Rannsókn og kvenna hjólahvatning í Reykjavík; Fröken Reykjavík hjólar

Samgönguhjólreiðar nefnist fyrirlestur sem fluttur verður á nokkrum völdum kvennavinnustöðum borgarinnar og einnig verður á dagskrá nokkurra valinna leik- og grunnskóla borgarinnar í vor ástandsskoðun reiðhjóla með Dr. Bæk og leiðsögn í hjólfærni á götum úti.

Ástæðan? Samþykkt Borgarráðs frá 8. mars s.l. þegar ferðavenjukannanir í borginni voru kynntar og í ljós kom mikill munur  milli kynja á meðal þeirra sem hjóla árið um kring; 17% karlmenn en aðeins 8% konur. Þar sem þetta bar við á Alþjóðadegi kvenna, var ákveðið að reyna markvisst að breyta þessum kynjamun.

Borgin ákvað að einbeita sér að kvennavinnustöðum borgarinnar og leitaði eftir því við Hjólafærni á Íslandi að móta efni sem gæti haft áhrif á virkar samgöngur kvenna; dregið úr notkun einkabílsins og hvatt konur til þess að hjóla meira í og úr vinnu. Að auki ætlar borgin að leggja sig fram um að bæta aðstöðu við skólana með betri hjólastæðum, mögulegum búningsherbergjum og hver veit nema boðnir verði samgöngusamningar hjá Borginni einn góðan veðurdag?

Framkvæmdastýra Hjólafærni var að leggja drög að  rannsóknarverkefni í meistaranámi þegar Fröken Reykjavík hjólar varð til. Til þess að efla samlegðaráhrif hjólahvatningarinnar óskaði hún eftir að fá að sníða rannsókn sína að verkefninu og mun gera það með samanburðarrannsókn. Þannig verða starfsmenn 20 leik- og grunnskóla beðnir um að svara nokkrum spurningum í febrúar 2013 og aftur í október sama ár. Í millitíðinni fær helmingur skólanna hjólahvatninguna. Með rannsókninni verður leitast við að greina hvort merkjanleg breyting á samgönguvenjum kvenna fylgi fræðslu eins og Hjólafærni hefur skipulagt - umfram þær sem ekki njóta þessarar fræðslu.

Ef niðurstöður lofa góðu, ættum við að horfa til framtíðar og stefna á frekara fræðslustarf af þeim toga sem hér er nefnt. Það er mikilvæg fjárfesting fyrir allt þéttbýli að efla almennar hjólreiðar; það kemur öllum til góða og verður líka skemmtilegt að segja frá  í framtíðinni.