Fátt er skemmtilegra en að eiga stefnumót við móður náttúru á reiðhjóli, hljóðlaust og án þess að menga sitt nánasta umhverfi. Því miður eru það allt of fáir sem hafa treyst sér til að nota reiðhjólið til ferðalaga. Getur það stafað af vanþekkingu og vanmáttarkennd gagnvart náttúrunni t.d. vegna mikillar víðáttu og hræðslu við að takast á við hana í allri sinni mynd?

Eftir að fólk hefur vanið sig á nota hraðskreiðan einkabílinn brenglast fjarlægðarskynið, auk þess vill brenna við að fólk hættir að sjá smáatriðin í náttúrunni og hreinlega gleymir því að nokkuð slíkt sé til. Því vill hæg yfirferð á reiðhjóli byggja upp óþolinmæði sem erfitt getur verið að losna við nema með því að taka sér tak. Allir þeir sem hafa farið inn á líkamsræktarstöðvar vita vel hversu erfitt það var að takast á við æfingarnar í fyrsta sinn, en eftir nokkra daga varð sú hreyfing nauðsynleg og hreinlega að fíkn. Lykillinn er sá sami og þegar byggja þarf upp jákvæðni í daglegu lífi þar sem taka þarf erfiðleikum með opnum örmum. Takast á við hvert einstakt tilfelli og leysa það, og viti menn, eftir skamman tíma opnast dyr að stórkostlegu heimili sem náttúran vissulega er.

Þó jákvæður hugur beri mann langa leið er ekki verra að kunna að búa sig rétt. Ef fólk ætlar sér að leggja í langferð á reiðhjóli er gott að vera búin/n að gefa sér góðan tíma til að venjast hjólinu með því að fara í stuttar og langar helgarferðir. Best er að nota hjólið daglega, minnst í einn mánuð. Það eflir líkamann og hvetur fólk til að njóta náttúrunnar á annan og nánari hátt.

Er hjólið í lagi?

Það er ekki nóg að líkaminn sé í lagi ef hjólið er að niðurlotum komið. Öll hjól þarf að yfirfara, jafnvel þótt þau séu ný. Á óvönduðum hjólum eru rær og skrúfur oft lausar eða ofhertar og hreyfanlegir hlutir illa smurðir. Óvönduð hjól og búnaður þeirra eru iðulega úr veikum málmum. Því þarf oft ótrúlega lítið til að forskrúfa rær og skrúfur. Það þarf ekki sérfræðinga til að huga að ýmsum hlutum hjólsins. Flestir ættu að geta athugað eftirtalin atriði sjálfir:

Eru sporskiptar (gírar) rétt stilltir og smurðir? Athuga vel endastoppskrúfur. Liggja bremsupúðar rétt að gjörðum hjólsins? Eru bremsu- og gíravírar óslitnir? Eru allir barkar smurðir? Er slag í hjólnöfum eða eru þau ofhert? Brakar í þeim? Sömu atriði þarf að athuga í sveifarlegum og stýrislegum. Eru teinar slakir eða ofhertir? Eru brestir, slit eða kast í gjarðahringjunum? Er keðjan slitin? Ef skipta þarf um keðju þarf einnig oft að skipta um afturdrifkrans. Sú er raunin, ef nýja keðjan hoppar á tannhjólunum við átak. Eru gjarðaöxlar skakkir? Ef svo er, þarf nær undantekningalaust að rétta gaffalenda. Það er gert á verkstæði eða í klúbbhúsi ÍFHK. Bognir öxlar og gaffalendar eru ástæður þess að öxlar brotna. Því er mjög mikilvægt að þeir séu í lagi. Athugið að verkstæði eru yfirhlaðin verkefnum á vorin og sumrin. Því er best að athuga sem flest fyrrnefnd atriði heima hjá sér, enda má mikið læra af því. Láttu aðeins líta á þau atriði sem þú telur þig ekki geta athugað. Þegar hjólið er tilbúið, er skynsamlegt að fara til reynslu í stutta helgarferð með allan búnað.

