Það var hægur andvari að norðan með þurrviðri og ekki snjókorn á jörðu, þegar ég geystist seint um kvöld eftir stígnum í Fossvogsdalnum. Ég var í góðu skapi. Bílarnir voru víðs fjarri minni leið og í gegnum ljósmengun höfuðborgarinnar hafði ég orðið vitni að stjörnuhrapi úr Elliðaárdalnum.

Skyndilega kvað við mikil hundgá og hróp einhvers manns í myrkrinu. Ég snarhemlaði og losaði bandspotta úr frambremsunni. Í sömu andrá kom til mín svartklædd vera sem sótbölvaði mér í sífellu og spurði “hvort ég ætlaði að drepa hundinn?” Ég stundi við. Þessi svartklædda manneskja og þetta hundspott höfðu í einni svipan komið mér í virkilega fúlt skap. Um leið og ég settist á hjólið minnti ég manninn á að þessi metersmjóa ræma á stígnum tilheyrði hjólreiðafólki. Hann ætti að gæta að því hvar hundurinn ráfaði og ljósið á hjólinu hefði ekki verið þess megnugt að flóðlýsa svartan felubúning þeirra.

Ég rauk af stað. Allt fór nú í taugarnar á mér. Alveg með eindæmum að nískast með lýsinguna á þessum stíg. Það eru u.þ.b. 70 metrar á milli ljósastaura svo að sjáöldrin gerðu ekkert annað en að stækka og minnka, stækka og minnka. Þessi lýsing var að gera mig óðan og hvað með þennan eina metra sem við áttum að skænast á. Stundum vinstra megin, stundum hægra megin! “Andsk. hálfvitar hjá borginni”, öskraði ég. Úps, ég hafði víst orðið mér til skammar. Tvær eldri manneskjur skýldu sér bakvið næsta ljósastaur og góndu einkennilega á þennan öskrandi dýróða hjólreiðamann. Ég notaði því hraðann og myrkrið til að láta mig hverfa úr hugarfylgsnum þeirra sem allra fyrst.
En hvað var nú, ljós framundan? Átti ég eftir að mæta bíl á þessum stíg, og það eineygðum? Átti ég nú eftir að kljást við aðra manneskju og hans vélvæddu morðdós, og það á þessum stað? Ég hægði á mér ……en þetta var skrítið bílljós. Það var einkennilega bláleitt. VÁ, er ég að verða vitni að vígahnetti? Ljósið var enn í töluverðri fjarlægð en samt var allt að lýsast upp umhverfis mig. Ljósið mjakaðist nær og ég vék til hliðar við sýnilega stefnu. Það hljóta aðrir að sjá þetta……var þetta í tengslum við stjörnuhrapið áðan?…… Nei fjárinn…..getur það verið? “Gott kvöld” sagði ljósið um leið og það silaðist framhjá mér og myrkrið þyrmdi yfir mig að nýju.
Ég held að það sé komið að því að athuga hvaða reiðhjólaljós verslanir hafi upp á að bjóða þetta misserið.

Ljósin prófuð
Athugið að hér verða bara tekin fyrir þau ljós sem eru ný á markaðinum og vísum á fyrri greinar um ljós sem birtar hafa verið hér og eru aðgengilegar öllum á heimasíðu klúbbsins ásamt flestum öðrum greinum tæknilegs eðlis sem birst hafa í Hjólhestinum. Þar á meðal teikning af einfaldri rás til að láta framljós blikka og draga þannig frekar að sér athygli ökumanna.

Cat Eye Stadium Light. HL-NC300
Hér er komið öflugasta reiðhjólaljósið á markaðnum með 21 watta Metal Halide peru sem gefur u.þ.b. þrisvar sinnum meira ljósmagn en sambærileg halogen pera. Slíkar perur er helst að finna í ljóskösturum yfir íþróttaleikvöngum og fólk ætti að kannast við úr Laugardalnum þar sem þau skapa mikla og sérkennilega birtu.
Hér er komin dvergútgáfan. Þetta ljós, sem kemur í flottri fóðraðri plasttösku, hefur ekki hefðbundinn rafbúnað. 12 volta rafhlaðan samanstendur af 10 stk. 2.2 Ah. NiCad sellum. Við rafhlöðuhólkinn er fest háspennukefli sem gefur 15.000 volt til að kveikja á gasinu í perunni og tekur u.þ.b. 30 sek að fá fullt ljós á peruna.

