Það að verða foreldri breytir miklu varðandi hjólreiðar en þær verða langt frá því ómögulegar. Fljótlega eftir að það varð ljóst að ég yrði foreldri fór ég að spá í það hvernig maður hjólar með barn. Og áður en ég vissi af var ég búinn að græja mig upp, meira að segja nokkru fyrir komu eldri dóttur minnar. Upplýsingar og leiðbeinandi efni um hjólavagna og barnastóla var hvergi að fá. Í Forvarnarhúsi sem þá var nýtilkomið voru einu svörin að ekki væri ráðlegt að hjóla með barn í hjólavagni né barnastól fyrr en barnið væri um tveggja ára gamalt, með þeim rökum að ekki eru til hjálmar fyrir yngri börn.

Vitandi að margir framleiðendur hjólavagna selja allskyns búnað fyrir allt að nýfædd ungabörn, ákvað ég sjálfur að skoða hvað væri  til og mynda mér sjálfur skoðun á því. En hvort hentar mér að vera með stól eða vagn? Til að svara þessu ákvað ég að prófa bæði. En þar fyrir utan eru til ótal aðrar útfærslur á því hvernig maður hjólar með börn en látum það vera í bili.

Dæturnar fæddust báðar í nóvember og ég var ekkert að flýta mér af stað að prófa vagninn. Þær voru því orðnar átta mánaða gamlar þegar þær fengu fyrstu ferðina í vagninum. Ég hafði ekki keypt innlegg í vagninn en notaði þess í stað púða, trefla og teppi til að skorða þær af, og svo hjólaði ég auðvitað lúshægt og mjög varlega. Stóllinn var ekki prófaður fyrr en löngu seinna enda verða börnin að geta haldið vel höfði og að sjálfsögðu  vera með hjálm þar sem þau eru jafn óvarin og sá sem hjólar með þau.

Hvað er eiginlega fengið með dýrari hjólavögnum ef verðmunurinn getur verið margfaldur? Það fyrsta sem ég skoðaði var úrvalið á hjólavögnum og muninn á milli þeirra. Verðbilið var frá um 35 þúsund upp í 200 þúsund sem er svakalegt. Eiginleikar hvers vagns segir mikið til um verð, og gæði gera það svo sannarlega líka. Hvort hjólavagninn sé á fjöðrum eða ekki, með stillanlegu baki, fyrir eitt eða tvö börn, harður eða mjúkur botn, sumum vagnanna er hægt að breyta í „hlaupakerru“ ef möguleiki er fyrir nefhjól í stað hjólafestingarinnar, stærð, þyngd og burðargeta. Allt þetta skiptir máli en samt er ekki hægt að gefa neina hreina línu um hvað er rétt og hvað óþarfi. Það verður hver og einn að ákveða út frá eigin forsendum.

Ég var svo lánsamur að komast yfir notaðan vagn af Winther Dolphin gerð. Hann er með öllu sem gerir hann sem þægilegastan og öruggastan; harður botn úr polyethylene plasti (óbrjótanlegu samkvæmt framleiðanda), yfirbyggingu úr hertu áli, fjöðrum, stillanlegu baki og nefhjóli. Stórt farangurshólf fyrir aftan sætin eykur enn notkunarmöguleikana og burðargetan 50 kg. Hann hefur þó þann ókost að það fer talsvert fyrir honum jafnvel þó maður brjóti hann saman, en það hefur ekki truflað mig. Ódýrustu vagnarnir eru með þunga stálgrind, mjúkum botni og fjaðralausir – síðan er öll flóran þar á milli.

Í samanburðinum við barnastól hefur vagninn alltaf betur að því undanskyldu að hann hefur meiri fyrirferð, er dýrari og það er aðeins erfiðara að tala við barnið/börnin. Úr vagninum er betra útsýni framávið, meira pláss fyrir bangsa og dót. Vagninn veitir skjól fyrir veðri, það er pláss fyrir aukafötin í leikskólann og innkaupapokana úr matvörubúðinni. Alveg frá upphafi þótti dætrum mínum þetta gríðarlegt sport og besti  ferðamátinn. Ef þannig vildi til að ég þurfti að fara á bílnum þegar þær voru á leikskólaaldrinum varð ég að draga þær grátandi framhjá hjólavagninum á leiðinni út (en vagninn var geymdur í stigaganginum).