Ferðabúnaður

Bögglaberar verða að vera sterkir, sérstaklega ef ekki er hjólað á malbiki. Þeir sem eru að fara í sína fyrstu ferð eru oft ofhlaðnir farangri og fylgir því sú hætta að eitthvað láti undan. Athuga þarf allar suður þegar bögglaberar eru keyptir. Hafa ber í huga, að því fleiri stög sem halda grindinni saman, því sterkari verður bögglaberinn. Best er að hafa hann úr ál- eða stál pípum frekar en úr teinum. Athuga skal sérstaklega vel suður og frágang á stöðum sem mikið mæðir á, t.d. á festingunni, þar sem bögglaberinn er festur við gaffalenda hjólsins. Ef bögglaberinn er úr áli er gott að styrkja suðurnar betur. Hægt er að láta gera það hjá fyrirtæki í Kópavogi sem heitir Áltækni. Athugið að stálbögglaberar þola oft meira álag en álbögglaberar. Fyrir þá sem gera miklar kröfur, eru bestu bögglaberarnir gerðir úr léttum "cromolid" stálpípum. Má þar m.a. nefna bögglabera frá Bruce Gordon Cycles, en þeir eru því miður ófáanlegir hér á landi. (uppfært: skoðið Old Man Mountain bögglabera, þeir framleiða einnig bögglabera sem má nota með diskabremsum)

Skrúfurnar sem festa bögglaberann við hjólið þurfa að vera úr sérstaklega hertu stáli. Þær er hægt að fá í versluninni G J Fossberg (svartar á litinn) eða í klúbbhúsinu okkar. Passið að setja lásró með hverri skrúfu svo að hún losni ekki. Á flestum hjólum er ekki unnt að setja ró á skrúfuna, sem er drifmegin að aftan, vegna þess að keðjan rekst í hana. Þar verður að setja gengjulím, (t.d. Loc Tite), sem líka fæst hjá G. J. Fossberg. Mikilvægt er að sem flestar skrúfur séu fyrir sömu lyklastærð svo að ekki þurfi að hafa marga lykla með í ferðalög. Sexkantar eru betri en skiptilyklar. Í sumum verslunum er unnt að skipta út skrúfunni sem festir sveifina á sveifaröxulinn og fá í hennar stað skrúfu með sexkanthaus. Með henni má bæði festa sveifina og losa frá öxlinum.

Góðar töskur skipta miklu máli. Varast ber þunnar nælontöskur. Nú er töskuúrvalið orðið nokkuð gott hér á landi. Töskur, gerðar úr Cordura, Ks-60, ks1000 eða PVC efnum henta vel íslenskum aðstæðum. Þó að hér séu nefnd þessi fjögur efni eru mörg önnur efni sem duga nokkuð vel við venjulegt álag. Töskurnar þurfa að vera með hörðu baki svo að þær fari ekki í teinana. Athuga þarf hvort vel sé gengið frá saumum, festingum og krókum, að utan sem innan. Rétt er að athuga, hvort töskurnar passa vel á bögglaberann með því að máta þær á hjólið þegar þær eru keyptar. Þá má ekkert los vera á töskunum og ekki mega hælarnir rekast í þær. Ekki mega þær vera reyrðar þannig niður að reyni á festingarnar eða erfitt verði að losa þær af bögglaberanum. Einnig þarf góð regnhetta að vera yfir opinu og ólar til að herða að farangri.

Hægt er að fá mjög góðar vatnsheldar töskur frá Ortlieb sem framleiðir eingöngu töskur úr vatnsheldu PVC efni og Karrimor sem einnig framleiðir mjög góðar vatnsheldar töskur undir nafninu Aquashield. Efnin eru alveg vatnsheld og allir saumar soðnir. Hafa þessar töskur reynst einkar vel hér á landi auk þess sem lítið mál er að þrífa þær. Þessum töskum fylgir þó sá galli að efnið "andar" ekki og ef vatn á annað borð kemst í þær getur allur farangur farið á flot. Krókarnir á töskum þessara framleiðanda eru sterkir, með læsingum sem festa þær tryggilega við bögglaberana og hægt er að skipta um þá ef þeir brotna. Þeir eru stillanlegir og hægt er að fjölga þeim. Það er góður kostur ef menn eru með álbögglabera því að álagsdreifingin verður jafnari. Í verslunum hefur verið hægt að fá ódýrar Ortlieb eftirlíkingar sem nefnast Vaude og Connix frá Tævan og hafa reynst nokkuð vel nema hvað krókarnir eru misjafnlega góðir eftir töskugerðum. Þó að til séu vatnsheldar töskur er samt sem áður gott ráð að pakka öllu í plastpoka. Plastpokar varna því að farangur eyðileggist vegna hristings.

