Þegar lagt er af stað í hjólreiðaerðalag yfir helgi eða í sumarfríinu þá þarf maður ekki endilega að vera bundinn við það að ferðast eingöngu á reiðhjólinu. Ekki frekar en að vera bundinn við ferðalög á einkabílnum. Það eru til ýmsir valmöguleikar. Þeir sem farið hafa í styttri hjólatúra, t.d. dagsferðir á hjóli, langar oft að reyna við lengri ferðalög. Það sem helst kemur í veg fyrir að byrjendur og óvanir drífi sig af stað í lengri ferðir er einkum tvennt, vegalengdir og veðurfar. Við veðurfarinu er lítið að gera nema að búa sig rétt og stundum er jafnvel hægt að treysta á veðurspána.

Vegalengdirnar er hægt að sigra á ýmsa vegu og þá ekki bara með dyggri hjálp reiðhjólsins. Þægilegasti, og jafnframt ódýrasti ferðamáti fyrir þá sem ætla í hjólreiðaferðalag, en treysta sér kannski ekki að hjóla langar vegalengdir, er að nýta sér áætlunarferðir sérleyfishafa. Fyrir byrjendur í ferðalögum á reiðhjóli er alveg tilvalið að gera fyrsta ferðalagið léttara með því að skella hjólinu og ferðabúnaðinum upp í rútu. Það eru ekki allir í þjálfun til að hjóla lengri vegalengdir með allan ferðabúnað á hjólinu.

Og best er að byrja rólega, æfingin skapar jú meistarann. Ekki er gott að ofgera sér í fyrstu ferðinni, það verður bara til þess að binda snöggan endi á reiðhjólanotkun viðkomandi. Fátt er verra en að mæta til vinnu eftir helgarhjólatúr og geta ekki staðið fyrir strengjum í fótum eða setið vegna eymsla í afturendanum.

Sem dæmi um rútu-reiðhjólaferðalag, má nefna að byrjandi í hjólreiðaferðalögum sem á heima í Reykjavík en vildi skreppa í hjólatúr yfir helgi á Þingvelli eða í Bláa Lónið. Þá væri hægt að fara hjólandi í upphafi ferðar en taka svo rútu aftur heimleiðis. Þannig verður hjólatúrinn léttari og skemmtilegri, því meiri tími gefst til að skoða það sem á vegi verður og jafnvel að hjóla krókaleiðir og gamla slóða. Enn einn kosturinn fyrir byrjendur sem nýta sér þjónustu sérleyfishafa er sá, að láta rútuna flytja megnið af viðlegubúnaðinum til og frá dvalarstað. Hægt er að láta rútuna flytja allt hafurtaskið á áfangastað, koma sér fyrir á tjaldstæði og hjóla svo styttri ferðir um nágrennið. Svo þegar unaður reiðhjólaferðalagsáráttunnar hefur heltekið viðkomandi, þá er hægt að fjárfesta í betri og fullkomnari búnaði.

Svona samspil rútu og reiðhjóls er reyndar ekki eingöngu bundið við byrjendur í ferðalögum á reiðhjóli. Reyndari og víðförlari reiðhjólaferðalangar nýta sér gjarnan þennan möguleika. Það er nefnilega þannig að við sem höfum hjólað mikið og víða, reynum oft að spara okkur tíma með því að fara með rútu um þær slóðir sem við höfum hjólað um áður. Þó að íslensk náttúra sé fögur og síbreytileg þá er íslenska sumarið stutt og frídagar fáir og sjálfsagt að nýta tímann sem best. Þess vegna er kjörið að fara með reiðhjólið í rútu þær leiðir sem við hefðum ella hjólað tuttugu sinnum sama sumarið og hjóla tuttugu nýjar leiðir í staðinn.

Þetta gera til dæmis reyndari reiðhjólamenn á Akureyri þegar þeir vilja skreppa í ferðalag um Mývatns- og Laxársvæðið, Ásbyrgi og Jökulsárgljúfur. Þá hentar vel að taka rútu frá Akureyri til Mývatnssveitar og svo aftur frá Mývatnssveit til Akureyrar að loknu ferðalagi. Þannig sparast allt að 4 dagar. Sunnlenskir reiðhjólaferðagarpar taka gjarnan Norðurleiðarútuna upp í Hrauneyjar- fossvirkjun þegar hjóla á yfir Sprengisand eða norður yfir hálendið um Gæsavatnaleið til Öskju og Herðubreiðarlinda. Norðurleið er nefnilega með áætlunarferðir um Sprengisandsleið frá því að vegir opnast og fram í miðjan ágúst.

Þeir sem vilja skreppa í hjólreiðaferð í öðrum landshlutum geta einnig nýtt sér þjónustu flugfélagana. Þegar ferðast er með reiðhjól í rútu eða með flugi, getur verið gott að kunna að ganga þannig frá hjólinu að það taki sem minnst pláss og verði fyrir sem minnstu hnjaski. Að snúa stýrinu þannig að það sé samhliða stelli reiðhjólsins, geta smellt framdekkinu af og fest það í miðju stellsins, jafnvel að geta losað fótstigsveifar af. Þetta krefst ekki mikillar kunnáttu eða verkfæra. Sýnikennsla einu sinni og verkfæri sem kosta rúmar tvö þúsund krónur ættu að duga. Það er þó aðallega þegar farið er með reiðhjól flugleiðis að gerðar eru kröfur um slíkan frágang. Sé farið með rútu er hjólið bara sett inn í farangursgeymslu rútunnar eða hengt á hjólagrindur utan á henni.

Ekki ættu gistimöguleikar heldur að fæla fólk frá því að skella sér í ferðalag á reiðhjóli. Þéttriðið net gististaða er um allt land, hótel og gistiheimili af ýmsum gerðum og verðflokkum.  Bændagisting og gamla góða tjaldið er líka alltaf vinsælt. Vegalengdir á milli gististaða eru víðast ekki meiri en svo að það sé dagleið á reiðhjóli á milli þar sem lengst er. Það er því fátt sem ætti að hindra fólk í að reyna við ferðalög á reiðhjóli hérlendis í sumar. Vonandi munu sérleyfishafar og almenningsvagnar aðstoða reiðhjólafólk á höfuðborgarsvæðinu við að komast á sem fljótastan hátt á vit náttúrunnar í sumarferðum sínum, líkt og Akraborgin gerði fyrir tíma Hvalfjarðarganga.

Heimir H. Karlsson.