Það þarf ekki endilega að kaupa nýtt hjól þegar áhuginn vaknar á að stíga á sveif því margir eiga reiðhjól sem hafa staðið inni í geymslu lengi óhreyfð og má vekja af dvala með nokkrum olíudropum því að rifja upp vorverk hjólreiðamannsins.  

Það dylst víst fæstum sem eiga hjól að umhirða þess er mikilvæg, hvort sem það er í fullri notkun eða liggur undir segli. Stærstur hluti landsmanna sem eiga reiðhjól notar það á sumrin, sem þýðir að á þessum tíma er verið að grafa fákinn upp og blása af honum rykið. Það er bara ekki nóg. Olía er eins og alkóhól, sé henni beitt á réttan hátt. Nokkrir dropar hér og þar annað slagið og fákurinn starfar sem aldrei fyrr. Fyrir meðaljóninn er nauðsynlegt að skipta um keðju minnst einu sinn á ári. Ný keðja þýðir minna slit á tannhjólum auk betri skiptingu og virkni. Keðja kostar svona frá 900 kr og upp úr og er mun ódýrari kostur en að láta langslitna keðju eyðileggja út frá sér.

Nýtið því vorið og gerið hjólin klár fyrir ferðirnar. Athuga þarf alla víra og barka vel, því selta, raki og ryk setjast að inn í börkum og draga úr allri virkni. Til að hreinsa t.d. gírbarkann þarf aðeins að setja keðjuna upp á stærsta tannhjól, setja svo í hæsta gír (minnsta tannhj.) án þess að snúa pedulum. Við það slaknar upp á vírnum og þú nærð barkanum upp af barkastoppinu. Þrífið og smyrjið. Sömu lögmál gilda um drifgírana að framan. Þessa athöfn má framkvæma eins oft og þurfa þykir. Einnig þarf að kanna ástand litlu tannhjólanna á aftari gírskiptinum. Ef þau eru orðin eydd og slitin, valda þau tregðu og allra handa ónákvæmni í skiptingu. Þessum tannhjólum þarf því að skipta út ef einhver áhöld eru um "ferskleika" þeirra. Sama má segja um bremsupúðana. Illa slitnir púðar eyðileggja gjarðirnar og ef þeir eru ekki rétt stilltir virka þeir hreint afleitlega og geta allt eins endað í miðju dekkinu sem ber að forðast í lengstu lög. Það hefur verið farið í stillingu bremsupúða áður í þessu blaði svo ég fer ekki nánar út í þá sálma hér en í fáum orðum má segja að bremsupúðar skulu vera stilltir þannig að þeir nemi við gjörðina fyrir miðju en vísi eilítið framávið þannig að þeir taki fyrst í að framanverðu.

Snúum okkur þá að stýrislegum sem stundum vilja losna. Hægt er að athuga hvort laust er á legunum með því að taka í frambremsuna og jugga hjólinu fram og aftur. Ef einhver sláttur finnst þarf að bæta úr því á stundinni. Við uppherslu eru nokkur ráð í gangi sem gott er að fara eftir:

vorverk.gif

1. Herðið neðri rónna að legusætinu.

2. Herðið efri rónna einnig niður.

3. Herðið þá neðri þeirri efri.

 

Nauðsynlegt er að herða rærnar saman því annars losnar fljótt upp á þeim aftur. Vandamálið þarna er að finna hinn gullna meðalveg. Ekki herða um of á legunum og látið heldur ekkert slag finnast. Stundum þarf því að endurtaka upphersluna nokkrum sinnum þar til viðunandi hersla er fundin. Þennan leik þarf að framkvæma á öllum legum hjólsins, þ.e.a.s. á nöfum að framan og aftan.

Annað sem einnig vill losna með tímanum eru sveifarnar, svínherðið þær upp á öxulinn á vorin. Yfirfarið einnig allar aðrar festingar, skrúfur og bolta. Það er einkar hvimleitt að vera á hjóli sem syngur og skrallar í og hreint ömurlegt þegar hlutir týnast af því hist og her. Þegar búið er að skipta um það sem þarf, smyrja og herða er ekkert annað eftir en að þrífa fákinn hátt og lágt. Hreint drif og bremsukerfi virkar mun betur ef stórir haugar af skít og drullu flækjast ekki fyrir.

Að lokum má svo minna á þau verkfæri sem ættu að fylgja hverju hjóli:

1 sexkantasett, 1 lítið stjörnuskrúfjárn, 2 fastir lyklar 8 og 10 mm (stundum þarf að nota 9 mm lykil en þá er líka best að skipta þeim boltum út til að einfalda verkfæralagerinn), 1 teinalykill, 1 keðjuþvinga, 2 keðjulásar, bótasett og pumpa. Einnig getur verið gott að hafa með sér í ferðalögin rafmagnsteip og plastströpp (kapalströpp) en það nýtist á marga vegu. "Svissneski vasahnífurinn" hefur marga aukahluti svo sem skrúfjárn og skæri og getur því komið í staðinn fyrir sum verkfæranna.)

Hugsið nú vel um græjurnar, brettið upp ermarnar og hefjist handa.

Jón Örn.

© ÍFHK. Hjólhesturinn 2. tlb. 5. árg.