Nú eru að verða 15 ár frá því fyrsti Hjólhesturinn kom út. Hefur hann verið gefinn út allt frá einu tölublaði á ári til fjögurra. Það var talsverður höfuðverkur að gefa út fyrstu blöðin því þá voru tölvur vart til á heimilum. Fyrstu tölublöðin voru unnin í Works á Apple SE tölvu og prentuð út á nálarprentara. Textinn var síðan minnkaður í ljósritunarvélum ýmissa vinnustaða. Síðan var textinn klipptur niður og límdur á A-4 blöð auk mynda. Það var svo allt ljósritað aftur eftir að búið var að raða niður blaðsíðum. Síðan var reynt að hafa samband við einhverja klúbbmeðlimi sem gátu reddað aðgangi að fjölritunarvél. Undanfarin misseri hefur Hjólhesturinn verið settur upp í Quark Express af góðviljuðu fagfólki og prentaður í prentsmiðju sem kostar Fjallahjólaklúbbinn talsverðar upphæðir, ekki síst að viðbættum póstburðargjöldum sem hafa margfaldast á örskömmum tíma  

Magnús Bergsson hefur haft yfirumsjón með Hjólhestinum frá upphafi 1991. Að halda úti útgáfustarfsemi sem þessari er ekkert grín og hornsteinn um einstakt brautryðjendastarf Magga og þolinmæði að halda þessu gangandi án startkapla gegn öllum mótbárum. Hægt er að bera saman gróflega þennan ótrúlega drifkraft með því að leita að erlendum hjólreiðafélögum sem hafa álíka útgáfustarfsemi á sínum snærum eins og við. Þau félög eru nokkuð vandfundin!

   Nýtt hjólreiðafélag stofnað fimmtudaginn 11. nóvember 2004. Þetta nýja félag hefur fengið nafnið Hjólamenn og voru stofnfélagar þess 33 talsins. Félagið er starfrækt undir UMSK með aðsetur í Kópavogi.

Í samfélagi þar sem stjórnvöld telja að ekkert séu samgöngur nema þær séu vélknúnar og þar sem óheft bílaumferð skiptir meira máli en umferðaröryggi er mikil þörf á breytingum. Þetta á svo sannarlega við um íslenskan ískaldan veruleika. Því er sannarlega hægt að fagna þegar einhver á Alþingi Íslendinga er tilbúinn til að bæta þetta hörmungarástand samgöngumála. Frá því um miðjan nóvember 2003 hefur beðið fyrstu umræðu á Alþingi ákaflega þörf og tímabær þingsályktunartillaga sem snertir hjólreiðar. Kolbrún Halldórsdóttir er frummælandi en þingmenn allra flokka standa að tillögunni. "Þar ályktar Alþingi að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd með fulltrúum samgönguráðuneytis, umhverfisráðuneytis, Vegagerðarinnar, Umferðarstofu, samtaka sveitarfélaga og samtaka hjólreiðafólks. Hlutverk nefndarinnar verður að undirbúa áætlun og lagabreytingar sem gera ráð fyrir hjólreiðum sem viðurkenndum og fullgildum kosti í samgöngumálum.

   Að hjóla til og frá vinnu er valkostur sem margir nýta sér, og þarf hvorki að vera erfitt né flókið í framkvæmd. Það eina sem þarf er nothæft hjól, vilji og áhugi.
   Síðastliðið sumar, vikuna 18.-22. ágúst, stóð yfir heilsueflingaverkefnið "Hjólað í vinnuna". Það var keppni milli fyrirtækja á landsvísu, þar sem starfsfólk var hvatt til að hvíla einkabílinn og hjóla í staðinn til og frá vinnu. Meginmarkmið þess var að vekja athygli á hjólreiðum sem heilsusamlegum, umhverfisvænum og hagkvæmum samgöngumáta. Eflaust verður samskonar keppni haldin aftur í sumar. Nánari upplýsingar og myndir má sjá á vefsíðunni:
hjolad.isisport.is  og á dönsku vefsíðunni: www.vicykler.dk

   Er nauðsynlegt að eiga bíl? Okkur er að minnsta kosti sagt það í sjónvarpsauglýsingum, dagblöðum og tímaritum. Stöðugur straumur áróðurs fyrir bílum og bílakaupum dynja á heimilunum. "Ekkert út", "Öryggi fyrir börnin", "Frelsi". Við sjáum hamingjusamar fjölskyldur fara í endalausa bílferðir. Enginn spyr hvernig börnunum líður, reimuð niður í ofurþægilegu sætin, umkringd  loftpúðum og rafmagn í öllu. Heilaþvotturinn er algjör og sá sem vogar sér að benda á það er talinn undarlegur. Bíllinn er stöðutákn, það er ekki hægt að sýna sig á druslu hvað þá bíllaus!

Er gerlegt að nota hjól sem samgöngutæki í Reykjavík?
Upphafið: Sumarið 1999 byrjaði ég að hjóla. Hafði keypt allnokkuð notað hjól á uppboði hjá Löggunni nokkru áður. Í fyrstunni var ætlunin að kanna hvort það væri mögulegt að hjóla alla leið í vinnuna, úr miðbæ Reykjavíkur að Rannsóknastofnunum á Keldnaholti, rétt rúmir tólf kílómetrar, það væri minna mál að komast heim aftur það er jú alltaf hægt að láta ná í sig á bílnum.

