Samvinna hinna ýmsu ferðafélaga er alltaf af hinu góða, í hvaða mynd sem hún birtist. Þetta sannaðist þegar farin var fyrsta „alvöru"-ferðin hjá ÍFHK.
Hún var farin helgina 27.-29. september 1991 í samvinnu við FÍ, þeir voru með rútur & voru þar að auki að fara með göngufólk á sínum vegum inn í Landmannalaugar. Lagt var af stað að kvöldi föstudags kl. 20, ekið sem leið lá austur fyrir fjall og komið í Laugar um miðnætti, Hjólin voru tekin niður af toppnum, 13 að tölu (óhappatala kannski en happaferð engu að síður), farangur var settur inn og lagst til hvíldar því daginn eftir átti að hjóla inn í Eldgjá og fara upp að Ófærufossi.

Fjallahjóla- og gönguferð í Borgarfjörðinn og ofan í Víðgelmi 9.-10. nóvember 1991
Ég keypti mér fjallahjól í sumarlok til að fara á því í skólann. Þannig sá ég fram á að komast fljótar og betur ferða minna en með strætó. Hjólið átti að hafa hagnýtt gildi fyrir mig. Og það dugði. Ekkert var fjær þönkum mínum en að hjóla hlaðin pinklum í snjó víðs fjarri mannabyggðum.