Sá misskilningur er afar útbreiddur hér á landi að tengivagnar fyrir börn séu hættulegir. Það mjög slæmt því þessir vagnar eru síst hættulegri en bílar. Við búum í samfélagi sem tekur lítið sem ekkert tillit til hjólreiðamanna en öðru máli gegnir þegar bílstjórar mæta furðufarkostum eins og reiðhjóli með skærgulum tengivagni, þá virðast þeir taka meira tillit til hjólreiðafólksins.

Það er að öllu leyti undir foreldrum komið hvort barnið er í einhverri hættu í vögnunum. Auðvitað á ekki að storka örlögunum með því að hjóla með slíka vagna á umferðaþungum götum og auðvitað á vagninn að vera vel sýnilegur með endurskini, skærum litum, merkjum og ljósum. Ekkert foreldri færi heldur jafn hratt með vagninn eins og ef hjólað væri án vagns. Það hlýtur því að vera öruggara að hjóla á u.þ.b. 20 km. hraða á gangstétt með barnið heldur en að þeytast með það í trylltri umferð í bíl eftir íslenskri hraðbraut. Það ættu því allir foreldrar að gera barni sínu þann greiða að eitra ekki framtíð þess, umhverfi og náttúru með því að þvælast með það í bílum um borg og bý. Umhyggjuna má sýna með því að verða sér úti um góðan tengivagn og nota bílinn sem minnst.

GÁP var fyrst verslana hér á landi til að flytja inn tengivagna fyrir reiðhjól sem hannaðir voru með það í huga að flytja börn. Þessir vagnar voru frá Cannondale og hétu Stowaway. Þeir höfðu bæði sína kosti og galla. Stærsti kosturinn var plastbotninn sem veitti barninu aukið öryggi og myndaði einskonar bretti yfir vagnhjólin. Stærsti ókosturinn var vind og regnhlífin sem virtist ekki þola notkun!

can-cabo.JPG

 

Cannondale Caboose
Maður rak því upp stór augu þegar Cannondale fór að framleiða nýjan vagn að nafni Caboose. Vagninn er eftirmynd eins vinsælasta vagns fyrr og síðar frá fyrirtækinu Burley. Burðar- og veltigrind er úr áli og hlífar úr plasti og sterku taui. Vagninn er hægt að brjóta saman í nánast ekki neitt miðað við eldri gerðina og því fer lítið fyrir honum í geymslu. Tenging milli reiðhjóls og vagns er þeirrar gerðar sem reynst hefur mjög vel og því mjög örugg. Klemma er skrúfuð á hjólið við vinstri afturgaffalendann. Samfastur klemmunni tengist svo vagnbóman með þykkum gúmmíborða. Til öryggis er svo borði þræddur frá vagni í reiðhjólið.

Vagninn getur tekið eitt eða tvö börn og eru þau bundin í 5 punkta öryggisbelti. Vagninn kemur með regnhlíf úr gegnsæju plasti sem er framför frá fyrri vagni því hana þurfti áður að panta sérstaklega. Engir rennilásar eru á vagninum heldur eru allar hlífar með teygjum sem krækjast upp á króka og er það góður kostur. Því er fljótlegt að komast í vagninn og loka honum. Rúmgott farangurshólf er aftan við sætin sem gefur fjölskyldunni færi á að fara í verslunarferðir án vandræða.

Vagninn rennur á Sovos nöfum og álgjörðum með 20x1,75 tommu dekkjum. Þessi vagn hefur þann kost að hægt er að setja undir hann breiðari dekk. Það er mikill kostur því það gerir hann mikið mýkri ef hjóla á um malarvegi.

Cannondale framleiðir búnað til að breyta vagninum í skokkvagn. Þann búnað er hægt að panta hjá GÁP og er það haldfang sem fest er aftan á vagninn og aukahjól sem fest er á bómuna.

Framleiðandi vagnsins gerir ekki grein fyrir burðargetu. Hins vegar má gera ráð fyrir að hann geti borið u.þ.b. 45 kg þar sem hann líkist svo mjög Burley vagninum fyrrnefnd.