Stadium2.jpg

 

Á hólknum sem geymir háspennukeflið er höfuðrofi og 3 stöðuljós. Grænt ljós segir að það sé meira en 1/3 eftir af hleðslu, gult ljós segir að það sé minna en 1/3 eftir af hleðslu og rautt ljós sem segir að hleðslan sé búin, slökkva eigi á ljósinu og setja rafhlöðu í hleðslu þar sem þá fari ljósið að detta út á hverri stundu.
Hleðslan dugar í allt að 90 mínútur. Það er fremur stuttur tími en það er í flestum tilfellum nóg til að komast úr og í vinnu.
Það tekur 8 tíma að hlaða rafhlöðurnar með 12 volta, 0,9 ampera hleðslutæki. Framleiðandi tekur það fram að hleðslan megi ekki taka meira en 24 tíma sem bendir til þess að hleðslubúnaðurinn sé ekki sérlega fullkominn. Ending rafhlöðu miðast við 50% rýmdartap eftir að hafa fengið hleðslu í 500 skipti.
Peran er 21 watt sem svipar til 55 watta bílljósa og er því á þeim styrkleika að geta ekki blindað umferð. Líklega er þar átt við að það blindi ekki aðvífandi bílstjóra. Ljósið er einstaklega sterkt miðað við að það er fremur bláleitt því gula litrófið sýnist alltaf bjartara fyrir mannsaugað. Á móti kemur að þessi bláleita birta sker sig út frá hefðbundnum næturljósum.
Kastarinn er vel hannaður, lítill, vatnsþéttur og úr áli því hitinn frá peruni er svo mikill að flest plastefni mundu bráðna og fólk er varað við því að brenna sig ekki á kastaranum. Spegillinn er einstaklega góður, satt best að segja, að okkar áliti, sá besti sem sést hefur á íslenskum markaði. Ljósflæði er mjög jafnt og krafturinn er slíkur að ekkert fer fram hjá notandanum, þó svo að í órafjarlægð sé. Engar línur til hliðanna og ekkert ljós skín beint frá ljóslinsu í augu hjólreiðamanns. Ekki er hægt að tala um að ljósið gefi frá sér hliðargeisla, til öryggis í umferðinni, en endurkastið frá umhverfinu er slíkt að þess gerist tæplega þörf. Þetta er eina ljósið sem á auðvelt með að lýsa svo sterkt að hjólreiðamaður verður ekki blindaður af ljósum bíla sem koma á móti. Bílstjóri gæti haldið að þar væri á ferð bíll og því meiri líkur að hann lækki bílljósin heldur en ef hann vissi að um reiðhjól væri að ræða.
Kastarinn er festur á stýrið á staðlað hraðtengi frá Cat Eye, H-27. Á því getur kastarinn snúist um 20 gráður og ekki þarf heldur nein verkfæri til að losa festinguna af stýrinu.
Kapallinn frá kastaranum er frekar óþjáll og leiðinlegur en framleiðandi segir að það sé vegna þess að hann sé gerður fyrir háspennu!!
Mjög fljótlegt er að taka ljósið af hjólinu. Rafhlöðuhólkurinn með háspennukeflinu passar í brúsastatíf. Hægt er að opna rafhlöðuhólkinn og aftengja háspennukeflið. Það gerir allt viðhald ódýrara því Cat Eye býður upp á mjög góða varahlutaþjónustu. Seljandi Cat Eye HL-NC300 ljóssins er Örninn.
En þá komum við að verðinu sem eru litlar 37.176 kr. stgr. eða 39.133 kr. á afborgunum. Vera kann að einhverjum þykir það dýrt. Þetta ljós er álíka dýrt og eitt montdekk undir upphækkaðann jeppa eða ljósasamloku í suma bíla. Ljósið er einstakt öryggistæki fyrir hjólreiðamanninn.