Aldrei ætti að bera farangur á bakinu eða á annan hátt utan á sér, nema viðkvæman búnað s.s. myndavél. Það er líka slæmt að hlaða öllum farangri aftan á hjólið því þá er hætta á að missa stjórn á hjólinu í lausamöl og einnig þegar klífa á brattar brekkur. Þumalputtaregla er að hafa sömu þyngd að framan og að aftan. Láttu þér svo ekki bregða þegar þú stígur á hjólið eftir að farangur er kominn á það. Þú venst tilfinningunni eftir tvo daga eða svo. Ef þú ert á stífu reiðhjóli þá er líklegt að allur farangurinn mýki upp hjólið svo að í sumum tilfellum getur verið þægilegra að hjóla á því fullhlöðnu.

Klæðnaður

Réttur klæðnaður hjólreiðamanna er mikilvægur. Hjólreiðaföt fást í nær öllum reiðhjólaverslunum, í Skátabúðinni og jafnvel í Hagkaupum. Nauðsynlegt er að hafa með sér ullarnærföt á ferðalögum og klæðast alltaf ullarsokkum. Ef klæðast á "Lycra" hjólreiðabuxum með sætisbót er best að hafa þær næst sér og sleppa nærbuxum. Forðast skal bómullarfatnað vegna þess að hann þornar seint og getur því valdið ofkælingu. Notið í stað þess t.d. fatnað úr "Polarsystem", "fleece" "lycra", "Transtex" og ull. Fötin þurfa að anda vel en vera þó vind- og vatnsþétt eins og "Gore-Tex" og önnur skyld efni. Rétt hönnun fatnaðarins skiptir miklu máli. Vel þarf að lofta í gegnum yfirhafnir svo að líkaminn fái kælingu. Yfirleitt nægir að fatnaðurinn sé aðeins vind- og vatnsheldur að framan. Gott er að hafa húfu og vettlinga og hjálm eiga menn alltaf að bera.

Hjólreiðaskór fást í flestum fyrrgreindum verslunum. Þó geta léttir gönguskór hæglega gert sama gagn og sérstakir hjólreiðaskór því oft er mikið gengið þótt fólk ferðist á hjólum. Kostir hjólreiðaskóa eru að þeir eru með stífum sóla, hafa rauf fyrir hásinina, eru mjög léttir og anda oft betur en gönguskór. Kostir gönguskóa eru hins vegar að þeir eru hlýrri, sumir vatnsþéttir og endast oft betur. Óþarfi er að hafa meðferðis stígvél því að þau eru þung og fyrirferðamikil. Í þeirra stað nægja legghlífar, sem skýla fótleggjum og skóm að framanverðu. Þær hafa fengist hér í hjólreiðaverslunum þó úrvalið geti varla talist mikið. Hlífarnar má einnig sníða úr þunnu PVC efni sem fæst í Seglagerðinni Ægi. Þær þurfa að ná undir og yfir tærnar og þaðan upp legginn, því sem næst að hnjám. Hlífarnar eru festar um legginn efst og rétt við hásinina með frönskum rennilás og teygjanlegum böndum. Legghlífin nægir fullkomlega flesta rigningadaga. Vatnsheldar skóhlífar fást í sumum verslunum. Hægt er að nota seglbrettaskó úr "Neopren"-efni til að vaða yfir ár án þess að finna fyrir kulda og grýttum botni. Gamlir strigaskór gera svipað gagn. "Neopren"-efnið er úr sama efni og blautbúningur kafara og því ekki alveg vatnsþétt.

Viðhald

Þó að reiðhjól séu ekki margbrotin hafa þau þó þann galla að geta bilað. Samt er oft hægt að komast býsna langt án þess að þurfa að gera við. Ef hjólið er gott er minna um viðgerðir og allt viðhald auðveldara. Í raun má ganga svo frá hnútunum að nánast bili aldrei neitt. Ef hlutirnir eru athugaðir daglega eða um leið og eitthvað óeðlilegt finnst, þarf ekkert óvænt að koma upp á. Það sem helst bilar á hjólreiðaferðalögum er eftirfarandi: Sveifar og stýrislegur losna. Dekk rifna og slöngur springa Bögglaberar brotna og teinar slitna, einnig keðjur og gír- og bremsubarkar. Oft má koma í veg fyrir svona bilanir með því að athuga hjólið daglega. Það finnst bæði og heyrist þegar legur losna og þá þarf að stilla þær strax ! Mjög algengt er að bremsupúði nuddist við dekkið og það rifni.

