Að hjóla til og frá vinnu er valkostur sem margir nýta sér, og þarf hvorki að vera erfitt né flókið í framkvæmd. Það eina sem þarf er nothæft hjól, vilji og áhugi.
   Síðastliðið sumar, vikuna 18.-22. ágúst, stóð yfir heilsueflingaverkefnið "Hjólað í vinnuna". Það var keppni milli fyrirtækja á landsvísu, þar sem starfsfólk var hvatt til að hvíla einkabílinn og hjóla í staðinn til og frá vinnu. Meginmarkmið þess var að vekja athygli á hjólreiðum sem heilsusamlegum, umhverfisvænum og hagkvæmum samgöngumáta. Eflaust verður samskonar keppni haldin aftur í sumar. Nánari upplýsingar og myndir má sjá á vefsíðunni:
hjolad.isisport.is  og á dönsku vefsíðunni: www.vicykler.dk

    Hvaða útbúnað þarf til ?

   Gott reiðhjól hæfir líkama hjólreiðamannsins og því verkefni sem nota á það í, að hjóla á milli vinnustaðar og heimilis. Misjafnt er hvað hentar hverjum og einum, sumir sætta sig við hjól sem keypt er í Sorpu eða á uppboði hjá Lögreglunni, meðan aðrir kaupa sér hjól fyrir hundruð þúsunda í bestu hjólabúðum. Gott reiðhjól er þó mun þægilegra en einhver drusla, hér fara oftast saman verð og gæði og góð reiðhjól eru keypt hjá fagaðilum, hjólabúðum, en ekki byggingavöruverslunum eða matvörumörkuðum.
   Ekki er nauðsynlegt að eiga sérstök hjólaföt, en réttur fatnaður gerir hjólreiðarnar miklu þægilegri. Við val á fatnaði kemur margt til greina, gott er að fá upplýsingar hjá þeim sem reynslu hafa varðandi hentugan hjólaklæðnað. Reiðhjólahjálm ættu allir að nota.
   Góðar ráðleggingar um val á reiðhjóli má finna hér  Einnig á spjallsíðu Íslenska Fjallahjólaklúbbsins eða á opnu húsi klúbbsins á fimmtudagskvöldum milli kl 20-23, að Brekkustíg 2, Reykjavík. Í fréttabréfi Íslenska Fjallahjólaklúbbsins, Hjólhestinum, má einnig lesa um reynslu þeirra sem hjóla í vinnuna.

hjólaskýli   Aðbúnaður á vinnustað

   Aðbúnaður fyrir hjólreiðamenn á vinnustað er oftast lélegur hérlendis. Hvorki er gert ráð fyrir geymslu reiðhjóls, né aðstöðu til fataskipta eða geymslu fata. Aðstaða til fataskipta er þó á flestum vinnustöðum þar sem krafa er gerð um sérstakan vinnuklæðnað. Nýlegir vinnustaðir eru jafnvel með sturtuaðstöðu fyrir starfsfólk. Sumir eru svo heppnir að geta hjólað í sömu fötum og þeir klæðast í vinnunni, eða verið í vinnufötum yfir hjólafötin.

    Best er að geyma reiðhjólið í góðu skjóli fyrir vatni og vindum. Nauðsynlegt er að læsa hjólinu tryggilega við jarðfastan hlut, eða geyma það á öruggu svæði. Vaktaðar bílageymslur, kjallarar eða lagerpláss, hita og sorpgeymslur, á hverjum vinnustað má finna einhvern hentugan stað fyrir reiðhjólið. Örfáir vinnustaðir hafa hugsað fyrir þörfum hjólreiðafólks, þegar kemur að geymslu reiðhjólsins.

hjólageymsla   Á næstum öllum vinnustöðum er hægt að leysa fataskipta- og hjólageymslumál. Góður almennur aðbúnaður á vinnustað laðar að gott starfsfólk og eykur ánægju þess sem fyrir er, þar af leiðir betri og meiri árangur. Fjárfesting atvinnurekenda í aðbúnaði á vinnustað skilar því oft meiru en launahækkun, er auk þess eingreiðsla í rekstri og frádráttarbær til skatts.

    Hver er ávinningur þess að hjóla til vinnu ?

   Kostir þess að hjóla til vinnu eru margir, bæði fyrir vinnuþega og vinnuveitanda. Hjólreiðar eru holl hreyfing og útivist með hæfilega áreynslu. Með því að hjóla til og frá vinnu verður holl hreyfing hluti af daglegu lífi. Af því leiðir aukin lífsgæði, svo sem betri andleg og líkamleg heilsa. Slíkt þýðir t.d. færri fjarvistir frá vinnu vegna veikinda.
   Hjólreiðamaður þarf minna pláss í umferðinni en einkabíll og ekkert bílastæði, þess vegna er meira pláss fyrir hina sem ekki hjóla. Þetta leiðir af sér minni umferðatafir og leysir bílastæðavandamál. Hjólreiðar eru því afar góður valkostur fyrir starfsfólk vinnustaða sem glíma við ofangreind bifreiðavandamál, t.d. Landspítala og Háskóla Íslands.
   Fjárhagslegur ávinningur er einnig nokkur. Arðsemi af fjárfestingu í reiðhjóli má reikna á ýmsa vegu. Þeir heppnustu geta sparað með því að reka einn bíl í staðinn fyrir tvo á heimili, aðrir geta sparað kostnað vegna strætóferða, eða sparað kostnað vegna hvers ekins kílómetra fjölskyldubílsins. Sumir fá greidda fasta launauppbót vegna áætlaðra akstursferða til og frá vinnu. Hvernig sem reiknað er, þá er ljóst að kaup og rekstur á reiðhjóli til að hjóla í og úr vinnu skilar sér fljótt peningalega.