Einkunnagjöf af 10 mögulegum:
Til notkunar í umferð: 10
Til notkunar í ferðalög: 2

Sigma Sport. Ellipsoid
Ég var staddur í Fálkanum síðastliðin vetur þegar að mér var rétt lítið á framljós á 1.390kr. “Úff, ein af þessum ljóstýrum” hugsaði ég, en ákvað að gefa mér smá tíma til að skoða það. Framleiðandinn var Sigma Sport, sem er þekktast fyrir vandaða hraðamæla á reiðhjól, og því gæti verið spennandi að athuga hvað hér væri á ferðinni.

elipsf.jpg

 

Fyrst vakti athygli að straumrofinn var elektrónískur, stýrður af snertirofa, og því ekki þessi hefðbundni mekaníski rofi sem svo ansi oft gefur lélegt samband. Ljósstyrkurinn var ótrúlega mikill og undir ljósinu var innstunga með gúmmíloki fyrir 9 volt. Nú fór þetta að verða spennandi. Ég opnaði því ljósið og fyrir augum bar grind sem hélt 5 rafhlöðum af stærðinni AA. Við enda grindarinnar var prentplata með meiri elektrónik en maður er vanur að sjá í hjólreiðaljósum. Þar var rás sem tengdist snertirofanum og lítilli ljósadíóðu, sem gefur til kynna þegar hleðslan á rafhlöðunum er orðin léleg. Auk þess mátti sjá þar einfalda rás sem átti að fella hleðsluspennuna úr 9 voltum í 6 volt og takmarka strauminn. Peran var Halogen (HS3) 6 volt, 0,4 amper eða 2,4 wött, sparneytin en hæfilega björt til að lýsa fram veginn. Þetta er algengasta halogenperan í stöðluðum 6 volta ljósum fyrir reiðhjól. En sýningarljósið var með 5 alkaline rafhlöðum og því var peran yfirspennt á 7,5 voltum. Þar kom ástæðan fyrir því hvers vegna ljósið var svona bjart. Með 5 NiCad rafhlöðum væri spenna lægri og peran ekki yfirspennt
Ég leiddi hugann að því að ljósið gæti orðið hættulegt ef einhver myndi slysast til að tengja 9 volta spennubreyti við ljósið ef það innihéldi einnota Alkaline rafhlöður. Það ber þó ekki að skilja svo að ljósið sjálft sé hættulegt, heldur skal minnt á að þetta ljós er hannað fyrir NiCad rafhlöður. Allir ættu að minnast þess að ekki má stinga einnota rafhlöðum í hleðslutæki fyrir NiCad hleðslurafhlöður. Fálkinn býður upp á hleðslutæki og rafhlöður, frá Sigma Sport sérstaklega hannað fyrir þetta ljós. Hleðslutækið er 300mA, 9 volt og kostar aðeins 790 kr. Rafhlöðurnar eru 5 í pakka, 800 mAh og kosta einnig aðeins 1.150 kr .
Ljósið stenst þýskan gæðastaðal K28. Á upplýsingum sem fylgja ljósinu, er sagt að ljósspegillinn sé hannaður með nýjustu tækni úr bílaiðnaðinum en sú vitneskja heillar mig þó ekki neitt. Staðreyndin er sú að þarna er líklega að finna veikasta punktinn á þessu ljósi. Vera kann, að þessi spegilhönnun henti ágætlega í 150 watta kastara á vörubíl og þá með öðrum ljósum. Og reyndar minnir þetta ljós svolítið á svartan Mercedes Benz. Það á hinsvegar ekkert heima í litlu ljósi á illa lýstum göngustígum í borg eins og Reykjavík. Spegillinn og linsan brjóta upp ljósið í ótal línur svo það getur verið fremur pirrandi þegar hjólað í kolniðamyrkri. Fyrir þá sem hjóla mikið í bílaumferð vantar einnig betri hliðargeisla. Aftur á móti er ljósið með nokkuð góðan brennipunkt og ekkert ljósbrot berst beint frá linsu í auga hjólreiðamanns, því má segja að kostirnir upphefji ókostina.
Ljósfestingin, sem ætluð er fyrir stýri, er bráðskemmtileg. Hún er föst við ljósið og með einu handtaki er hægt að smella því á stýrið og af. Það er því engin festing eftir á hjólinu þegar ljósið er tekið af og ekki þarf að kaupa aukafestingu ef fleiri en eitt hjól eru til á heimilinu. Ljósinu er hægt að snúa til á festingunni í u.þ.b. 20 gráður í hvora átt.
Ljósið kostar aðeins 1390kr., rafhlöðurnar 1.150kr. og hleðslutækið 790kr. Samanlagður kostnaður er því 3.330kr. Þegar svo klúbbafsláttur verður dreginn frá þessari upphæð er tafarlaust hægt að mæla með þessu ljósi. Það er því engin afsökun að vera ljóslaus í vetur