Erfitt er að gera grein fyrir göllum þessa vagns, aðallega vegna þess að hann hefur lítið verið notaður hér á landi. Því verður að horfa til reynslunnar af Burley vagninum sem sem reynst hefur mjög vel. Gallarnir ættu því ekki að vera margir. Nauðsynlega vantar aurhlífar á vagnhjólin og þó vagninn sé gulur með endurskins-merkjum þá er nauðsynlegt að bæta við rauðum díóðu-blikkljósum. Alltaf má deila um það hvort taubotninn sé slæmur eða góður kostur en í sannleika sagt þá þykir yfirleitt gott að vera með undirvagninn úr einhverju stífu og sterkara efni eins og var á gamla vagninum frá Cannondale.

Magnús Bergsson.


jogg01g.jpg
 

 

Baby Jogger hjólavagninn.

jogg02g.jpgÍ hjólhestinum í febrúar 1997 (1. tölublað 6. árgangur) var birt ljómandi úttekt á þeim aftanívögnum eða tengivögnum fyrir reiðhjól sem völ hefur verið á hér á landi. Ætti að vera góð hjálp í því og tímasparnaður fyrir þá sem hafa áhuga á slíkum gripum og vilja kynna sér valkostina. Undirritaður vill hins vegar gjarnan bæta við einum vagni sem hann hefur sjálfur átt í rúmt ár við mikinn fögnuð en var ekki með í þeirri úttekt enda ekki verið á sölulista neinna verslana hér. Vagn þessi er amerísk gæðavara frá The Baby Jogger Company sem framleiðir fyrst og fremst mjög sterkar þriggja hjóla kerrur fyrir börn, s.k. skokk-kerrur sem hægt er að fá á mjög stórum hjólum sem rúlla mun léttar en venjulegar barnakerrur og eru mjög sterkbyggðar. Fyrir þessar kerrur býður fyrirtækið einnig uppá breytingasett sem gerir kleift að breyta kerrunni í mjög álitlegan aftanívagn fyrir reiðhjól. Í breytingasettinu eru auka stífur sem um leið og þær breikka hjólhaf vagnsinns, og gera hann þannig stöðugri, bera þær uppi yfirsegl sem skýlir fyrir veðri og vindum. Vagninn tengist svo hjólinu á sætis-stammanum (framhjólið tekið undan.) Þarna er sem sagt komin göngu eða hlaupakerra og hjólavagn í sama tækinu þó að örlitlar tilfæringar þurfi til að breyta honum á hvorn veginn sem er.

Mér hefur líkað ljómandi vel að hjóla með vagninn það sem ég hef prufað hingaðtil en það hefur m.a. verið á hinum mestu óvegum og jafnvel kindaslóðum. Hann virðist ráða mjög vel við ófærur enda er hann á stórum hjólum (20 tommur) og hátt undir hann og nánast ómögulegt virðist að velta honum. Sætið er mótað í dúk og barnið situr vel skorðað og stöðugt (fjögurra punkta belti fylgir.) Ég hef lítið verið með vagninn í rigningu eða hvassviðri þannig að ég get lítið sagt um þá hlið málsins.

Þessi vagn hefur bara sæti fyrir eitt barn og sáralítið pláss er fyrir leikföng og annan búnað samanborið við tvíbreiðu vagnana á markaðnum en það sem hann hefur framyfir a.m.k. flesta aðra vagna er að hann getur nýst fölskyldu sem tiltölulega lipur barnakerra. Vegna stærðar hjólanna og styrks í byggingu má síðan fara með þá kerru um ýmsar ófærur sem maður byði venjulegum barna-kerrum ekki uppá. Hún er óstöðvandi í íslensku fannfergi og fjallaslóðum og leggst síðan vel saman og kemst í skott á flestum bílum (auðvelt að taka hjólin undan.)

Á heildina litið er þetta fjölhæfur gripur sem ætti að geta nýst vel útivistarfjölskyldu sem stundar bæði gönguferðir og hjólreiðar.

Heimasíða The Baby Jogger Company: babyjogger.com

Helgi Erlendsson

© Hjólhesturinn, 1. tlb. 7. árg. Mars 1998.