Eins og svo oft áður er vetur konungur í þann veginn að ganga aftur í garð. Í huga margra er veturinn sá tími sem leggja ber hjólinu. Sú skoðun er sprottin af fáfræði því í boði er ýmis búnaður á hjólið svo og fatnaður sem auðvelda “baráttu” við vetur konung. Ef þú lesandi góður hefur einhverntíma notað skíði, þá skal á það minnst að vetrarhjólreiðar eru ekki verri kostur til útiveru hvað þá til ferðalaga í dagsins önn.

Fyrst og fremst þarf hjólið að vera búið sterkum aurhlífum með góðum drullusokk að framan. Því þann sama dag og farið verður að salta breytast þær götur í forarvilpur.

drullusokkur á hjólið   

Ljósum má ekki gleyma og þegar talað er um ljós þá er ekki verið að tala um grænt blikkljós. Þessháttar ljós á aðeins að nota með öðrum ljósum eða þegar hvíta framljósið tekur upp á því að bila um stund. Notið þess í stað t.d. aðeins ljós sem klúbburinn hefur prófað og gefið góða eða bestu einkun (yfir 5 í einkunn).    

Ljós á hjólið

Á seinasta vetri setti Nokia nýtt dekkjamunstur á markað í stærðinni 26x1.9. Þessi dekkjastærð hentar mjög vel við aðstæður þar sem salti er ausið á götur. Mjó dekk skera sig betur í gegnum sóðalegt krapið niður á fast þar sem naglarnir taka við og halda hjólinu stöðugu. Auk þess ausa mjó dekk upp minni bleytu svo að vatnsgangurinn verður minni. Ef þú ert á Hybrid hjóli með götuhjóladekk, þá getur þú fengið dekk við þitt hæfi í Fálkanum. Annars fást nagladekk í öllum betri hjólreiðaverslunum.

 

grimur.jpg

 

Góður fatnaður er líklega einn mikilvægasti þáttur þess að gera vetrarhjólreiðar mögulegar. Klúbburinn hefur haft milligöngu um að útvega skirteinishöfum kanadíska fatnaðinn frá Mountain Equipment CoOp á mjög góðum verðum. Hann hentar mjög vel við íslenskar aðstæður og merkilegt að hann sé ekki á boðstólum í verslunum hér. Þar eru í boði GoreTex regnjakkar með stillanlegum öndunaropum.    

 

grimur2.jpg

 

Vetrinum mætt með bros á vör

Léttar lycrabuxur með GoreTex skel að framanverðu. Heilsársjakki úr Polartec 100 með Super Microft vind- og regnskel að framanverðu. Þar er líka hægt að finna fisléttan, skúrheldan vindjakka ofl. ofl. Þessi fatnaður hefur það fram yfir flestan fatnað að hægt er að velja hann í ýmsum litum og það sem best er, engin fatnaður hefur jafn mikið og gott endurskin, þó víða væri leitað.    


Fjallahjólabúðin GÁP hefur aukið fataúrval í verslun sinni. Ber þar mest á fatnaði frá Cannondale sem ekki er þekkt fyrir annað en topp gæði. Þar má nefna nýjungar á þeim bæ, sannkallaðar vetrarflíkur, jakka og buxur úr því sem kallað er Icetec sem er mjög þettofið fleecefni sem andar, heldur vatni og vindum. Þá má nefna regnjakka úr Ultrex í bæði neongulu og fagurbláum lit með stillanlegun loftopum og lausri hettu. Skúrheldir vindjakkar úr Versattech K22 eru á útsölu svo og annað nytsamlegt. Mikið úrval af peysum úr polartec 100 og vatnsheldir sokkar hanga þar á vegg. Mikið úrval lycra stutt og síðbuxna með eða án bóta sérhönnuð fyrir bæði kynin. Skór frá Cannondale eru til í ýmsum stærðum og gerðum. Það má svo ekki gleyma því, að þar má finna íslenskar eyrnahlífar á hjálmólar frá Saumastofu mæðginanna og stýrishanskana frá Karga. Eitthvað sem engin ætti að missa af á meðan það er fáanlegt.

