post5w.jpg... Lazy-Boy hjólreiðamannsins

Í flestum borgum Evrópu eru menn farnir að sjá að einkabílavæðingin hefur gengið sér til húðar því að hún hefur eyðilagt alla vistvæna þróun í borgum. Víða hafa borgaryfirvöld því gripið til þess ráðs að reyna sporna við þeirri þróun. Þannig hafa t.d. yfirvöld sums staðar gripið til sérstakrar skattlagningar stórra bíla eða lagt á vegtolla í sum borgarhverfi, lokað fyrir umferð bíla og bætt almenningssamgöngur.

Samhliða því hafa flestar borgir lagt sýnilegar og nothæfar hjólreiðabrautir til að lokka sem flesta til að fara allra ferða sinna á reiðhjóli.  En reiðhjól eins og við þekkjum þau henta ekki öllum. Mörgum finnst óþægilegt að ferðast á þeim og hafa því ekki treyst sér til að nota þau nema að takmörkuðu leyti.  Ástæður geta verið margar, t.d. nára- eða bakverkur.

Giant Revive Ýmis smáfyrirtæki hafa boðið upp á margar spennandi lausnir, ekki aðeins fyrir þá sem eiga erfitt með að hjóla á klassísku reiðhjóli heldur líka fyrir þá sem vilja geta sest á góð hjól og virkilega látið sér líða vel.  Í þessum flokki teljast Recumbent reiðhjólin [letihjól/ sethjól] sem til eru í svo fjölbreyttum útgáfum og gerðum að ALLIR ættu að geta fundið sér reiðhjól við hæfi. Ein tegund þessara reiðhjóla er stundum kölluð "Easy Rider".  
Þessi hjól hafa það fram yfir venjulegt reiðhjól að ákaflega þægilegt er að sitja á þeim. Hjólið ber mann þægilega á milli staða eins og maður sæti í "Lazy Boy" stól.  Eina sem þarf að gera er að spyrna fram fótunum og hjólið líður áfram eins og töfrateppi. Er það nokkur tilbreyting frá hinu hefðbundna reiðhjóli þar sem spyrna þarf niður fótunum, ríghalda í stýrið með uppsveigðan háls og alla vöðva spennta. Eitt þessara hjóla er Giant Revive sem risaframleiðandinn Giant, hefur framleitt nú í tvö ár. Sífellt fleiri telja að hér sé komin ný kynslóð reiðhjóla sem mun taka mikið pláss í reiðhjólaverslunum framtíðarinnar.
Nokkur fyrirtæki hafa reynt í mörg ár að koma svona reiðhjólum á markaðinn en aldrei tekist að fullu því markaðurinn er lítt gefin fyrir róttækar breytingar. Í því sambandi verður að nefna fyrirtæki eins og Sprint, Equinox, Boma, Zzipper og Phoenix sem aðallega hafa selt sína framleiðslu í Evrópu þar sem hjólreiðar sem samgöngutæki eru rótgrónar menningunni. Það er því fagnaðarefni þegar framleiðendur eins og Giant hefja framleiðslu á þessum hjólum. Markaðsetning stóru framleiðendanna er mun áhrifaríkari en þeirra smáu sem aðallega hafa nýtt sér internetið til kynningar.

 Frábært reiðhjól
En snúum okkur nú að Giant Revive 8. Hafa ber í huga að Revive er valkostur en ekki eitthvað sem kæmi í staðinn fyrir venjulegt reiðhjól s.s fjallahjól. Grindin er úr 6061 áli og framgaffallinn Hi-Ten stáli. Hjólið hefur þriggja tommu fjöðrun að aftan en enga að framan. Það gerir í sjálfu sér ekkert til þar sem mest allur líkhamsþunginn hvílir á afturgafflinum.

Giant Revive

Afturdemparinn er gormur með stillanlegri olíudempun. Hjólið er með 8 gíra Shimano og SRAM skiptingar. Kemur það fullbúið á götuna með brettum, keðjuhlíf, bögglabera og standara. Hjólið er til sölu í versluninni Markinu á 66 þúsund krónur, og er fáanlegt bæði í svörtum og rauðum lit.

Giant Revive Þetta er ódýrasta hjólið af þessari gerð sem Giant framleiðir enda búnaðurinn af ódýrustu gerð. Allt virkar þó afbragðs vel. Gírar og bremsur sýndu vart nokkurt feilspor og var það eftirtektarvert hvað bremsurnar virkuðu vel. Eini gallinn var sá að gírarnir buðu vart upp á meiri hraða en 30 km. Stafar það af því að hjólið er á 20 tommu dekkjum, afturkransinn er 12-25 tennur og sveifartannhjólið aðeins 48 tennur. Þetta er reyndar galli sem á við svo gott sem öll ný reiðhjól í dag.
Framleiðendur óttast lögsóknargleði almennings, ekki síst í Bandaríkjunum ef hjólið kemst of hratt og slys verða. Það er því á ábyrgð eiganda hjólsins ef hjólinu er breytt.
Að sama skapi eru lágir gírar hentugri fyrir byrjendur hjólreiða. Fyrir vana hjólreiðamenn væri því mun betra ef afturkransinn væri t.d. 11-25T og sveifartannhjólið væri 53T.

