Meðal helstu markmiða bæði Fjallahjólaklúbbsins og LHM er að auka reiðhjólanotkun og standa fyrir útgáfu- og fræðslustarfsemi og hefur það verið gert með stæl. Tvö síðustu ár gáfum við út hjólreiðabæklinga í samtals 24.000 eintökum sem dreift var samhliða Hjólað í vinnuna keppninni og verður restinni dreift á þessu ári. Þar var áherslan á að ná til þeirra sem voru að prófa í fyrsta skipti að hjóla reglulega til vinnu, auka öryggi þeirra með fræðslu um tækni samgönguhjólreiða og kveða niður sumar af þeim mýtum sem tengdar eru hjólreiðum og fæla suma frá þeim, einnig var fjallað um ótal kosti hjólreiða.

Undirritaður ritstýrði báðum bæklingunum og setti einnig efnið á vefinn hjólreiðar.is. Sá vefur hefur nú fengið andlitslyftingu og verður heimili cycle chic á Íslandi með tilheyrandi myndabloggi og umfjöllun um ýmislegt sem gerir lífið skemmtilegt.

Cycle chic (sækúl shjík) byrjaði með einni mynd Mikael Colville-Andersen sem vakti mikla athygli honum að óvörum. Myndin var ósköp venjuleg í hans augum, hún sýndi konu í pilsi og kápu, með handtöskuna sína á bögglaberanum stoppa við gangbraut. Ekkert óvanaleg sjón í Kaupmannahöfn en þeim mun óvenjulegri í augum þeirra sem búa í löndum þar sem hjólreiðar eru jaðarsport en ekki venjulegur samgöngumáti, þar sem hefur gleymst að það er ekkert flókið að hjóla, það þarf ekki að klæðast sérstökum búningi, og það má hjóla á allskonar hjólum. Fólk í Kaupmannahöfn skilgreinir sig ekki sem hjólafólk þó það hjóli flestra sinna ferða. Það er bara venjulegt fólk í sínum venjulega fatnaði að sinna sínum venjulegu ferðum með því farartæki sem best hentar.

1997 byrjaði hann með myndablogg á vefnum copenhagencyclechic.com sem fljótlega vakti heimsathygli. Þar sýnir hann hvernig danir koma á hjólinu eins og þeir eru klæddir, hvort sem þeir eru á leið í vinnuna eða dressaðir upp á leið á ball. Í dag eru á sjötta tug myndabloggsíðna um allan heim sem kenna sig við cycle chic og ótal aðrar í sama anda.

Á hjólreiðar.is er ætlunin að reyna að sýna að íslendingar hjóla líka með stíl.

Myndirnar hér tók ég í Reykjavík frá júlí til október 2011.

 

hjolhestur2012-1-web_Page_15.jpg

 

Hjólhesturinn, mars 2012