Á GÖTUNNI ERUM VIÐ SÝNILEG
   Það var eftir tvö alvarleg umferðarslys á gangstéttum borgarinnar að mér varð ljóst að ég varð að breyta ferðavenjum mínum. Það gekk ekki upp að þeytast um á 30 km hraða eftir stígum sem vart eru hannaðar fyrir 5 km hraða.
   Á stígunum var og er fullt af fólki, hundum, skiltum, kröppum beygjum, staurum, innkeyrslum og inngöngum húsa, ruslatunnum, blindhornum, skurðum, skyndilegum mishæðum, slám, strætisvagnaskýlum, köntum, bílum og glerbrotum.
   Svo þegar þvera átti akveg þá tróðu ökumenn á rétti mínum eins og ég væri ekki til ... eða á ég nokkurn rétt á þessum stað?


 

syn_dan_w.jpg
Sýnilegir hjólreiðamenn á götum Danmerkur

   Ekki leið sá dagur að mér rann ekki kalt vatn milli skinns og hörunds þegar nærri lá við slysi. Ég var í stöðugri vörn á ferðum mínum um borgina, auk þess sem það tók orðið nokkuð langan tíma að koma sér á milli staða.
   Ég man vel hversu auðvelt það var að hjóla um borgina fyrir aðeins um 20-30 árum þegar bannað var að hjóla á gangstéttum. Flestir sem staðið hefðu í mínum sporum hefðu séð þann kost vænstan að hætta að hjóla og farið að nota bíl. En ég ætlaði ekki að gefast upp.
   Þá voru allar leiðir greiðar á akvegum og valið bara eitt, að vera á akvegum sem alltaf voru tryggilega greiðir. Síðan komu nýir göngu- og útivistarstígar samhliða stækkun borgarinnar og ég taldi mér trú um að borgin væri líka að gera það fyrir okkur hjólreiðafólkið.
   Ég fór því að nota stígana til samgangna samtímis sem bílum fjölgaði á götunum. Ég taldi það til hagsbóta fyrir hjólreiðamenn ef sem flestir notuðu göngustígana því þá væri von á einhverjum úrbótum.

   En það leið varla sá mánuður að mikilvægir stígar voru ekki grafnir fyrirvaralaust í sundur eða hurfu, sumir um margra mánaða skeið, oftast nær vegna þess að verið var að þenja út akbrautakerfið. Mér varð því smám saman ljóst að enginn opinber aðili var að hugsa um hag hjólreiðamanna enda datt engum þeirra í hug að nota stígana eða kynna sér málið. Það keyrði svo um þverbak, þegar borgin klúðraði hönnun göngustíganna við gatnamót Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar.

Hj_go_gull_lokad.JPG
"LOKAD - VARÚÐ - HÆTTA" Gullinbrú lokuð. Hvar er hjáleiðin?

   Þar var heilt sumar verið að setja niður gangbrautir að breskri fyrirmynd sem er svo vitlaus, að tuttugu ára vonarneisti um úrbætur varð að engu, en í Bretlandi eru hjólreiðar bannaðar á gangstéttum auk þess sem þar er vinstri umferð.
   Allir sem um þessi gatnamót fara þekkja þetta klúður en það ber öll merki þess að borgin hafi fram til þessa ekki verið að hugsa um hag hjólreiðafólks.
   Slysin fyrrnefndu, þetta klúður sem og önnur stígaklúður yfirvalda hafa orðið til þess að ég er aftur farin að hjóla á götunni.

hj_go_Thyskhj_1994.JPG
HJÁLEIÐ! Í Þýskalandi kunna menn til verka. Fótgangandi og hjólandi fá öryggistilfinningu þrátt fyrir nálægð við mótorumferð.

   Ég ætla ekki lengur að stunda "safarí hjólreiðar" á göngustígum við hliðina á götum sem alltaf eru greiðfærar jafnvel á álagstímum. Samkvæmt umferðarlögum á ég fullan rétt á því að vera á götunni á meðan ég fer eftir umferðalögum. Ef yfirvöld hafa einhvers staðar haft hugann við uppbyggingu samgangna þá eru það bílvegir. Þar get ég farið eftir vitrænum umferðarlögum, þar er alltaf greiðfært, gott svigrúm og engin glerbrot og lítið um lausan sand. Áður fyrr tók það mig 40-45 mínútur að fara að heiman frá mér á göngustígum í klúbbhúsið. En á akbrautunum tekur það 

hj_go_mikl_2001.JPG
Hvar er hjáleið?! Stígur grafinn 
fyrirvaralaust í sundur Miklabraut 2001.