AfturdemparinnAfturdemparinn svínvirkar á þessu hjóli. Þegar opnað er fyrir olíuna þá tekur gormurinn við öllum ójöfnum, stórum sem smáum. Ótrúlegt en satt. Ójöfnurnar á gangstéttum borgarinnar geta því hreinlega orðið skemmtilegar þegar þeyst er eftir stígunum á Revive hjólinu.
Minnti það greinahöfund á ferðalag sem hann átti um götur Kópavogs í Citroen bragga fyrir nærri 30 árum. Þar hossaðist skrjóðurinn upp og niður á feiknarstórum og endalausum þvottabrettum svo manni datt aðeins eitt í hug, "Love Machine". En demparinn á Giant Revive virkar mun betur en undir Citroen druslunni, jafnvel á mýkstu stillingu og því er minni hætta á að hjólreiðamaður missi stjórn á hjólinu í ójöfnum. Gallinn er hins vegar sá að þegar klífa á brekkur þá þarf gormurinn að vera stífur svo hjólið dúi ekki undir sveifarsnúningnum. Flestir munu því finna sína kjörstillingu á demparanum svo ekki þurfi stöðugt að stíga af hjólinu til að stilla hann.
Bretti, bögglaberi, keðjuhlíf og pedalar hjólsins taka mið af því að prúðbúið fólk í lakkskóm getur óhikað skutlað sér á milli staða á hjólinu, í fimmtugsafmælið eða í vinnuna í stjórnarráðinu án þess að þurfa að klæðast sérstökum hjólreiðafatnaði.
Fyrir vana hjólreiðamenn þá væri mun skemmtilegra að skipta út pedölunum í smellupedala.Þá komum við að því sem gerir þetta hjól að einstöku hjóli. Fyrir Giant er framleiðslan ekki kostnaðarsöm því ein strærð passar fyrir alla. Hjólið hentar því vel allri fjölskyldunni, allt frá 7 ára til afa og ömmu.
Með aðeins einni hraðlæsingu er hægt að færa stýrið fram og aftur, upp og niður. Á sætinu eru svo þrjár stillingar. Ein til að hækka og lækka hnakkinn sem er breiður sem stóll. Rennur hann þar á þar til gerðum sleða. Giant Revive

Önnur stilling er til að stilla hallann á hnakknum og sú þriðja er til að hækka og lækka sætisbakið. Það er því alveg ljóst að á þessu hjóli getur enginn sagt: "Mér þykir óþægilegt að hjóla!" Eftir að búið var að stilla hjólið fór það afskaplega vel með líkamann. Bakið fékk góðan stuðning auk þess sem demparinn hlífði hryggjarsúlunni. Af þessum ástæðum þurfa fæstir aðlögunartíma til að venjast hjólinu. Öllum þykir þægilegt og gaman að hjóla á því.
Hjólið er hannað fyrir hjólreiðabrautir Evrópu. Það hentar ekki sérlega vel í bílaumferð á akvegum, sérstaklega ekki hér á Íslandi þar sem ökumenn verða oft taugaveiklaðir í námunda við hjólreiðamenn.

stillanlegur hnakkur

Revive hjólið er hinsvegar eitt fárra "Recumbent" hjóla sem henta vel íslenskum veruleika. Ástæðan er sú að hjólið hefur ekki sama upptak úr kyrrstöðu eins og venjulegt reiðhjól. Það getur því skapast taugaveiklun við umferðarljós ef ökumenn ná ekki stunda sína spyrnukeppni.
Hér á landi gildir það eitt að sjást og geta séð þar sem ökumenn hafa því miður ekki vanist hjólreiðamönnum á akvegum. Því þurfa reiðhjól helst að vera þannig úr garði gerð að hjólreiðamaður sitji ofar en meðal ökumaður svo hann sjáist. Þessu fylgir sá galli að ekki er auðvelt að kljúfa mikinn mótvind. Þetta ástand takmarkar líka notkun "Recumbent" reiðhjóla, sem flest eru sérhönnuð til að fara hratt og kljúfa vind sem best. Því verða þeir sem vilja lágreist "Recumbent" hjól að bíða eftir hjólreiðabrautunum eða taka mikla áhættu í umferðinni. En þó Revive hjólið virki ekki vel í mótvindi þá er það þeim mun öruggara í bílaumferð og hentar vel á göngustígum íslenskra þéttbýlisstaða.

Annað og enn betra
Þó úti sé veður vont þá verður ekki allt að klessu. "Recumbent" heimurinn er fullur af skemmtilegum lausnum því þeir sem hafa afgreitt bílinn sem úrelt apparat hafa leitað ýmissa leiða til að auðvelda sér hjólreiðarnar. Þannig má panta á netinu Zzipper vindhlíf ( www.zzipper.com ) sem passar á flest "Easy rider" hjól. Með þessari gegnsæju vindhlíf má kljúfa vindinn mun betur og hlífa knapa fyrir ofankomu.
Eins og fyrr segir er Revive 8 sem Markið selur, ódýrasta hjólið frá Giant. Dýrari hjólin hafa sömu grind en betri búnað svo sem lokaðan keðjukassa sem gæti lengt líftíma drifbúnaðarins um mörg ár. Besta hjólið prýðir svo nýja Nexus 8 gíra nafið, lokaðar keflabremsur, 6 volta nafrafall og ljós.
Það er engin spurning. Þetta er hjól sem fólk ætti virkilega að spá í. Þetta er ekki bara eitthvert grín. Það opnar nýjan heim fyrir marga sem fram til þessa hafa ekki getað hjólað á venjulegu reiðhjóli. Fyrir aðra er þetta skemmtilegur valkostur með hefðbundnu reiðhjóli. Hættan er hins vegar sú að "venjulegu" hjólin verði þá skilin útundan.
Magnús Bergsson

© Hjólhesturinn 1. tlb. 14. árg. 2005