Barnastólinn notaði ég takmarkað enda bara fyrir eitt barn og engan farangur. Hann er samt mjög heppilegur fyrir akkúrat það. Ferðalag í Húsdýragarðinn er frábært með hjólavagninn. Við komuna er nefhjólið sett undir þannig að vagninn verður að kerrunni sem rúllar með inní garðinn, því þarf ekki að raska rónni þó einhver sofni á leiðinni.

Hægt er að tengja hjólavagna aftaní allar gerðir hjóla (mis auðveldlega). Fjallahjól er að mínu mati ákjósanlegasti kosturinn til að draga hjólavagn. Léttir gírarnir eru heppilegir þegar komið er að brattri brekku með fulllestaðan vagninn. Það er líka hægt að stíga af og teyma.

Á ferðalagi erlendis leigði ég ferðahjól og vagn af Croozer gerð. Ferðahjólið bar vagninn vel en leiðin sem við fórum var mestmegnis um flatlendi.

Í samanburði við barnavagna og barnakerrur er hjólavagninn mjög öruggur. Þyngdarpunkturinn er lægri og meira hjólahaf í hjólavagninum og því er hann mun stöðugri, hann er með yfirbyggingu sem er líka veltigrind, góð öryggisbelti og þegar hann er tengdur við hjól er útilokað að hjólavagninn velti fram eða aftur fyrir sig. Ég  hef aldrei séð barn í barnavagni né kerru með hjálm- ekki einu sinni í hlaupakerru. Það er svo auðvelt að setja samasemmerki milli hjálms og reiðhjóls og þar af leiðandi er auðvelt að sjá fyrir sér barn í vagni með hjálm – bara það sé „hjóla“-vagn. En eins og fyrr segir er hjólavagninn mun öruggari en vagnar og kerrur sem engum dettur í hug að setja barn í með hjálm. Því ætti þá svo að vera? Jú, það er hægt að fara hraðar með hjólavagninn.  Barn í bílstól í bíl með hjálm – það dettur heldur engum í hug þó hraði bíls sé margfaldur og tölfræðin engum í hag. Það skal samt tekið skýrt fram að ég hef aldrei og mun aldrei ráðleggja neinum frá hjálmanotkun. Vilji einhver nota hjálm á börn í hjólavögnum er það besta mál. Ég geri það líka stundum. Það er eins með hjólavagna og öll önnur farartæki, að þau verða aldrei öruggari en sá sem þeim stjórnar (stýrir hjólinu sem vagninn tengist við). Og öryggisbúnaður kemur aldrei í staðinn fyrir góða skynsemi.

Mikilvægast er að ganga tryggilega frá festingunni sem tengir vagninn við hjólið. Það eru talsverðir kraftar sem verka á festingarnar frá öllum áttum og mikilvægt að þær losni ekki. Það á að vera öryggisól eða lykkja sem krækist í stellið óháð sjálfri festingunni. Festingarnar eru misjafnar milli vagna. Sumar fara undir bolta gjarðarinnar en aðrar festast beint á stellið. Til eru hliðarspeglar af ótal gerðum og er gott að hafa einn vinstra megin (eða þeim megin sem beislið er) til að geta fylgst með barninu. Mörgum vögnum fylgir fánastöng sem er gott öryggistæki þurfi maður að vera eitthvað á akbrautum. Til viðbótar í því sambandi er sjálfsagður hlutur að setja rautt afturljós á vagninn því hann skyggir á ljósið sem staðsett er á hjólinu, langt bretti yfir afturdekkið og helst síðan drullusokk sem nær næstum niður í götu er af hinu góða. Enginn virðist hafa stjórn á því hvar gæsir gera stykkin sín og í rigningum ýrist af afturdekkinu á vagninn. Annað sem lærist við notkun á hjólavögnum er hvernig maður klæðir barnið í vagninn. Þeim sem hjólar hlýnar við að stíga pedalana en barnið situr kjurt. Því ætti auka teppi að vera sjálfsagður aukahlutur í öllum ferðum.  

Fjölnir Björgvinsson

Birtist fyrst í Hjólhestinum mars 2018.