Framkvæmdir eru byrjaðar á stígunum meðfram Miklubrautinni sunnanmegin og að venju eru þær illa merktar og ekki bent á hjáleiðir þar sem stígar eru lokaðir eða hafa reyndar verið fjarlægðir. Frekar en að fjalla um það í löngu máli bendi ég á fyrri dæmi á sama stíg sem hefur verið lokað heilu og hálfu árin undan farin ár. Þarf nú að fara yfir tvær innanhverfisgöngubrýr til að komast í stórum krók framhjá mislægu gatnamótunum við Réttarholtsveg. |
|
Heldur hefði ég viljað fá göng undir gatnamótin svo stígurinn sunnan Miklubrautar væri ekki lokaður og að peningurinn sem fór í brýrnar hefði farið í að byggja upp stofnbrautakerfi um borgina sem voru veitt fyrirheit um í Aðalskipulagi frá 1996. Þar stóð "Unnið er að því að bæta göngu- og hjólreiðaleiðir til þess að hjólreiðar og ganga geti orðið öruggur og raunhæfur ferðamáti á styttri leiðum." Hjólreiðamenn þurfa að fara að vera enn gagnrýnni á hvað er verið að gera í stofnbrautakerfi fyrir hjólreiðafólk. Mér finnst lítið hafa verið gert fyrir utan flágavæðingu gatnamóta. Göngubrýrnar tvær yfir Miklubrautina og brúin yfir Kringlumýrarbraut hjá Borgartúni eru bara innanhverfisbrýr fyrir fólk sem gengur í skólann eða Hagkaup en eru ekki partur af stofnbrautakerfi. |
|
Fyrsta brúin yfir Kringlumýrarbraut og sú sem er undir Gullinbrú eru partur af stofnbrautakerfi. Flestir nýjir stígar meðfram ströndinni eru útsýnis og útivistarstígar, ágætir í góðu verðri en ekki partur af stofnbrautakerfi þegar fer að hvessa og sjórinn gengur yfir þá. Í raun hefur kannski ekkert verið gert í því að útbúa stofnbrautakerfið sem er búið að vera á Aðalskipulagi í mörg ár.
|
Stígurinn meðfram Eiðsgranda sem verið er að leggja núna liggur síðan að stígnum við Austurströnd sem hefur skolað í burtu í særokinu þarna eins og sjá má á þessum myndum sem voru teknar í september 2000. |
|
- Details
- Páll Guðjónsson