aðeins 12-17 mínútur. Ég þarf ekki að hafa það á samviskunni að limlesta fleira fólk á gangstéttunum eða fljúga á hausinn í lausasandi. Ég hef betra útsýni og heyrn en margir bílstjórar og því að mörgu leyti öruggari í vegkantinum en á gangstéttum.
   Vegna rangrar hönnunar umferðarmannvirkja á Íslandi, þá miðast allt við að allir séu á bílum. Ökumenn fylgjast því ekki með umferð sem kemur eftir göngustígunum og varúðarreglan við gangbrautir er yfirleitt á kostnað gangandi vegfarenda. Það eru þeir sem verða að vara sig á meðan ökumenn þurfa ekki að hafa hugann við annað en það sem gerist á akbrautunum. Göngustígar eru EKKI hannaðir með hjólreiðar í huga og á þeim ríkja handahófskenndar umferðarreglur.
   Lagasetningin um að leyfa hjólreiðar á gangstígum fyrir rúmum tuttugu árum var afskaplega illa unnin. Í hana vantaði alla framtíðasýn sem þá og nú hrópar aðeins á endurskoðun.
   Gott dæmi um þetta eru gangstéttirnar meðfram Langholtsvegi. Þar eru um 300 inngangar og innkeyrslur að húsum, mikill hluti þeirra blindhorn. Þá eru ekki meðtaldir ljósastaurar, skilti og strætisvagnaskýli, sem nær undantekningarlaust eru á þröngri gangstéttinni. Þetta er gata þar sem fyrir löngu ætti að vera komin hjólreiðabraut því að miklum hluta er hún innan 30 km hverfis. Það vill væntanlega engin hjólreiðamaður limlesta manneskju sem skyndilega kemur úr húsi sínu við þessa götu. Það er líka mikil hætta á því að hjólreiðamaður verði fyrir bíl sem kemur úr innkeyrslu þvert yfir gangstéttina.
   Ráðamenn ríkis og sveitarfélaga sem sjá heiminn í gegnum jepparúður sjá okkur ekki pukrast eftir göngustígum - þeir eru of uppteknir af því að fylgjast með því sem er að gerast á götunum. Það er vandi hjólreiðafélaganna sem berjast fyrir bættum samgöngum, að ráðamenn halda að við séum ekki til og því þurfi ekki að eyða fé í þennan málaflokk.
   Samkvæmt talningu sem fór fram um veturinn 2002, þá eru u.þ.b. 1.000 hjólreiðamenn á ferðinni dag hvern og þá líklega helmingi fleiri á sumrin. Þetta er mikill fjöldi miðað við hvað illa er búið að hjólreiðamönnum.
   Fyrir sambærilegan fjölda bíla myndu stjórnvöld grafa göng í gegnum fjöll fyrir milljarða.
Ef brot af þeim fjármunum væru settir í hjólreiðabrautir á þéttbýli þá myndi mikið sparast, s.s. minna slit akvega, bætt heilsa almennings og minni loft- og hávaðamengun. Við verðum að vera sýnileg svo allir viti að við séum til.
   Það gerum við best með því að hjóla á akvegum. Þar sjá okkur flestir, líka ráðamenn sem fara þá að leiða hugan að úrbótum. Höfum reiðhjólið í lagi og notum öryggisbúnað. Það er ekki hættulegra að hjóla í vegkantinum í dag heldur en fyrir 30 árum þegar bílar voru fjórum sinnum færri, því stjórnvöld hafa alla tíð hugsað vel um bíleigendur og þanið út vegakerfið í samræmi við fjölgun þeirra.
   Kynnið ykkur málið á vefsíðum Landsamtaka hjólreiðamanna, lhm.is . Þar má finna: Athugasemd við umferðaröryggisáætlun í greinasafni, merkt 28. febrúar 2004 og kynna sér stórgallaða samgöngustefnu ofl.
   Einnig má benda á vefsíðuna www.bicyclesafe.com  sem kennir hjólreiðamönnum að varast hefðbundnar hættur í umferðinni. Það á ekki að vera meira mál að hjóla á akvegum hér á landi en í öðrum löndum. Við höfum meiri rétt þar en á gangstéttum.
   Magnús Bergsson www.icebike.net 

hj_go_Muenchen_w.jpg

München: 
Fyrir og eftir að gert var ráð fyrir hjólreiðum sem samgöngtæki í smgönguskipulagi.

 

Hjólhesturinn 1. tbl. apríl 2005
© ÍFHK 2005