Svona umferðarþing eins og var haldið 9. og 10. maí 1996 eiga sér ekki langa sögu en þau eru haldin þriðja hvert ár. Hingað til hefur þetta verið samkoma ýmissa aðila er tilheyra eða tengjast að einhverju leiti bílanotkun, bílaumferð og eða allri vélknúinni umferð. Það varð þó breyting á að þessu sinni því hjólreiðafólk fékk veður af þessu þingi í tíma og með tilkomu Landssamtaka hjólreiðamanna þótti tilvalið að koma með sjónarhorn þeirra í ræðupúlt. Var því Guðbjörg Halldórsdóttir fengin sem frummælandi frá Landssamtökunum. Frá Fjallahjólaklúbbnum mættu Magnús Bergsson og Haraldur Tryggvason.

Þarna mátti heyra margar skemmtilegar og athyglisverðar ræður. Fyrstur í ræðupúlt mætti Tryggvi Herbertsson sem greindi frá því að beinn kostnaður íslenska samfélagsins af bílanotkuninni á ári væri u.þ.b. 18.000.000.000 kr . Þar er þó ekki meðtalið umhverfisspjöll, mengun og eða huglægt mat á sorg einstaklinga sem verða fyrir ástvinamissi eða fötlun. Þar er aðeins tekin til beinn kostnaður í peningum enda er það, það eina sem virðist skipta mestu máli þegar öllu er á botninn hvolft, allavegna enn sem komið er. Þó að Hagfræðistofnun Háskólans hafi loks komið með raunhæfar tölur um þennan kostnað samfélagsins eru þær engan veginn fullnægjandi þar sem t.d. náttúru og umhverfi verður seint bættur sá skaði sem bíllinn hefur valdið henni.

Þó að í huga undirritaðs hafi þessi upphæð verið of lág, áttu ýmsir erfitt með að kyngja þessari tölu. Taldi Árni Sigfússon formaður FÍB sérkennilegt að mannslíf væru talin meira virði en það sem tryggingarfélög greiddu út í dánarbætur til líftryggðra, sem eru u.þ.b. 1-3 milljónir króna að meðaltali. Eftir að Tryggvi hafði útskýrt hvers vegna manneskjan væri talin verðmætari en bíllinn sem hafði slátrað henni og svarað öðrum fyrirspurnum utan úr sal fóru margir skráðir þáttakendur að tínast út af þinginu enda voru fjölmiðlar búnir að mynda samkomuna. Hafa því flestir sem létu sig hverfa eflaust verið sannfærðir um að
þessir "nýju" útreikningar mundu svo sem engu breyta í vinnu þeirra, að greiða fyrir og auka enn frekar flæði bílaumferðar.

Þetta þing var þó hið skemmtilegasta þar sem frummælendur voru af ýmsum toga og sjónarmiðin mörg. Af þeim mátti fræðast, hneykslast og hafa af verulega skemmtun. Á þinginu voru um tíma svo fáir að varla voru eftir aðrir en aðstandendur, næstu frammælendur og einstaka menn frá landsbyggðinni, sem því miður var um svipað leiti og Guðbjörg stóð í púlti og ræddi okkar málefni „Eru hjólreiðamenn hornrekur í umferðinni hér á landi“. Var þetta tekið fyrir og komu upp hugmyndir um að halda næsta umferðaþing úti á landi svo að sem flestir þingfulltrúar hefðu ekki að neinu að hverfa ef þeir færu úr þingsal. Það er von undirritaðs að svo verði þó ekki, því að hjólafélögin vaða því miður ekki í peningum til slíkra ferðalaga.

Þegar líða fór á þingið var fólki safnað saman í umræðuhópa þar sem hver hópur átti að vinna úr því sem komið hafði fram á þinginu og koma með tillögur að úrbótum í umferðamálum. Kom þar greinilega fram að nauðsynlegt væri að hafa óvélvæddan umferðarþolenda í hverjum hópi. Því bílar og bílamannvirki virtust heltaka þá umræðuhópa sem ekki var í hjólreiðamaður.

Um svipað leiti og þinginu var að ljúka og framundan voru aðeins „léttar veitingar“ í  boði  dóms-  og kirkjumálaráðherra fóru margir þinggestir að birtast á ný. Má því segja að þingið hafi þá loks orðið vinnufært!

En hvað má læra af þessu þingi? Það er ýmislegt. Það stendur ekki til að gera neitt raunhæft eða standa í neinum stórræðum til að bæta umferðamenninguna, fækka slysum, minnka útgjöld samfélagsins, hvað þá greiða náttúrunni og umhverfinu því sem frá henni er rænt enda er þetta þing ekki til þess, enn sem komið er. Það virðist afskaplega erfitt að   hægja á þeirri skrílræðisþróun sem ríkir í umferðarmálum, þar sem hvergi má hrófla við neinu. Því er ekki að vænta neinna breytinga. Sú umræða virtist vera svolítið áberandi að venja ætti börnin enn frekar og fyrr við bílakennslu svo að, eins og mér skildist, að þau gætu þroskast og dafnað enn frekar sem sannar og heiðarlegar bílaverur! Stærri og fyrirferðameiri umferðamannvirki fyrir bíla virtust heilla, til að auka „umferðaöryggi“ o.s.frv. Munið svo bara að brosa, spenna beltin, vera jákvæð og allsgáð undir stýri, eins og venjulega...

Hvað varðar okkur hjólreiðafólk þá verða hjólreiðafélögin að vinna hörðum höndum að því að fræða almenning um hvað það er í raun og veru sem hægt er að gera í samgöngumálum ef áhugi stjórnvalda væri fyrir hendi. Það er því miður allt of fátt hjólreiðafólk sem hefur í raun hugmynd um hvað það vill og hvað það getur fengið í bættri aðstöðu þó ekki væri nema hér á höfuðborgarsvæðinu. Þessi mál eru í margra augum því miður flókin, leiðinleg og óljós vegna brotalama í umferðalögum og þar sem allt umhverfi er miðað út frá þeirri hræsni að mega ekki hrófla við „eðlilegu flæði bílaumferðar“. Sú klisja er því miður enn það veganesti sem stjórnar pólitískum gjörðum í íslenskum umferðamálum.

Við eigum ekki aðeins að horfa til Danmerkur eða Hollands, við eigum að gera enn betur en þeir. Það verður meginmálefni hjólreiðafélaganna að fræða sína meðlimi og fá til þess erlenda sérfræðinga ef ekki vill betur. Sannfæra almenning og stjórnvöld um að bætt aðstaða hjólreiðafólks er ekki draumsýn heldur eitthvað sem stjórnvöld eru þegar búin að samþykkja með undirskrift ýmissa alþjóðlegra sáttmála. Hjólreiðafólk og gangandi fólk þarf því að fjölmenna á næsla umferðarþing og fylla í þá stóla sem hingað til hafa verið þétt settnir fólki tengdu bílageiranum. LÁTUM DRAUMINN VERÐA AÐ VERULEIKA, ÞAÐ VERÐUR ALLRA HAGUR.
Magnús Bergsson