Einkunn:
Til notkunar í umferð: 6
Til notkunar í ferðalög: 4

Cat Eye Hyper. HL-1500
Cat Eye er þekkt fyrir gæði og fjölbreytta framleiðslu á hraðamælum, glitaugum og ljósum. Meðal ljósa sem þeir framleiða er Hyper HL 1500 ljósið. Þetta er lítið ljós en “öflugt” með háum og lágum geisla.

HL1500.jpg

Gert er ráð fyrir fjórum AA rafhlöðum. Peran er 4,8 volt, 0,5 amper og 2,4 wött og því mjög algeng. Ljósið er staumlínulagað og vel hannað. T.d. er n.k. klemma fyrir varaperu inni í ljósinu. Ekkert ljós berst beint frá ljósi í augu hjólreiðamanns og á hliðum þess eru “linsuaugu” fyrir hliðarlýsingu. Spegillinn er nokkuð góður og því auðvelt að nota ljósið til að lýsa fram veginn í niðamyrkri. Ljósfestingin (H-24) er skrúfuð á stýrið. Festingin býður upp á að hægt sé að stilla ljósið um 10 gráður til beggja hliða
4,8 volta peran gerir ráð fyrir því að notaðar séu NiCad rafhlöður (nema þá að viljandi eigi að yfirspenna peruna með 6 voltum). Það virðist vera nokkuð algengt hjá flestum framleiðendum að hafa peruna svona lágspennta. Á því kann að vera skýring. Svona lítil ljós með svona litlum rafhlöðum gefa sjaldnast frá sér verulega skært ljós. Því er leitað allra leiða til að kreista úr ljósinu allt það sem “tæknin” leyfir. Rafhlöður eins og AA fella töluvert spennuna þegar þær þufa að draga 0,5 amper. Það er líka vitað að ef 4,8 volta pera fær 6 volta spennu þá verður ljósið mun skærara og því mun auðveldara í sölu.
Eins og fyrr segir er HL-1500 ljósið búið háum og lágum geisla. Þegar ljósið er stillt á háa geislann fær peran fulla spennu frá rafhlöðunum. Á lága geislanum er raunspennan felld niður um tæplega 2 volt með púlsregulator á 85 riðum (Hz). Óneitanlega vekur þetta upp spurningu. Hvað hefur maður að gera við lágan geisla á reiðhjólaljósum sem sjaldnast eru nógu björt? Svarið gæti verið “sölubrella”, en þar með er ekki öll sagan sögð. Púlsregulatorinn klippir á heildarspennuna svo að raunspennan við peru lækkar um tæplega 2 volt. Þetta er mjög snjallt því með þessari tækni má spara peruna og ekki síst rafhlöðurnar þar sem sáralítið orkutap verður með þessari hönnun. Þetta gefur möguleika á því að föndra við ljósrofann við ýmis tækifæri ef notaðar eru Alkaline rafhlöður. T d. nota lága geislann á meðan rafhlöðuspennan er há og þegar ljósið dofnar þá stilla yfir á háa geislann. Fyrir 1.986,- kr. er þetta ljós ekki svo galið. Gallarnir eru minniháttar og bæta má það upp með því að nota Pure Energy Alkaline hleðslurafhlöður (ef þær standast álagið). Þá verður HL-1500 eitt af bestu ljósunum í þessum verðflokki. Seljandi er Örninn.