Hjólið ekki yfir djúpar ár, heldur berið hjólið yfir. Ef ferðast á um torfæra slóða er nauðsynlegt að vera á breiðum gjörðum sem eru yfir 25mm breiðar að utanmáli. Breiðar gjarðir minnka líkur á því að gjarðabrúnir skeri á strigann í hliðum dekkjana. Gott er að vera með 2ja mm. ryðfría teina frá þekktum framleiðendum s.s. Wheelsmith, DT, Hoshi eða Union. Hafið ný dekk undir hjólinu þegar lagt er af stað. Á markaðnum er mikið af dekkjum sem ekki henta til langferða vegna lélegrar endingar. Þau eru gerð úr mjúku froðukendu gúmmíi og eru hönnuð fyrir keppnir. Þau má þekkja vegna litarins sem oft er rauður eða grár og stundum nefnd WCS. Notið dekk sem hafa gróft munstur með breiðum slitflötum.

Verkfæri eiga alltaf að vera með í ferðalögum. Nefnd skulu: Pumpa, svissneskur Vicotorinox vasahnífur með skærum og stjörnuskrúfjárni, dekkjaspennur, keðjulykill, 8 og 10 mm fasta lykla og stundum 9mm fyrir ódýrustu hjólin, sexkantar á allar skrúfur og passandi teinalykill. Smáverkfærasett eins og CoolTool og Topeak innihalda ekki sérlega meðfærileg verkfæri og henta því best í neyðartilfellum. Keðjuolía fyrir reiðhjól t.d. Finish Line og lítið eitt af tvisti til að þrífa keðjuna. Ekki má svo gleyma nál og sterkum tvinna sem oft lengir líf ódýru tasknanna.

Varahlutir þurfa að vera með því lítið fæst af þeim úti á landi eða til fjalla. Bætur, auka slanga, gíra- og bremsuvír, keðjuhlekkir, 2-4 bremsupúðar og 4 teinar með nipplum. Það fer svo eftir eðli og lengd ferðalagsins hvort meðferðis þarf að hafa varadekk. Þá er gott ráð að vera með "Kevlar"- dekk sem hægt er að brjóta saman og kemst fyrir í tösku.

Ekkert mál fyrir fjölskyldufólk

Ef fjölskyldufólk hefur hug á því að ferðast um á reiðhjóli er um ýmsa kosti að ræða. Þar þarf aðeins viljastyrk og áræðni svo losna megi úr viðjum vanans. Hægt er að fá tengivagna fyrir reiðhjól. Þeir eru í flestum tilfellum hannaðir með sæti fyrir tvö börn og eru með farangursrými. Þessir vagnar hafa verið til sölu í flestum nágrannalöndum um áratuga skeið og hafa sífellt orðið vinsælli vegna öryggis og ýmissa möguleika. Þeir vagnar sem þegar eru til í verslunum hér á landi eru frá Schwinn og Winther. Þeir hafa veltigrind, öryggisbelti og eru í skærum litum til að tryggja öryggi barnanna. Schwinn vagninn er góður þar sem hægt er að setja undir hann breið dekk svo hægt er að mýkja hann. Winther vagninn er hinsvegar með dempara, betri botngrind og meiri burðargetu. Ítarleg úttekt var á þessum vögnum í síðasta Hjólhest og einnig hægt að lesa á internet vef klúbbsins. Ekki er ráðlegt að setja allan farangur í vagninn þar sem það þyngir aðeins undir fæti auk þess sem það torveldar stjórn á hjólinu. Mikill mótvindur tekur mikið á og má segja að þar liggi stærsti galli þessara vagna.

Þegar barnið hefur vaxið upp úr vagninum eru fáanleg tengihjól sem festast aftan í hjól foreldra. Barnið getur því byrjað að hjóla með foreldrinu þar til það eignast sitt eigið hjól.Til eru dæmi þess, og það hér á landi, að fjölskylda hafi selt bílinn sinn eftir að hafa eignast tengivagn. Því fylgir mikill kostur og má þar sérstaklega nefna aukin fjárráð og heilbrigðara líferni, ekki aðeins fyrir foreldrana heldur líka börnin.

