Það eru orðin nokkuð mörg ár síðan LOOK framleiðandinn kom fyrst fram með smellupedala. Voru þeir sérstaklega hannaðir fyrir götuhjólakeppni. Skórnir sem við þessa pedala þurfti að nota voru ekki beinlínis merkilegir. Voru þeir meira og minna úr skræpóttu grjóthörðu vínilefni. Það var því ekki hægt að klæðast þeim við nein jakkaföt auk þess sem ákaflega óþægilegt var að ganga í flestum skóm þessarar gerðar. Það sem gerði þessa skó og pedala hins vegar ekki að almenningseign var að undir skóna þurfti að skrúfa skósmelluna, geysimikið plaststykki (Cleat). Var það svo stórt að ef maður steig af hjólinu gekk maður eins og mörgæs og í hverju fótmáli mátti heyra "klik-klak-klik-klak". Það var því ekki nein skemmtiganga fyrir 20 árum þegar dekk sprakk á keppnishjólinu og maður þurfti að ganga heim.

Eggbeater.JPG

Shimano varð auðvitað að apa þetta eftir LOOK og framleiða sams konar pedala svo hægt væri að taka þátt í samkeppninni á markaðnum því götuhjólakeppendur hættu svo til alveg að nota tábindingar og ólar. Það var ekki að ástæðulausu því með smellupedulum og góðum hjólreiðaskóm nýtist orkan allt að 30% betur en án bindinga, og hvern munar ekki um það?     

skosmella.JPG

Með tilkomu fjallahjólanna jukust hjólreiðar almennings aftur og þegar farið var að keppa í fjallahjólreiðum kom krafan um smellupedala og skó sem hægt væri að ganga í. Það gerðist síðan eftir 1990 að Shimano setti á markaðinn 737 SPD pedalann. Þetta var bylting sem gaf hinum daglega hjólreiðamanni tækifæri á að nota smellupedala. Í dag er hægt að fá alls kyns hjólaskó sem líta út eins og venjulegir skór með litlum innfelldum skósmellum svo það er hægt að ganga í þeim eins og maður.     

Gamla LOOK hönnunin hefur bæði sína kosti og galla því hún hefur gengið í gegnum sína þróun og er nær eingöngu notuð í götukappreiðum í dag. Fullt af öðrum fyrirtækjum hafa síðan reynt að einfalda hönnun SPD smellu pedalanna enda var það nokkuð ljóst strax í upphafi að pedalarnir frá LOOK og Shimano voru óþarflega efnismiklir. Komu því framleiðendur eins og Bebop, Speedplay, Time, Onza og Crank Brothers fram með einfaldari pedala. Nú fyrir skömmu kom Crank Brothers með endurbætta útgáfu af sínum fyrri pedala sem þeir kalla EggBeater og fengið hefur góðar viðtökur erlendis.
   Í öllum sínum einfaldleika er þessi pedali hreint út sagt frábær. Hægt er að komast í hann á fjórum hliðum bæði áfram og aftur á bak auk þess sem hann safnar ekki í sig skít eða snjó sem gerir hann óvirkan. Efnisval og önnur hönnun er svo gott sem óaðfinnanleg. Það er alveg merkilegt að fyrirtæki eins og Shimano sem veður í peningum og miklu þróunarstarfi hafi ekki dottið niður á þessa hönnun.

Crank Brothers framleiðir átta gerðir pedala sem allir ganga með sömu skósmellunum. Þar af eru fimm Eggbeater pedalar. Þó sá sem hér kemur við sögu sé einn sá ódýrasti þýðir það ekki að hann sé einn þeirra verstu. Allir Egg Beater pedalarnir hafa sömu hönnum en eru hins vegar með mismunandi efnisval. Pedalinn sem hér er prófaður heitir "S" og er annar ódýrasti og því ekki úr 6al/4v títaníum eins og dýrasti pedalinn. En efnisvalið er gott. Öxullinn er gerður úr steyptu 420 rústfríu stáli. Leguhúsið er gert úr 17-4ph rústfríu stáli og gormurinn úr 300 seríu rústfríu stáli. Allt þetta vegur aðeins 133 gr eða 266 gr parið sem er helmingi léttara en Shimano 737 SPD pedalinn vigtaði. Vefsíða Crank Brothers www.crankbrothers.com  er ákaflega góð. Þar er hægt að fá allar upplýsingar sem almennt ekki eru gefnar s.s. skýrar myndir, efnasamsetningu pedalanna og aukahluta, þyngd allra hluta og almennt búðarverð í dollurum.