Einkunn:
Til notkunar í umferð: 6
Til notkunar í ferðalög: 4

Safety headlight frá KnightLite
Þetta er fremur einfalt ljós en hefur sína góðu punkta. Fyrst ber að nefna að ekkert ljós skín beint frá ljósi í augu hjólreiðamanns. Á hlið eru lítil augu sem gefa hliðargeisla. Á ljósinu er góður ljósrofi og rétt fyrir neðan hann er lítill punktur sem halda mætti að væri steypugalli í plastinu en er í raun lítið ljós sem fer að loga þegar rafhlöðuspennan er orðin of lág. Ljósið tekur 4 stk. AA rafhlöður og með í kaupunum fylgja 4 stk. venjulegar einnota rafhlöður. Peran er eitthvað sem framleiðandi kallar “Xenon”. Það heiti er notað yfir flassljós. En þetta er ekkert flassljós. Peran er 4,7 volt, 0,4 amper og því aðeins 1,9 wött. Það er allt of lítið, jafnvel þó peran sé “Xenon”-eitthvað! Maður kemst í vont skap þegar framleiðendur reyna að spila með fávisku viðskiptavina með þessum hætti. Það vantaði ekkert annað en að þeir reyndu að ljúga því að í ljósinu væri halogenpera, því það er mynd af einni slíkri utan á umbúðunum. Þetta ljós er svo sem ekki neitt einsdæmi, því að svona ljós eru seld nær því í öllum hjólreiðaverslunum. Birtan frá þessu ljósi er vart meiri en lági geislinn á Cat Eye HL-1500 ljósinu. En ljósspegillin er ekki slæmur. Var því prófað að setja 6 volta, 2,4 watta halogenperu (HS 3) auk Pure Energy hleðslurafhlaða og viti menn, hér var komið hið skemmtilegasta ljós.
Seljandi er GÁP og verðið er 1.343 kr. Ekki sem verst eftir að búið var að skipta um peru sem kostar um 500 kr. Hvort sem það er gert eða ekki, þá eru betri kaup í þessu ljósi en í grænu blikkljósi.

Einkunn: óbreytt - (með 2.4w peru)
Til notkunar í umferð: 3 - (4)
Til notkunar í ferðalög: 3 - (4 )

Knight Strobe frá KnightLite
Blátt flassljós! Hér er eitthvað nýtt. Lítið og nett alvöru Xenon flassljós. Birtan er ekki sérlega mikil, en það sem gerir þessi ljós góð er blikkið. Þetta ljós er jafn öflugt og Vistalite 3000 Xenon ljósið en hefur minni rafhlöður eða aðeins tvær AAA. Því má bjarga með því að fá sér PureEnergy Alkaline hleðslurafhlöður. Þessi ljós eyða nefnilega töluverðu rafmagni miðað við díóðu blikkljós og ef flassið fær ekki fulla spennu hægir það á blikkinu. Xenon ljósin virka eins og myndavélaflöss, nema hvað þau gefa frá sér minna ljós til að spara rafhlöðurnar. Þéttir hleðst upp sem gefur inn á háspennukefli, sem tengt er perunni. Þá skýtur neista, eins og eldingu, á milli póla og “blíng”, það verður ljós. Þessi ljós eru ekki nógu öflug til að lýsa fram á veginn en henta mjög vel í umferðinni því blikkið dregur að sér athygli ökumanna. Á bæði ljósin þarf að líma skyggni því flassið stingur svolítið í augun í myrkri. Verðið er 2.165 kr. og seljandi er GÁP.