Farangursvagn eins og Bob Yak16 er valkostur í stað bögglabera og hliðartaskna og besta og eina lausnin fyrir þá sem nota reiðhjól með fram- og aftur dempurum. Þeir þykja líka góðir með tvímenningshjólum til að færa þyngdina af hjólinu. Aftur á móti er erfiðara að ráða við hjólið í lausamöl og hliðarvindi en frekari upplýsingar er að finna í fyrrgreindum Hjólhesti.

Byrjendur, örvæntið ekki!

Að framansögðu mætti ætla að ferðalög á reiðhjóli séu aðeins fyrir moldríka tæknifíkla, en það er alrangt. Góður búnaður til hjólreiða kostar aðeins brot af því sem árlegur rekstur bíls kostar. Það er engin ástæða til að örvænta þó að efnahagur leyfi ekki kaup á góðu hjóli eða búnaði. Flestir byrja aðeins á því ódýrasta og komast langt á því. Því er einfaldlega auðveldast að athuga hvort ekki séu hægt að nota þann viðlegubúnað sem þegar er til á heimilinu. Auk þess er tilvalið að ferðast með öðrum til að samnýta tjald eða annan viðlegubúnað og nota plastpoka til að verja hann gegn vætu, það er alltaf ódýrara en vatnsheld taska. Að lokum, munið að hjólin mega vera ódýr ef ekki stendur til að fara út af malbikinu.

Síðustu forvöð

Flest hjólreiðafólk ferðast eftir malbikuðum vegum. Það er svo sem engin furða þar sem það er einfaldlega auðveldast að fylgja þeim línum á vegakortum auk þess sem fólk tekur ekki óþarfa áhættu að takast á við óþekkta náttúru. En þeim hjólreiðamönnum fer fjölgandi sem kjósa að leita út fyrir manngert umhverfi og glíma þess í stað við fáfarna troðninga, gamlar þjóðleiðir eða hesta-og kindaslóða þar sem dagleiðir eru ekki mældar í tugum kílómetra heldur glímt við hvern kílómetra af innlifun. Þar sem hver þúfa og steinvala skiptir miklu máli og víðáttan verður þess mun yndislegri sem lengra er í vélvædda ómenningu í sundurtættu landslagi.

Því miður hefur margt farið á verri veg undanfarin ár sem ekki sér fyrir endann á. Stjórnvöld hafa ekki dug í sér að sýna frumkvæði og hörfa frá úreltri hugmyndafræði sóunarsamfélagsins þar sem stöðugt er stunduð rányrkja og yfirgangur á ósnortinni náttúrunni. Má þar nefna Vegagerðina sem virðist hafa það að markmiði að eyða sem mestu af upprunalegu landslagi umhverfis akvegi. Kjalvegur er nú að stórum hluta upphækkuð hraðbraut þar sem landslag umhverfis veginn er stórskemmt með jarðýtum. Það er því lítið augnayndi að fara um Kjalveg, og ekki síst vegna þess að þar er orðin mikil og hröð bílaumferð. Sprengisandsleið er þessa mánuðina að tapa sínum sjarma sem spennandi og ósnortin víðátta. Þar hafa virkjanasinnar, af algjöru fyrirhyggjuleysi, verið hamast við að útrýma upprunalegu landslagi undir uppistöðulón, stíflur og hraðbrautir langleiðina upp í Nýjadal. Þeir aðilar munu seint skilja friðunarsjónarmiðin sem aldrei hafa ferðast um þessar slóðir í öðru en bíl og aldrei hafa bundist náttúrunni tryggðaböndum.

Því miður er það svo að jafnvel fyrir hjólreiðafólk er hálendi Íslands orðið of lítið þar sem erfitt er að ferðast um í heilan dag án þess að rekast á eitthvað vélvætt rusl eða mannvirki. Það er því hver að verða síðastur að fara um tiltölulega óskemmt hálendið, þar sem það er þá enn að finna. Fyrir þá sem vilja ferðast um fáfarna slóða eru þeir hinir sömu hvattir til að mæta á fimmtudagsfundi klúbbsins og fá frekari upplýsingar um viðkomandi svæði.

Magnús Bergsson.

© Hjólhesturinn 2. tlb. 6. árg.