Örninn er með fatnað frá Trek og Agu. Frá Agu er mikið úrval af nælon vindjökkum sem henta ekki allir til hjólreiða en þess í stað ágætlega utan yfir lopapeysuna þegar beðið er eftir stræto. Stór hluti þessa fatnaðar hefur verið á 30-50% afslætti svo að þar má því gera ágætis kaup t.d. flík úr pólíester með nælon vindhlíf að framanverðu. Frá Trek má nefna gráan skúrheldan vindjakka sem þeir kalla illuminite Jacket. Þó ekki séu neinar endurskinslínur á flíkinni þá endurkastar efnið í jakkanum ljósinu, hann virkar því sem gríðarstórt endurskin. Þá ber að nefna aðra jakka úr Poray 5000 sem á að anda og halda vatni. Hann er fáanlegur í svörtu, bláu, rauðu og gulu. Hann ber alla bestu kosti alvöru hjólaflíkur s.s. stillanlega öndun og lausa hettu. Mikið úrval er af allskyns fleece peysum og bolum og léttum buxum. Þar má svo finna skó- og legghlífar úr neopren og nælon.
Fyrst við erum stödd í Erninum þá ber að nefna Ortlieb töskurnar sem virka vel við íslenskar aðstæður. Þar er séð fyrir þörfum allra. Meira að segja nýfrjálshyggju guttarnir geta fengið sér vatnshelda skjalatösku með bögglaberafestingum.

Þá skulum við skreppa yfir í Fálkann. Þar eru ný andlit og svo virðist sem þar séu líka nýjar vörur en til stendur að stokka gersamlega upp í þessari verslun. Þú getur fengið íslenskar eyrnahlífar og hálskraga úr fleece frá Saumastofu mæðginanna og húfu með eyrnahlíf frá Etto sérstaklega hannaða fyrir hjólreiðafólk. Bigpack er fremur nýtt merki á íslenskum markaði en bíður upp á breiða línu alskyns fatnaðar og búnaðar til útivistar og útiveru. Þarna gæti verið á ferðinni vörumerki sem á eftir að ná fótfestu á íslenskum markaði því það sem undirritaður hefur prófað og séð lofar góðu. Bigpack framleiðir líka hjólreiðafatnað. Undirfötin frá þeim er eitthvað sem við hjólreiðafólk ættum að gefa gaum. Það er því eiginlega nauðsynlegt að líta við í Fálkanum ef fólk telur sig þurfa á nýjum græjum fyrir veturinn.

Skátabúðin er að vanda full af spennandi nýjum flíkum og er óþarfi að tíunda það. Þó ber sérstaklega að nefna breiða línu undirfatnaðar og nýjan heilsársjakka frá Karrimor sem er sá sami og allir þekkja sem bláa og svarta fleece jakkann. Nú er hægt að fá hann með rauðu fleece og dökkgráu endurskins efni að framanverðu (svipuðu og frá Trek) og fleiri litir eru á leiðinni. Karrimor framleiðir líka vindjakka úr þessu endurskinsefni. Fram til mánaðarmóta október-nóvember býður Skátabúðin skírteinishöfum 50% afslátt af eldri hjólafötum og af hinum frábæru Karrimor hjólatöskum. Nú er tækifærið að græja sig ódýrt fyrir næsta sumar.

Cortina Sport á Skólavörðustíg lumar á mjög vönduðum vörum frá LoweAlpine. Ber að nefna undirfatnaðinn sem er mjög góður og hefur reynst hjólreiðafólki mjög vel. Þessi verslun er ekki með slæm verð og ef þú á annað borð ert á flakki milli útilífsverslana þá skaltu ekki gleyma Cortina Sport.

Gleymið svo ekki félagsskírteininu því afsláttur er umtalsverður en breytilegur milli verslana.

Magnús Bergsson.

© Hjólhesturinn 3. tlb. 7. árg október 1998.