Þegar pedalinn var settur á hjólið þá var skrúfgangurinn svo þröngur að lengi vel hélt ég að gengjur pedala og sveifa pössuðu ekki. En eftir nokkra þolinmæði þá gekk að setja pedalana á sinn stað án þess að eyðileggja sveifina.

Í fyrstu þá fannst mér erfitt að smella í pedalann. Gormarnir stífari en í þeim pedulum sem ég hafði vanist að nota auk þess að ég hitti ekki beint í læsinguna. En eftir nokkurra daga notkun þá liðkaðist pedalinn og ég átti alltaf auðveldara með að hitta í smelluna. Í dag gerist það leiftursnöggt sem er ákaflega þægilegt þegar t.d. farið er af stað við umferðarljós. Pedalinn hefur sex gráðu flot sem gefur hjólreiðamanni möguleika á því að hreyfa fæturna í pedalanum án þess að þvinga hnéð. En til að smella úr pedalanum þarf 15-20 gráður. Skósmellann passar undir staðlaða SPD skó, en smellan virkar ekki með öðrum skóm nema þá LOOK 4x4 pedalann sem er nákvæm eftirlíking af EggBeater pedalanum.

Það sem gerir þennan pedala sniðugan er að hann er byggður á hugmynd sem ólíklega mun breytast mikið í framtíðinni. Því er einnig ólíklegt að skósmellan muni breytast þó nýjar gerðir af þessum pedulum líti dagsins ljós. Stórfyrirtæki eins og Shimano virðist stöðugt þurfa að breyta stöðlum og stærðum. Þannig er að skósmellan fyrir nýjasta 757 pedala Shimano passar ekki í eldri gerðir pedala. Annað sem gerir Egg Beater frá Crank Brother svona ómótstæðilegan er að auðvelt er að smyrja legur og fóðringar. Pedulum fylgir nefnilega smurkoppur sem skrúfaður er á enda pedalans með því að losa állok með krónupeningi. Er koppafeiti sprautað með nálarsprautu í smurkoppinn, fyrir þá sem vilja ekki þykka feiti má auðveldlega nota gír- eða vélaolíu. Þó pedalinn sé bæði með vandaðar legur og fóðringar þá lengir regluleg smurning líftíma hans um mörg ár.

Ekkert er svo gott að ekki sé hægt að finna á því galla. Állokið á enda pedalans getur átt það til að losna og týnast. Gerðist það á meðan þessir pedalar voru í prófun. En söluaðilinn Örninn var umsvifalaust tilbúinn til að panta nýt lok og munu þau væntanlega verða fáanleg í versluninni. Það þarf því að muna að herða lokið vel eftir hverja smurningu.

Auðvelt er að fá alls kyns aukahluti svo sem legur, fóðringar og auka skósmellur og skósmellur undir götuhjólaskó.

Það er hægt að nýta orkuna 30% betur ef notaðir eru smellupedalar og góðir skór. Það er bæði öruggara og betra að vera með slíkan búnað. Má líkja þessu við nútíma skíðabindingar sem mikið hafa þróast til betri vegar á seinustu árum. Ef þú ert að spá í smellupedala og veist ekki hvaða gerð þú átt að fá þér, þá er hiklaust hægt að mæla með EggBeater. Þó hann kosti nærri 14 þús. kr án klúbbafsláttar þá er þetta fjárfesting sem endist lengi og hefur ýmsa kosti. EggBeater er einn léttasti pedalinn á markaðnum. Hann er betri kostur en Shimano þar sem Shimano virðist ekki staðlað sínar skósmellur. Það eitt hvað EggBeater pedalinn er opinn og einfaldur gerir hann að besta smellupedalanum sem völ er á fyrir íslenskar aðstæður.

Magnús Bergsson www.icebike.net
© ÍFHK 2003
Hjólhesturinn Nóv 2003