Hjóla eftir götu

   Að byrja að hjóla til vinnu.

   Fyrst þarf að finna hentuga leið, og hún getur oft verið önnur en sú sem við förum á einkabíl, stundum jafnvel fljótfarnari.
   Því miður eru ekki neinar eiginlegar hjólreiðabrautir til á Íslandi ennþá, þannig að hjólandi vegfarandi verður að nýta sér sambland af stígum og leiðum fyrir gangandi fólk jafnt sem akbrautir. Gott er að kynna sér stíga og gönguleiðir á þeirri leið sem getur hentað að hjóla. Í Reykjavík er hægt að fá kort hjá Borgarskipulagi sem heitir "Útivistar- og göngustígar" og eins og með aðra þætti hjólreiða, þá er gott að fá upplýsingar hjá þeim sem reynslu hafa.
   Að vita áætlaðan ferðatíma á reiðhjóli er nauðsynlegt, því ekki viljum við koma of seint til vinnu. Gott er að mæla tímann sem ferðin tekur, á frídegi við góðar aðstæður. Oftast reynist sá tími ótrúlega stuttur og ferðin frekar auðveld.
   Mikilvægt er að byrja rólega, að hjóla í vinnu á ekki að vera hraðakeppni, að minnsta kosti ekki í byrjun, slíkt má reyna seinna. Markmiðið er, dagleg holl og skemmtileg hreyfing, jafnvel að gera hjólreiðarnar smásaman að daglegum hluta í lífi okkar.

hjólahópur   Hvatning til frekari dáða.

   Afar mikilvægur þáttur í því að hjóla til vinnu er hvatning (motivation). Hvati til að halda áfram að hjóla, og hjóla meira.

   Gott er að setja sér markmið, einhver létt og góð markmið í fyrstu, t.d. að hjóla alltaf í góðu veðri fyrsta sumarið eða fyrstu mánuðina. Nota bílinn við aðrar aðstæður. Eða hjóla í vinnu og strætó heim eða far með vinnufélaga, og svo öfugt næsta dag. Einnig er gott að hafa ákveðna hjóladaga, og aðra hvíldardaga. 

   Einnig er hægt að setja sér það markmið að hjóla ákveðið lágmark kílómetra á viku eða mánuði. Skemmtilegt er að halda í fyrstu dagbók yfir hjólaðar ferðir. Slíkt þarf ekki að vera flókið, venjulegt einfalt dagatal dugar. Gera eitt strik við hvern dag sem hjólað er í vinnu, tvö strik þegar hjólað er bæði í og úr vinnu. Í lok vinnuviku eða mánaðar má svo telja hjólaðar ferðir og þá vitum við einnig áætlaða hjólaða vegalengd. Svona dagbókafærslur eru afar hvetjandi.
   Fyrir þá sem hafa gaman af flóknari færslum má færa inn í sérstaka bók, eða tölvufæra, upplýsingar um veður, tíma sem ferðin tók, bætt áhrif á heilsufar og fleira. Með góðum hraðamæli á reiðhjólinu má færa inn enn frekari upplýsingar, meðalhraða, hámarkshraða, jafnvel upplýsingar um hjartslátt hjólreiðamannsins !
   Sparnaður er hvatning, beinn fjárhagslegur sparnaður gerir fljótt vart við sig, einnig þó kostnaður vegna bifreiðanotkunar hafi verið lítill. 
   Þeir sem fóru áður fótgangandi finna strax tímasparnað, auk þess sem áreynsla á stoðkerfi líkamans er minni við hjólreiðar en göngu.
   Líkamlegur ávinningur kemur fljótlega í ljós, og er góður hvati. Vöðvar stækka og styrkjast, nýir koma jafnvel í ljós. Þeir sem eru of þungir líkamlega komast fljótlega í kjörþyngd. Reglubundin hreyfing þess sem hjólar í vinnuna veitir einnig létta lund.
   Fjölbreytni er góð hvatning, að hjóla ekki alltaf sömu leið, sé slíkt mögulegt. Jafnvel að samræma ýmsar útréttingar, svo sem búðarferðir, hjólaferð til og frá vinnu.
   Betri búnaður er einnig hvati. Að fjárfesta í betra og fullkomnara reiðhjóli, töskum eða hjólafatnaði eftir því sem geta og löngun eykst. Með réttum búnaði og í góðri þjálfun er hægt að hjóla við næstum hvaða aðstæður sem er, og fara létt með það.
   Hluti af betri búnaði, og góður hvati, er vasaútvarp með heyrnatólum sem stingast í hlustir. Muna að stilla styrk útvarpsins þannig að það trufli ekki einbeitingu gagnvart annarri umferð.

   Fleiri tillögur til hvatningar.

   Ef fleiri hjóla á þínum vinnustað er auðvitað tilvalið að skrá sig í keppnina "Hjólað í vinnuna." Að gerast félagi í hjólreiðaklúbbi, eða stofna sjálfur einn slíkan getur verið gagnlegt, jafnvel að stofna hjólreiðafélag innan vinnustaðar. Öll slík félagastarfsemi er góður hvati, og gefur margvíslegan ávinning. Lærdómur af reynslu annarra, viðgerðarkvöld, upplýsingar um hjólreiðatækni eða útbúnað, skipulag hjólreiðaferða, uppskeruhátíða, og annarra skemmtana.
   Svo er bara að drífa sig af stað, þú getur líka hjólað í vinnuna.

   Heimir H. Karlsson.

Pistillinn birtist í Hjólhestinum 1.tlb. 13. árg.
© ÍFHK 2004