Einkunn:
Til notkunar í umferð: 7
Til notkunar í ferðalög: 1

Díóðuljós frá KnightLite
Fyrst ber að nefna afturljós sem ekki blikkar. Það er hannað til að mæta breskum staðli, BS 6102/3 en reglugerðadraugar í Bretlandi hafa átt eitthvað erfitt með að samþykkja blikkljósin. Blikkljós hafa alla tíð veitt hjólreiðafólki besta öryggið (nema þá kannski í Las Vegas þar sem það mundi hverfa í hitt ljósablikkið). Þetta ljós er reyndar ekki slæmt. Lítið og létt og með undraverðum hætti tekst að framkalla heilmikið ljós með því að nýta og brjóta upp allt ljósið sem kemur frá aðeins einni ljósdíóðu. Á toppi ljóssins er lítið auga fyrir ljós sem gefur til kynna þegar spennan er orðin of lág á rafhlöðunni. Rauð linsa er með glitauga og verðið er 980 kr. Seljandi GÁP

Einkunn:
Til notkunar í umferð: 4
Til notkunar í ferðalög: 1

stadium.jpg

hl500.jpg

diode.jpg

Lýst með Stadium light

Lýst með ljósi með 2.4w peru

Lýst með grænu díóðuljósi


KnightLite díóðublikk
Þá er komið að seinustu ljósunum í þessari prófun. Það er pakki sem hefur að geyma framljós með grænu blikki og rautt afturljós. Afskaplega typical ljós með 5 ljósadíóðum í hvoru ljósi auk þess að hafa glitauga á linsunni og þrjár ljósastillingar. En þá kemur það óvenjulega. Bak við ljósadíóðurnar er spegill. Það er reyndar afskaplega lítið ljós sem berst aftur fyrir ljósdíóðurnar en þessi hugdetta er þó löngu tímabær því ljósið er örlítið bjartara en sambærilegt ljós frá öðrum framleiðanda. Þá kemur það furðulega. Ljósið hefur háan og lágan geisla! Hvernig í ósköpunum datt KnightLite í hug að bjóða upp á lágan geisla í svona ljósum? Á því er engin þörf nema þá hugsanlega til að spara rafhlöðurnar og fá bílstjóra til að bölva sér. Þetta er enn fáránlegra þegar litið er á græna blikkljósið sem margir nota sem framljós. Græn blikkljós nýtast alls ekki sem aðalljós að framan vegna þess hve dauf og stefnuvirk þau eru. Ljóstýran er svo dauf að hún týnist í borgaljósunum og sést ekki frá hlið en gagnast kannski sem neyðarlýsing ef batteríin tæmast eða peran springur í framljósinu. Það er helst að gangandi vegfarendur sjái það koma á móti sér á dimmum göngustíg en úti á götu er hjólreiðamaður sem aðeins notar grænt blikkljós að framan samasem ljóslaus og því hættulegur sjálfum sér og öðrum í umferðinni. Díóðuljósin eru knúin af 2 stk. AAA rafhlöðum sem fylgja með í kaupbæti. Verðið fyrir bæði ljósin er 2.444 kr. Seljandi er GÁP.

Einkunn: rauða / græna (Ef ekki er notaður lági geislinn)
Til notkunar í umferð: 8 / 2
Til notkunar í ferðalög: 8 / 2

Safety Light Strip frá KnightLite
Hér er á ferðinni endurskinsmerki með ljósum. Gulur þunnur fisléttur borði með 4 litlum rauðum blikkandi ljósdíóðum. Með endurskinsborðanum fylgja 2 umgangar af festingum sem eru límborðar með frönskum rennilásum. Samkvæmt bæklingi á að vera hægt að festa borðann á fótleggi, handleggi, fatnað, töskur, hnakk og hjálm. Það verður þó að segjast, að þó límið sé gott á fasta hluti, þá er það ekki sérstaklega gott á fatnað sem flaksast til og frá eða sveitta og fituga húð. Ljósrofinn, sem er þrýstirofi, er fyrir miðjum borða. Rafhlaðan er lítil hnapparafhlaða af gerðinni CR2032 og á að endast í 50 klst. Verðið er 735 kr. Það er því engin spurning þó þú sért bæði með ljós framan og að aftan, þá er gott að bæta þessu við t.d. aftan á hjálminn eða töskuna. Þessi ágæti fylgihlutur kemur þó alls ekki í stað ljósa á hjólinu en samkvæmt reglum um ljósabúnað reiðhjóla eiga ljósin að vera föst á reiðhjólinu. Seljandi er GÁP.

Magnús Bergsson.

©Hjólhesturinn 3. tlb. 7. árg október 1998.