dagskránna hér: Klúbbhúsið.

Eitt mottó okkar er Virkjum eigin orku.

Mynd: Páll Guðjónsson og Morten Lange að dreifa hjólabæklingum á menningarnótt.

Birtist í Hjólhestinum, mars 2018.

Íslenski fjallahjólaklúbburinn,
Brekkustíg 2,
101 Reykjavík. 

 

Netfang: ifhk@fjallahjolaklubburinn.is
Kt. 600691-1399
Banki: 515-26-600691