Það var um margt fjallað í Hjólhestinum, fréttablaði ÍFHK, sem kom út í maí 1997. Ekki þóttu yfirvöld standa sig í snjómokstri þann veturinn. Guðrún Þorláksdóttir upplifði sig annars flokks þegar hún ætlaði að leggja gamla hjólgarminum og fá sér almennilegt hjól en var sagt að slíkt væri bara ekki í boði fyrir konur. Við sýndum teygjuæfingar fyrir hjólreiðamenn, fjölluðum um loftgæði og vorum með ýtarlega grein um undirbúning fyrir ferðalög á reiðhjóli.

Hjólhesturinn sjálfur baðaði sig fyrir framan Hjálparfoss í Þjórsárdal og óskaði fólki gleðilegs ferðasumars.

Einnig birtist sex síðna samantekt undirritaðs úr nýju Aðalskipulag Reykjavíkur 1996-2016 sem kom út mánuði áður. Ef hún er lesin í dag má sjá skólabókardæmi um hvernig stjórnmálamenn lofa stundum einu en gera allt annað því ekki fór mikið fyrir efndum eins og ætti að blasa við. Kannski má segja að þetta hafi verið svo framúrstefnuleg markmið að það sé fyrst núna að sjá má borgaryfirvöld vinna eftir sumum þessara markmiða.

Aðalskipulag Reykjavíkur 1996 - 2016 inniheldur fleygar setningar eins og:

„Nú er svo komið, að áhrif umferðar á umhverfið er orðið óviðunandi vandamál í heiminum og til óþæginda fyrir marga borgarbúa. Þörf á að auka umferðarrýmd reynist ómettanleg. Að auki mun aukin umferðarrýmd á götum þar sem loft- og hljóðmengun er þegar of mikil laða að sér meiri umferð og gera ástandið enn verra. Stór umferðarmannvirki og hröð umferð er hindrun fyrir aðra en akandi vegfarendur og öryggi þeirra stefnt í hættu. Það er því orðin almenn skoðun skipulagsfólks í hinum vestræna heimi, að samgöngur framtíðarinnar verði ekki leystar með því að greiða fyrir umferð einkabíla á sama hátt og hingað til. “

„Samkvæmt nýjum áherslum eru aðstæður fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur bættar og vægi þeirra í umferðinni aukið til móts við vægi bifreiða. Unnið er að því að bæta göngu- og hjólreiðaleiðir til þess að hjólreiðar og ganga geti orðið öruggur og raunhæfur ferðamáti á styttri leiðum. “

„Hlutverk stígakerfisins er að tryggja öruggar og greiðfærar leiðir fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur milli heimila, vinnustaða og þjónustusvæða og að tengja saman opin svæði til útivistar “

„Hjólreiðareinarnar verða sérstaklega afmarkaðar brautir á götum þar sem ekki er hægt að koma fyrir sér stígum og á þetta sérstaklega við um miðbæinn.“

Elvar Ástráðsson þýddi hluta úr ferðasögu Marty Basch sem hjólaði hringinn í kringum landið 1996. Einnig var seinni hluti ferðasögu Arnþórs Helgasonar og Elínar Árnadóttur á Orminum langa austur á land.

Merkustu tímamótin eru kannski fréttir af opnun heimasíðu Fjallahjólaklúbbsins sem fór einmitt í loftið um páskana 1997. Sá vefur var unninn í FrontPage næstu tíu árin og má skoða afrit af honum í tímavél internetsins hér: http://web.archive.org/web/19981206223407/http://www.mmedia.is/~ifhk/yfirlit.htm

Blaðið má lesa í upprunalegri útgáfu hér: 

Hjólhesturinn 6. árg. 2. tbl. maí 1997