   Ég hef fengið nóg, þá sérstaklega eftir að ég var keyrður niður á gangstétt fyrir framan heimili mitt. Það var þá sem ég sannfærðist um, sem og eftir reynslu fyrri ára, að ég ætti ekki að hjóla á gangstéttum heldur vera úti á götu þar sem hjólreiðamenn eiga fullan rétt á að vera. Nú getur verið að einhverjum þyki ég vera orðinn bilaður og vel má vera að fyrir þá sem fara hægt á hjólum sínum séu gangstéttirnar fullkomnar samgönguæðar. En fyrir mig sem get ágætlega haldið 30-40 km hraða og aðra sem líta á reiðhjólið sem samgöngutæki, þá eru íslenskar gangstéttir ónothæfar. Staðreyndin er sú að hvergi lendi ég jafn oft í hættum eins og á gangstéttum.

Umhverfismálastofa Landverndar og Umhverfisstofnunar HÍ héldu málstofu í Ráðhúsi Reykjavíkur, 11. október 2001 og þar sem þessi mál voru rædd og margt athyglisvert var sagt. Að sjálfsögðu barst talið oft að einkabílnum og vandamál sem honum fylgir og þörfinni á að leita annarra lausna. Hér má sjá valin ummæli og tengingu á vef Landverndar þar sem lesa má öll erindin.

Meðal annarra talaði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarstjóri um skipulagsmál og vitnaði í skipulagsmarkmið um að "Efla vistvænar samgöngur; svo sem almenningssamgöngur og hjólreiðar.." og sagði: "Þetta er sú sýn sem við setjum fram en veruleikinn er ennþá dálítið annar. Við búum í samfélagi mikilla mótsagna þar sem við erum öll í orði kveðnu á kafi í umhverfisvernd - sérstaklega þegar hún veldur okkur engum óþægindum - og þykir óskaplega vænt um náttúruna, en erum svo algerlega móralslaus þegar kemur að skipulagi hins manngerða umhverfis sem við ætlum að skila til framtíðar."

Já, það eru orð að sönnu að Aðalskipulagið er sú sýn sem stjórnmálamenn setja fram en veruleikinn er ennþá dálítið annar eins og sést á hjólreiðastígum borgarinnar sem fjallað er um hérá umferðarvefnum okkar.  14/10/2001 PG

ÍFHK og LHM sendu Skipulagsstofnun formlegar athugasemdir vegna fyrirhugaðra gatnamóta við mislæg gatnamót Víkurvegar og Vesturlandavegar. Þar segir meðal annars:

Við hönnun göngu- og hjólreiðastíga þarf að forðast óþarfa hlykki og krappar beygjur. Miða þarf við að stígurinn liggi skemmstu leið milli staða. Lyfta þarf stígnum upp frá umhverfi sínu svo ekki liggi og renni á honum yfirborðsvatn eða safnist þar fyrir klaki. Koma þarf fyrir ræsum við stíginn þar sem hætta er á að vatn safnist saman. Undirlag þarf að vera frostþolið og á stígnum bundið slitlag. Breidd stígsins þarf að vera 4 metrar, líka á brúm og í undirgöngum.

Lesið allt bréfið og skoðið kort af gatnamótunum:

Mikið hefur verið fjallað um breikkun Reykjanesbrautar og þar hefur komið fram það sjónarmið samgönguráðherra að banna jafnvel hjólreiðar á brautinni. Flestir eru sammála um að ekki sé hægt að hjóla í allri þeirri miklu og hröðu umferð sem líklega verður á Reykjanesbrautinni. Í hvassviðri er mjög erfitt að hjóla þegar rútur og aðrir stórir bílar þjóta fram hjá, rétt við hlið hjólreiðamannsins...

Lesið allan pistil Öldu Jóns sem birtist í MBL 26/5/2001 hér:

Um landið og borgina hafa verið lagðir vegir þar sem öll umferð landsmanna á að fara um. Víða eru síðan gangstéttir og stígar fyrir gangandi þar sem hjólreiðafólk má fara um sem gestir, að því tilskyldu að þeir trufli ekki umferð gangandi.  Umferðin á götum borgarinnar getur verið hættuleg og illa er búið að umferð hjólandi þar sem götur eru oft þröngar og hraði mikill.  Þar til  hjólabrautir hafa verið lagðar verða ökumenn samt að deila götunum með hjólreiðafólki.

Það virðist stundum skorta skilning á þessu og stundum þar sem síst skildi eins og t.d. hjá Lögreglunni í Reykjavík eins og skjalfest er og lesa má um hér.  Þetta er saga Sigurðar M. Grétarssonar sem var á heimleið dag einn, úr vinnu sinni þegar hann var stöðvaður af lögreglunni og síðar sent sektarboð fyrir það að hjóla á götunni og neita að hlýða tilmælum lögreglu um að fara af götunni.  Vegfarendur eiga að hlýða tilmælum lögreglu í umferðinni en lögreglan verður líka að hafa gildar ástæður þegar hún gefur tilmæli til fólks um að breyta út frá umferðarlögum. Svo var ekki í þetta skipti sem sannast af því að þetta mál var látið niður falla eftir að Sigurður fundaði hjá lögreglustjóraembættinu með tveim fulltrúum frá Íslenska Fjallahjólaklúbbnum sér til aðstoðar.

Lesið alla söguna. PG