Ágæti lesandi, hér koma nokkur atriði sem hafa verið að pirra mig undanfarið.

Gatnamálastjóri þarf að láta fylgjast með vinnubrögðum verktaka sem taka að sér verk fyrir borgina, það er óþolandi hvernig þeir geta hagað sér. Þeir virðast halda að stígarnir séu bíla og vinnuvélastæði auk þess sem þeir álíta greinilega að stígarnir séu bestu geymslustaðirnir fyrir mold og það sem uppúr skurðunum kemur. Þegar þeir moka efninu loksins burtu þá verður alltaf eftir drulla og sandur sem þarf að sópa í burtu sem fyrst því fyrir utan það að gangandi og hjólandi fólk eys uppá sig drullunni þá myndar þetta líka slysahættu fyrir alla því að reiðhjóli er ekki gott að stjórna þegar maður rennur til í sandi eða drullu. Merkingar eru yfirleitt litlar eða engar þó að jafnvel stígur sé grafinn þvert í sundur eða djúpur skurður liggi meðfram honum og oft tekur það langan tíma eftir að búið er að fylla í skurðinn með möl að klára verkið og malbika ofan í og á meðan eru hvassar brúnirnar óvarðar og geta hægðlega sprengt dekk og skemmt gjarðir, núna er byrjað að skyggja snemma á kvöldin og því nauðsynlegt að framkvæmdir séu vel merktar. Þetta á líka við um borgarfyrirtæki einsog t.d. Orkuveituna. Nýlegt dæmi er stígurinn meðfram Suðurlandsbraut við Glæsibæ, þar tók það eina viku að malbika ofan í þrjá skurði.

Gullinbrú, þetta verk hefur tekið óhemju langan tíma og menn mega ekki halda að allt sé tilbúið þegar að akreinar fyrir bíla eru tilbúnar, enn er ófrágengið í kringum göngu og hjólabrúna bæði stígar að henni og líka brúin sjálf, ég vona allavega að menn ætli ekki að hafa slétta stálplötu í brúargólfinu sem endanlegt gólfefni því um leið og það myndast ísing þarna þá verður brúin stórhættuleg.

Stígurinn sem liggur frá göngu- og hjólabrúnni yfir Miklubraut og inn að Elliðaárdal, þetta er stuttur spotti en ein aðal leiðin milli hverfa í Reykjavík. Fyrir rúmu ári síðan var grafinn upp handónýtur stígur sem þarna lá og tyrft yfir hann, en það tók á þriðja mánuð að leggja nýjan, á meðan máttu gangandi og hjólandi reyna að bjarga sér yfir drullu og grjót. Í sumar var síðan farið í það að búa til þarna skógarlund með tilheyrandi vinnuvélum á stígnum og drullu. Og núna í september er búið að vera að grafa fyrir lögnum meðfram þessu stíg og allt efni sem upp hefur komið verið sett í jaðar stígsins og inn á hann (sumsstaðar aðeins um 5cm auðir) og á um 20 metra kafla hefur verið opinn skurður í vikutíma, hann er c.a. meters djúpur og alveg óvarinn. En 16 sept. keyrði um þverbak því að búið var að sturta heilu hlassi af mold á stíginn miðjan og tré til beggja hliða svo eina leiðin var að príla yfir hlassið þar sem það var lægst og svona var þetta í tvo daga í það minnsta. 20 sept. búið er að hreinsa moldarhlassið í burtu en enn er stígurinn allur í mold og sandi þrátt fyrir að það hafi verið lofað að láta sópa. Ég hringdi reyndar aftur í þann sem sér um hreinsun stíga í borginni og hann sagði mér að ekki yrði sópað fyrr en öllum framkvæmdum væri lokið þarna í kring.

Víða er verið að leggja stíga og er það vel þegið og ekki hægt annað en að þakka Reykjavíkurborg og Gatnamálastjóra fyrir það, en þetta eru svokallaðir útivistarstígar með ótal hlykkjum og blindbeygjum sem bjóða hættunni heim fyrir okkur hjólreiðafólk því að við viljum njóta þess að komast hratt yfir og þar sem okkur er einungis ætlað að vera á 1/4 af breidd stíganna þá getum við ekki mætt öðrum hjólreiðamanni nema með því að stoppa þegar umferð gangandi, skokkandi og línuskautandi fólks er sem mest. Þetta á t.d. við um Fossvogsstíginn, þar fjölgar sífell fólki sem notar hann til útivistar og á góðviðrisdögum er hann yfirfullur af fólki ekki síst nú þegar línuskautaæði hefur gripið landann.

Ég ætla ekki að ráðast á hundaeigendur en vil þó benda þeim á það að þegar þeir fara út að ganga með hundana sína á þessum útivistarstígum þá er það stórhættulegt þegar hundarnir fá það langan taum að þeir geta hlaupið þvert yfir hjólareinina, eða það sem verra er að þeir eru ekki hafðir í taumi, því hundar sem eru að þefa af einhverri þúfu í kantinum bregður mjög þegar að hjólreiðamaður nálgast skyndilega og stekkur þá hundurinn oft í átt til eiganda síns þvert yfir stíginn og í veg fyrir hjólreiðamanninn, ég hef lent í því að hjóla á lausan hund og fannst okkur það hvorugum mjög skemmtileg reynsla.

Okkur hjólreiðafólki vantar breiðar og beinar hjólagötur með ódýrum einföldum brúm yfir helstu umferðaræðar borgarinnar sem skila okkur fljótt og vel á milli staða í borginni.

Með kveðju, Jóhann Leósson.
September 1999

© ÍFHK