Eftirfarandi eru glefsur úr framlagi Súsönnu Svavarsdóttur til íslenskrar kvennabaráttu sem birtist í því annars ágæta blaði: Vera „blað kvennabaráttu“, mars 1996 sem gefið er út af Samtökum um kvennalista.

„... ómetanlegur kostur er hæð hans. Það er hreint ótrúlega þægilegt að þurfa ekki að troðast, beygja sig og bogra við að koma krökkunum fyrir í sætunum og spenna á þau beltin. Bara standa í réttstöðu og framkvæma alla þessa hluti án þess að skekkjast, reka sig í, lemstrast eða eyða dýrmætri orku í fremur óeðlilegar hreyfingar. Ég get ekki að því gert að velta því fyrir mér hvað hægt er að spara mikil ríkisútgjöld við það að konur, almennt, ækju um á Grand Cherokee Limited. Allur sá kostnaður sem er vegna vöðvabólgu og tognunar... og almenns slits á líkamanum. Það er eiginlega skammarlegt að það skuli vera 75% tollur á bíl sem er svo öruggur og lætur svo vel að stjórn -þ.e.a.s. er svo stöðugur og hefur svo gott viðbragð - að líklega myndi umferðaróhöppum fækka til verulegra muna. Þar mætti nú aldeilis spara líka.“

„Ekki lítið atriði er rafmagn í rúðum og rafstýrðir, upphitaðir hliðarspeglar. Það þarf ekki að mausast við það í alllanga hríð að skafa burtu snjó og frost. Það þýðir minni hætta á að ofkælast - sem hefur nú verið all stórt vandamál í heilsufari landsmanna þetta misseri. í heildina má segja að það væri stór sparaaður af því að fella alla tolla niður af þessum bíl til að spara í heilbrigðis- og tryggingarmálum... þó er ég ekki farin að tala um þá sem örkumlast vegna þess að þeir keyra á vegum og götum í alls konar dósum sem ekki ætti að fást leyfi fyrir við íslenskar aðstæður.“

[Bíllinn er útbúinn með] „áttavita (sem er nauðsynlegt því auðvitað er maður töluvert mikið úti að aka í svona bíl), aksturstölvu og lesljósum (góður vinnustaður). Ef þeir setja míkróofn í næstu árgerð, gæti maður búið í bílnum allan ársins hring. Fá rúm eða sófasett eru eins þægileg og sætin (rafinagnshituð, svo ekki er hætta á að vöðvabólgan plagi mann og maður fær enga reikninga frá Hitaveitunni), sem eru leðurklædd.“

„Halló! Þið stjórnvöld þarna úti í þokunni! Væri ekki ráð að fella niður tolla af þessum bíl sem er eina vitið í þessu landi. Þetta er ekki forstjórabíll til að glenna sig og monta á... heldur konubíll og mömmubíll og barnabíll.“

„Og Grand Cherokee misbýður fegurðarskyni manns hvergi.“

Einni konu í ÍFHK var hins vegar misboðið við lestur þessarar vitleysu í „blaði kvennabaráttu“, hringdi til þeirra og kvartaði. Henni var tjáð að þessi grein væri í raun auglýsing. Hún sagði síðan upp áskriftinni þegar kom í ljós að þetta ætti að verða reglulegur dálkur í Veru.

Mér kom þetta ekki jafn mikið á óvart því fyrir síðustu kosningar til Alþingis sat ég fund FÍB með fulltrúum allra stjórnmálaflokka þar sem rædd var stefna þeirra í skattlagningu bíla. Meðan allir aðrir voru á því að draga bæri úr umferð og tilheyrandi mengun og slysakostnaði, stóð fulltrúi Kvennalistans í pontu og hneykslaðist á ofsköttun stórra bíla. Með misháum sköttum væri fólk neytt til að aka um í „yfirbyggðum skóhlífum“. Hún ætlaði að beita sér fyrir því að allir hefðu efni á „almennilegum jeppum“ ef hún yrði kosin á þing, -sem hún var ekki.

Hér eru tvær tölur sem Súsanna virðist ekki þekkja: Kostnaður vegna slysa í umferðinni er áætlaður um 18.000.000 kr. Kostnaður vegna ofkælingar við að skafa snjó af rúðum 0 kr. Halló! Þú Súsanna þarna úti í þokunni! Stöðvaðu nú jeppann snöggvast, kveiktu á lesljósinu og lestu stefnuskrá Kvennalistanns í umhverfismálum:

„Maðurinn er órjúfanlegur hluti náttúrunnar. Um aldir hafa menn þó afneitað þeirri staðreynd en reynt að upphefja sjálfa sig á kostnað jarðar, reynt að sigrast á náttúrunni og undiroka hana. Ríkjandi viðhorf tækniþjóðfélagsins fela ekki í sér viðurkenningu þess hvað menn eru háðir náttúrunni...“

„Of margir trúa á þá blekkingu að hægt sé að ráða yfir náttúrunni og stjórna henni. Þeir horfa á land, loft og haf mengast, fuglasöng hljóðna og umhverfi eyðileggjast og neita að sjá þetta sem fyrirboða eigin háska. Gróðurhúsaáhrif og óskynsamleg orkustefna mannkynsins eru gott dæmi um þetta. En umhverfisvandinn stafar ekki af því að við kunnum ekki að stjórna náttúrumi, heldur af því að við kunnum ekki að stjórna okkur sjálfum. Lausn vandans er fyrst og fremst sú að við ræktum á ný tengsl okkar við náttúruna og viðurkennum manninn sem hluta hennar. Við verðum að læra að virða og beygja okkur undir lögmál náttúrunnar og láta þá virðingu koma fram í öllum okkar verkum og athöfhum.“

„Umhverfismál á Íslandi eru í miklum ólestri... Skynsamleg nýting auðlinda í anda sjálfbærrar þróunar, endurheimt landgæða, flokkun og endurvinnsla sorps, hreinsun frárennslis og gætileg umgengni um viðkvæma náttúru landsins eru brýnustu verkefnin.“

„Umhverfisspjöll, mengun, stríðsátök og ójöfnuður ógna öllu lífi á jörðinni. Kvennalistinn vill snúa við blaðinu og stefna í sjálfbært þjóðfélag þar sem þegnarnir virða móður jörð og rétt komandi kynslóða til lífs og velfarnaðar.“

Sjá nánar á heimsíðu Kvennalistans http://www.centrum.is/ kvennalistinn/

Páll Guðjónsson.

Hjólhesturinn febrúar 1997