Hörmungatúrismi er útbreiddari en margur kynni að halda. Fjöldi fólks fær mikið út úr því að skoða gamla pyntingaklefa, vígvelli og staði sem hafa orðið illa úti í allskyns hamförum. Íslendingar kynntust þessu eftir Suðurlandsskjálftann árið 2000 og eitthvað var um að fólk gerði sér ferð í draugahverfin nýju eftir efnahagshrun. Það sem fyrst og fremst verður illa úti á Íslandi er jafnframt það sem flestir kjósa að skoða, þ.e. náttúra landsins. Sá fjöldi fólks sem skoðar Kárahnjúka í dag er margfaldur á við fjöldann sem þangað fór áður en staðnum var rústað. Framkvæmdin var að sjálfsögðu mikil kynning og nýjir vegir gerðu svæðið aðgengilegt almenningi en hörmungatúrismi er það engu að síður.

Erindi þessa hörmunga-pistils í blað sem fjallar um málefni hjólreiða er þetta: Meirihluti íbúa landsins býr í það miklu návígi við hörmungasvæði, að hægt er að skreppa þangað á einum degi  á reiðhjóli.  Pípulagnir og önnur mikilfengleg mannvirki Hellisheiðarvirkjunar geta gefið smá gæsahúð en áhrifin aukast við að anda að sér eiturgufum, sé maður heppinn með vindátt, og  hjólar meðfram þjóðvegi nr. 1, sem er lífshættulegt athæfi. Tilefni í tveggja daga túr eða blöndu af bíltúr og hjólatúr er að skreppa og skoða Svartsengisvirkjun og Reykjanesvirkjun. Hjá annarri þeirra er hægt að fá sér bað í affallsvatninu og hjá hinni er mikil fræðslusýning um orkumál og himingeiminn.

Það sem kannski er óhugnanlegast í þessum hörmunga-hjólreiðaferðum,  að mati greinarhöfundar, er að skoða staði sem enn eru meira eða minna heilir en verða það ekki lengi, ef að líkum lætur. Eldvörp er staður sem ætti að vera fyrir jarðfræði- og fegurðartúrisma. Þar er komin ein hávær borholuhörmung og þeim á að fjölga á næstunni (skrifað í ársbyrjun 2014). Tilgangurinn með þeim er að gá hvort ekki skuli reisa virkjun þarna. Krýsuvík hefur svo sem ekki sloppið undan mannanna verkum, en þau eru hégómi einn í samanburði við það sem til stendur að gera þar til að afla raforku. Ekki er nóg með að þessum vinsæla ferðamannastað verði gjörbylt, heldur stendur til að leggja flutningslínu orkunnar yfir einstaklega aðlaðandi útivistarsvæði. Meðfylgjandi mynd er tekin rétt hjá væntanlegu línustæði. Vinstra megin á myndinni eru Sog. Þau eru nokkurs konar vasabrotsútgáfa af líparítlandslaginu í kringum Landmannalaugar. Ekki amalegt að hafa svoleiðis í bakgarði höfuðborgarinnar. Samt er komin borhola þar rétt hjá. Hún er örlítill forsmekkur af því sem kannski verður, því uppi eru áform um orkuver á svæðinu, sem kennt er við Trölladyngju. Í rammaáætlun er sú virkjun að vísu í biðflokki, en núverandi valdaöfl samfélagsins virðast ekki virða það plagg mikils.

Það er skiljanlegt að landsvæðum í nágrenni höfuðborgarinnar og margra stærstu bæja landsins þurfi að fórna. Þau leggja til pláss, byggingarefni, frjósemi og orku. Hversu langt skal ganga, er svo önnur saga. Það að fá sér hjólatúr og gönguferð um hin fögru svæði sem til stendur að umturna er alveg kjörið. Með því má upplifa hinar ýmsu kenndir, eftir því hvernig hver og einn er innrættur: eftirvænting, forvitni, sorg, reiði, undrun, aðdáun, skömm. Hörmungatúrismi hrærir upp í tilfinningunum. Það að drífa sig á vettvang hörmunganna, áður en þær ríða yfir að fullu  eykur enn á upplifunina. Fólk getur náð að upplifa bæði fyrir- og eftir-ferðalög.

Í nýjustu Hjólabók greinarhöfundar er meðal annars lýst nokkrum hringleiðum sem bjóða upp á ágætis hörmungatúrisma.

Fyrir ofan Djúpavatn í Móhálsadal. Rúmlega hálfur sjóndeildarhringur, þannig að Grænavatnseggjar sjást bæði hægra og vinstra megin, fremst á myndinni. Skemmtileg fjallahjólaleið er meðfram Grænavatni en þar er líka væntanlegt stæði raflínu sem flytja skal orku frá Krýsuvík til álversins í Straumsvík.

Birtist fyrst í Hjólhestinum 1 tlb. 23. árg. 2014